Lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í máli hv. fyrirspyrjanda þá var samþykkt hér á Alþingi till. til þál. um að undirbúa ætti tillögur um lífeyrisréttindi þeirra sem eingöngu sinna heimilis- og umönnunarstörfum.
    Þegar þessi þáltill. var samþykkt var væntanlegt álit 17 manna endurskoðunarnefndar lífeyriskerfisins enda var vinnan við það komin á lokastig og 29. maí 1987 var samþykktur texti að lagafrumvarpi.
    Fyrirrennarar mínir í embætti hafa haft þennan texta síðan til meðferðar. Eins og fram hefur komið í umræðum hér á Alþingi áður hefur frv. ekki verið lagt fram en ég hef hins vegar tekið ákvörðun um það að leggja frv. fram nú á þessu þingi. Það er þess vegna ljóst að þegar frv. verður lagt fram hér á þinginu þá skapast tækifæri til þess að taka á lausn þessa vandamáls í samhengi við heildarbreytingar á lífeyrissjóðakerfinu í landinu.
    Eins og hv. þm. er kunnugt eru ellilífeyrisréttindi hjóna nú beinlínis tengd þeirri persónu sem greiðir iðgjaldið enda þótt önnur eignamyndun af tekjum hjónanna hvors um sig sé talin hjúskapareign og komi til skipta við slit hjúskapar. Í því frv. sem ég hef hér vikið að og verður lagt fram á Alþingi er hins vegar lagt til að með myndun ellilífeyrisréttinda verði farið sem hverja aðra eignamyndun hjóna meðan það hjónaband stendur og komi réttindin til skipta við skilnað. Jafnframt er lagt til að um skipti þessara eigna við skilnað gildi ævinlega að þau deilist jafnt niður á hjónin. Hér er því um töluvert réttlætismál að ræða og veit ég að hv. fyrirspyrjanda og öðrum þm. er mikið í mun að gerðar verði breytingar sem feli í sér að þessu skipulagi verði komið á. Það þarf hins vegar að tryggja það að framkvæmdaörðugleikar við þessar breytingar verði ekki mjög miklir en þeir geta auðvitað reynst töluverðir í því flókna og margbrotna lífeyrissjóðakerfi sem við búum við í dag. Hins vegar tel ég að það sé hægt að yfirstíga þá erfiðleika og það eigi að vera hægt að koma breytingum á í þessum efnum þegar heildarlöggjöf um lífeyrisréttindi landsmanna verður afgreidd. Ef vilji er fyrir því á hv. Alþingi að taka þetta mál sérstaklega út úr þá gefst tækifæri til þess þegar frv. um lífeyrisréttindin og endurskoðun lífeyriskerfisins verður lagt fram hér á Alþingi síðar á þessu þingi.