Fyrirspyrjandi (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli á því að í ræðu minni með fsp. lagði ég enga dóma á það hvort Mannvirkjasjóður ætti að leggja fram fé til að byggja hernaðarflugvöll eða alþjóðaflugvöll sem væri þeirrar gerðar að hann gæti sinnt því hlutverki sem um ræðir.
    Það hefur komið skýrt fram í ræðum margra hv. þm. að brýn nauðsyn væri á því að hér á Íslandi væri byggður fullkominn alþjóðavaraflugvöllur og ber enginn brigður á það. Það hefur einnig komið fram í ræðu hæstv. utanrrh. að af hans hálfu væri í sambandi og í tengslum við hugsanlega aðild Mannvirkjasjóðs að slíkum flugvelli um að ræða flugvöll sem væri notaður á friðartímum í þágu farþegaflugs yfir Norður-Atlantshaf en ekki hernaðarflugs.
    Hins vegar liggur það í augum uppi, eins og margkom fram í umræðum á síðasta þingi, að alþjóðaflugvöllur þeirrar gerðar sem hér um ræðir yrði, ef til ófriðar kemur, að sjálfsögðu notaður sem hernaðarflugvöllur. Það gæti enginn komið í veg fyrir það né yfirleitt í sambandi við aðra flugvelli á Íslandi, hvort sem þeir eru stórir eða litlir.
    Og ég vil, virðulegi forseti, fá að þakka hæstv. utanrrh. fyrir hans greinargóðu svör. Það kom fram í svari hæstv. ráðherra og hann staðfesti að hann hefði átt viðræður við forráðamenn NATO um þetta mál. Hann tók hins vegar skýrt fram að enn hefði ekki verið tekin endanleg ákvörðun eða afstaða af hálfu opinberra aðila, þ.e. hæstv. ríkisstjórnar, hvort þessi forkönnun eigi sér stað eða ekki og ítrekaði að það væri á hans valdi, þ.e. hæstv. utanrrh., að láta hana fara fram þegar hann teldi það tímabært.
    Nú kom það fram í umræðum að einn stuðningsmaður núv. ríkisstjórnar, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, segir að ef slíkt yrði gert sé það brot á stjórnarsamningi. Þar með er það einnig staðfest að hæstv. ráðherra hefur ekki vald eða möguleika til að framkvæma nauðsynlega forkönnun, þar sem vitað er, hæstv. utanrrh., að alþýðubandalagsmenn sem eru í þessari ríkisstjórn hafa líf hennar í sinni hendi enda fór það ekki á milli mála í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Hann sagði skýrt og skorinort að verði þessi forkönnun framkvæmd sé það væri brot á stjórnarsamningi. Hv. þm. gaf ótvírætt í skyn að ef þessi forkönnun verður gerð mundi það verða þessari hæstv. ríkisstjórn að falli.
    Sem sagt, Alþb. ræður í þessu máli sem öðrum öllu innan ríkisstjórnarinnar er lýtur að meiri háttar málum okkar Íslendinga. Og það sem alvarlegra er: Þarna hefur alþýðubandalagsmönnum tekist að ná tökum á varnar- og öryggismálum Íslands í fyrsta skipti frá því að Ísland gerðist aðili að NATO og er það hörmulegt og mjög alvarlegt mál fyrir íslenska þjóð.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, fá að segja það og mótmæla því að af okkar hálfu, sem höfum verið að tala hér um varaflugvöll, séum við að óska eftir því að hér verði byggður hernaðarflugvöllur. Við erum

að óska eftir því að þátttaka Mannvirkjasjóðs í þessum varaflugvelli verði með þeim hætti að á Íslandi verði fyrir hendi alþjóðlegur flugvöllur sem hafi fullkomin móttökuskilyrði fyrir stórar tveggja hreyfla farþegaflugvélar, en þær fljúga nú æ tíðar yfir Norður-Atlantshaf, og einnig leggjum við áherslu á það, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, að með því móti getum við eflt það eftirlit sem er nauðsynlegt til að halda og vernda frið í Norður-Atlantshafi.