Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson):
    Virðulegi forseti. Setning laga um málefni fatlaðra árið 1983 var án efa mikið framfaraspor og að mörgu leyti tímabær. Meðal þess sem samþykkt var með setningu þessara laga var 10. gr. sem oft er vitnað til og hér er spurt um framkvæmd á, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Fatlað barn á aldrinum 0--18 ára sem dvelur í heimahúsi eða nýtur takmarkaðrar þjónustu og þarfnast sérstakrar umönnunar eða gæslu að dómi svæðisstjórnar á rétt á aðstoð eftir því sem við verður komið. Viðkomandi svæðisstjórn skal sjá um að þessi aðstoð verði veitt.
    Kjósi framfærendur að annast þetta sjálfir og telji svæðisstjórn og viðkomandi greiningar- og ráðgjafaraðili þá hæfa og aðstoðina nauðsynlega, skal greiða fyrir 20--175 klukkustundir á mánuði eftir mati svæðisstjórnar og skv. 8. taxta verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Heimilt er að hækka þessar greiðslur beri brýna nauðsyn til að mati svæðisstjórnar. Greiðsla og aðstoð skv. þessari grein annast lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins.``
    Tilgangur þeirrar fsp. sem hér er lögð fram er sá að grennslast fyrir um hvernig gengið hafi að fylgja eftir þeirri stefnu sem sýnist hafa verið mörkuð í þessari grein og með setningu laga um málefni fatlaðra, en þar á ég við að þeim aðstandendum sem annast fötluð börn sín í samráði við svæðisstjórnir fatlaðra og hafa þau í heimahúsum væru tryggðar lágmarkstekjur í hlutfalli við tímalengd umönnunarinnar.
    Eins og sjá má af fsp. er hún greind í nokkra liði og fylgir því tímabili sem hér er um að ræða og því verður forvitnilegt að fá að vita hver þessi þróun hefur verið.