Fjármál og fjárveitingar ríkisstofnana
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til fjmrh. um fjármál og fjárveitingar til ríkisstofnana:
    ,,1. Hvaða aðilar ríkisins, stofnanir eða ráðuneyti, voru rekin innan ramma fjárlaga 1988?
    2. Hver er hlutfallsleg hækkun í fjárlögum 1988 og 1989 og í fjárlagafrv. 1990 til þessara stofnana milli ára? Er þá átt við samanlagt reglulega starfsemi, nýjungar í starfsemi og fjárfestingar.
    3. Hvaða 10 aðilar, stofnanir eða ráðuneyti, fóru mest umfram fjárlög árið 1988?
    4. Hver er hlutfallsleg hækkun í fjárlögum 1988 og 1989 og fjárlagafrv. 1990 til þessara aðila milli ára? Er þá átt við samanlagt reglulega starfsemi, nýjungar í starfsemi og fjárfestingar.``
    Tilgangurinn með þessari fsp. er tvíþættur. Annars vegar hafa alþingismenn nú undir höndum skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings þar sem gerðar eru athugasemdir við uppgjör ýmissa stofnana og fyrirtækja ríkisins. Eðlilega koma fram í þessari skýrslu aðallega athugasemdir um það sem betur mætti fara og það hefur eðlilega einnig orðið nokkuð að umræðuefni í fjölmiðlum.
    Annað meginmarkmið þessarar fsp. er að fá fram hvaða stofnanir það voru sem tókst með aðhaldi og sparsemi að halda sig innan fjárlaganna. Það er mikilvægt
að menn fái að sjá hvaða stofnanir þetta eru. Hitt atriðið er að bera saman hver hlutfallsleg hækkun á fjárlögum er milli þeirra sem annars vegar halda sig innan fjárlaganna og hins vegar hinna sem mikið fara fram yfir.
    Ég ætla ekki að fjölyrða það mikið nú, en það er alveg ljóst að það er mjög mikilvægt fyrir ríkissjóð að einhver innbyggður hvati sé í ríkisrekstrinum þannig að fyrirtækjum og stofnunum sé ekki beinlínis refsað fyrir aðhald, fyrir að halda sig innan fjárlaga. Það mun seint ganga að ná tökum á sparnaði innan ríkisrekstrarins ef svo er. Ég bind miklar vonir við þær tölur sem fjmrh. væntanlega mun birta nú og að þær skýri þau atriði sem fyrir mér vaka með þessari fsp.