Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi greindi frá því, þegar hún tók viðmiðunina sem var 1. sept. 1989 eða 28 þús. fyrir hámarksgreiðslur, að um væri að ræða skerðingu hjá einhverjum sem fá slíkar greiðslur. Ég hygg að á því sé sú skýring að þessar greiðslur geta verið mismunandi, allt eftir því hvað sá fatlaði nýtur mikillar þjónustu utan heimilis, þannig að þær geta verið fyrir 20--175 klst. og því eru greiðslur mismunandi. Þó að yfirleitt sé reynt að fara í efri mörkin, eins og ég greindi frá hér áðan og aldrei farið lægra en í fjórðung af hámarkstekjum, þá getur í sumum tilfellum verið um skerðingu að ræða.
    Þessari endurskoðun sem nú stendur yfir lýkur senn og er stefnt að því að ný reglugerð taki gildi um áramótin. Ég hef ekki viljað hraða henni vegna þess að, eins og ég greindi frá áðan, þá verða þarna 50--60 börn sem ekki mundu fá greiðslu skv. þessari reglugerð og skýrði ég það áðan að þessari reglugerð hefur verið beitt miklu rýmra en lögin gera ráð fyrir. Ég tel nauðsynlegt að þessir einstaklingar fái greiðslur skv. almannatryggingum og það verði þá skoðað sérstaklega með hvaða hætti slíkar greiðslur yrðu til þessara einstaklinga áður en sú reglugerð tekur gildi sem væntanlega verður um næstu áramót.