Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Nokkrir hv. þm. hafa í tilefni af þessari fsp. lýst þeirri skoðun sinni að það væri brot á stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar ef ákvörðun yrði tekin um að heimila forkönnun að því er varðar varaflugvöll með þátttöku Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins. Mér þykir brýnt að taka það alveg skýrt og skilmerkilega fram að þetta er á misskilningi byggt. Slíkt er að sjálfsögðu ekkert brot á stjórnarsáttmálanum. Ákvæði stjórnarsáttmálans var á þá leið að á stjórnartíma þessarar ríkisstjórnar skyldi ekki efnt til nýrra meiri háttar hernaðarframkvæmda. Um heimildina að því er varðar forkönnun verður að hafa það alveg á hreinu að hún er án allra skuldbindinga um framkvæmdir. Það að heimila forkönnunina þýðir enga skuldbindingu út af fyrir sig um framkvæmdina sjálfa þannig að þessi einstaka ákvörðun er svo sannarlega alls ekki neitt brot á ákvæðum stjórnarsáttmálans, fyrir utan það að hitt kann að vera túlkunaratriði, um mannvirki sem ekki yrðu til hernaðarnota á friðartímum, en það er aukaatriði málsins. Þetta er alveg ljóst og skýrt og nauðsynlegt að menn átti sig á því.
    Í annan stað vil ég leiðrétta þann misskilning sem fram kom í máli hv. 2. þm. Austurl. þegar hann sagði að hér væri um að ræða mál sem væri fram borið vegna sérstakra óska íslenskra stjórnvalda og vildi eigna mér þau orð. Það er algjör misskilningur. Í mínu máli kom skýrt fram: Enn hefur ekki verið tekið endanleg afstaða til óska um heimild íslenskra stjórnvalda til þess að forkönnun vegna varaflugvallar fari fram o.s.frv.
    Spurt var hver yrði kostnaður Íslands af því að gerast aðili að Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Um það hefur verið spurt áður á Alþingi og það hefur verið upplýst. Kostnaðurinn er um 40 millj. kr. á ári, nákvæmlega 38 millj. á verðlagi snemma á þessu ári, mundi þýða á framkvæmdatímabili sjóðsins, sem er sex ár, 230 millj. tæpar, en jafnframt mundi hljótast af annar kostnaður vegna þess að Ísland yrði þá gistiland framkvæmda og þá yrði að semja um það í hverju tilviki að hve miklu leyti Íslendingar tækju að sér kostnað vegna sérstakra framkvæmda fyrir utan kostnað við starfsemi sjóðsins að öðru leyti þannig að sá kostnaður yrði umtalsverður. Ég er á þessu stigi málsins, eftir allrækilega könnun, þeirrar skoðunar að það sé ekki tímabært að við gerumst aðilar að sjóðnum.
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Sjálfstfl. hafa m.a. lýst því að það væri mikill ábyrgðarhluti ef ekki yrði tekin þessi ákvörðun. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson lýsti því að hann hefði borið fullt traust til allra fyrrverandi utanríkisráðherra í þessu máli og hv. fyrirspyrjandi vildi með einhverjum undarlegum hætti álykta af þessu máli að nú hefði Alþb. í fyrsta sinn tekist að ná slíkum tökum á öryggismálum að þeir réðu þar ferðinni.
    Af þessu tilefni vil ég aðeins taka það skýrt fram

að fyrsta óskin um þetta mál var lögð fram árið 1985. Þann 5. jan. 1987 gerir þáv. ríkisstjórn með aðild Sjálfstfl. en engri aðild Alþb. samþykkt þess efnis að þessi forkönnun sem kostuð verði af Mannvirkjasjóðnum fari fram en verði framkvæmd af Íslendingum. En 6. febr. 1987 er allt í einu blaðinu snúið við. Þáv. hæstv. samgrh. ákveður þá, ekki utanrrh., samgrh., eftir samkomulagi innan þessarar ríkisstjórnar, að forathugun verði greidd af Íslendingum en ekki Mannvirkjasjóði og í framhaldi af því var veitt fjárveiting til verksins upp á 1 millj. kr., hv. fyrirspyrjandi. Og hvar var Alþb. þá? Það var ekki í þeirri ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Ég mun taka mína ákvörðun að vel athuguðu máli en það stendur kannski upp á hv. þm. Sjálfstfl. að svara því. Hverju reiddust goðin? Hvað dvaldi þá frá árinu 1985 til 1987 og hvers vegna var þetta allt í einu orðið að mús, einni millj. kr.?