Lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að þetta mál er mjög brýnt. Ég vek hins vegar athygli hv. alþm. á því að í þessu þjóðfélagi hefur staðið mikil umræða um lífeyrissjóðakerfið og margar endurbætur á því sem taldar eru mjög brýnar. Mjög sterk og fjölmenn samtök launafólks í landinu og aðrir hagsmunaaðilar vilja láta skoða margvísleg mál í ákveðnu samhengi við þá endurskoðun. En ég vil líka vekja athygli á því að við erum með tryggingakerfi í landinu eins og hv. síðasti ræðumaður vék að og staðreyndin er sú að þær greiðslur og bætur sem koma úr almannatryggingum eru í fjölmörgum tilvikum hærri eða mjög svipaðar og þær greiðslur sem fást úr lífeyrissjóðunum. Það er ekki verið að tala hér um það að annars vegar sé fólk sem er í lífeyrissjóðum sem fái mikið í sinn hlut og hins vegar aðrir, t.d. heimavinnandi fólk, eða makar sem ekki hafa safnað í lífeyrissjóð, sem ekki fái neitt. Sem betur fer erum við með öflugt almannatryggingakerfi og reynslan og tölur sýna að mörg þúsund manns sem ekki hafa greitt í lífeyrissjóði, þar með fólk sem hefur unnið heima og eingöngu hefur sinnt störfum á heimilum, fær út úr tryggingakerfinu svipaðar upphæðir og í sumum tilvikum hærri upphæðir en þeir fá út úr lífeyrissjóðunum sem þangað hafa greitt.