Fjármál og fjárveitingar ríkisstofnana
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Þær fsp. sem hér eru bornar fram eru að ýmsu leyti nokkuð flóknar ef veita á sanngjarna mynd af því hvers vegna breytingar eiga sér stað frá einu ári til annars. Það er auðvitað nokkur hætta á því ef birtur er listi af því tagi sem óskað er eftir án skýringa eða nánari umfjöllunar að menn dragi af slíkri töflu rangar ályktanir. Bæði getur verið að í upphaflegum fjárlagatölum hafi verið vanáætlað fyrir eðlilegri starfsemi og eins er starfsemi ríkisstofnana og ráðuneyta mjög mismunandi í eðli sínu þannig að breytingar á verðlagsforsendum og launaforsendum koma mjög misjafnlega niður á einstakar ríkisstofnanir. Þar að auki eru í fjárlögunum 400--500 sérgreindir fjárveitingaliðir, stofnanir og verkefni mjög ólíkir í eðli sínu, stórir og smáir, svo að slík stigatafla sem spurt er um veitir í raun og veru mjög takmarkaða mynd af því sem fyrst og fremst er verið að leita eftir í fsp. og ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um að er mjög mikilvægt atriði.
    Eins og ég gat um áðan eru verðlagsbreytingarnar meginþátturinn sem breytir útgjöldum ríkisstofnana frá fjárlögum og til ríkisreiknings yfirleitt. Þó geta verið á þessu margvíslegar undantekningar. En áhrif þessara verðlagsbreytinga á útgjöld stofnana eru mjög misjöfn eftir því hvernig útgjöld stofnananna eru saman sett. Ákvarðanir sem teknar eru á árinu af stjórnvöldum geta þar að auki breytt líka fjárhags- og greiðslustöðu stofnana. Má þar t.d. nefna aukafjárveitingar, breyttar ákvarðanir um tekjuöflun og þá er rétt að hafa það einnig í huga að skuldastaða við árslok og ekki síst aðstaða stofnana til að mynda skuldir hjá viðskiptaaðilum er mjög misjöfn og mjög misjafnlega notuð. Öll þessi atriði gera það að verkum að það er í raun og veru ókleift með sanngjörnum hætti og án þess að veita villandi lýsingu að leggja mat á efni fsp. í því stutta máli og á þeim stutta tíma sem fyrirspurnartími hér á Alþingi leyfir.
    Ég vil hins vegar vekja athygli á því að það hefur verið lagður fram ríkisreikningur fyrir árið 1988 þar sem fjárveiting til hverrar og einnar stofnunar, svo og reikningsniðurstöður koma fram. Má í þessu sambandi sérstaklega vekja athygli á yfirliti gjalda á bls. 251 og 259, þar sem dregnar eru saman niðurstöður gjalda og gerður samanburður á fjárlögum og greiðslum og tekið tillit til aukafjárveitinga og tel ég ekki ástæðu til þess að ég sé hér að þylja þær tölur sem koma fram á þessum blaðsíðum ríkisreikningsins þar sem þær eru birtar. Þar að auki hefur á Alþingi verið dreift skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreikningsins og Ríkisendurskoðunar fyrir þetta ár og með athugasemdum. Þar að auki mun ég innan tíðar leggja fram frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1988 þar sem framangreint efni verður til umfjöllunar og betri tími gefst, m.a. lengri umræðutími, til þess að fjalla um þetta atriði.
    Ég vil hins vegar til þess að veita hv. fyrirspyrjanda einhverja úrlausn innan þeirra tímatakmarkana sem þetta knappa fyrirspurnarform

setur nefna hér ýmsar ríkisstofnanir sem voru innan ramma fjárlaga á því ári sem hann spyr um og jafnframt rekja hlutfallsbreytingar hjá þessum stofnunum í frv. til fjárlaga 1990 samanborið við fjárlög 1989. En eins og hv. alþm. munu sjá eru þetta mjög ólíkar stofnanir og vafasamt að hægt sé að draga af þessari skrá einhverjar sérstakar ályktanir. (Forseti hringir.) Ég mun ljúka þessu á einni til tveimur mínútum, virðulegi forseti, en eins og ég gat um áðan, þá er voðalega erfitt að svara þessari fsp. á þessum knappa umræðutíma hér.
    Fjölbrautaskóli Suðurnesja var 6% innan við fjárlög, er með 34% breytingu hins vegar í fjárlagafrv. fyrir 1990. Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum var 1% innan við fjárlög en verður með 35% breytingu í fjárlagafrv. fyrir 1990. Vélskóli Íslands var 8% innan við fjárlög, en er með 11% breytingu í frv. fyrir 1990. Aðalskrifstofa sjútvrn. 10% innan við fjárlög en er með 30% breytingu í frv. fyrir 1990. Ríkissaksóknari er 12% innan við fjárlög og er með 13% í frv. fyrir 1990. Bifreiðaeftirlit ríkisins 30% innan við fjárlög, en er ekki sérstakur liður í frv. til fjárlaga fyrir 1990 eins og þingmönnum er kunnugt. Vita- og hafnamálaskrifstofa 1% innan við fjárlög, með 2% í mínus í frv. fyrir 1990. Siglingamálastofnun er akkúrat á fjárlögum, en er með 27% breytingu.
    Nokkrar aðrar stofnanir mætti einnig nefna af þessu tagi en ég hef rakið þær helstu sem eru innan við fjárlög og að mestu leyti. Síðan eru nokkrar stofnanir með 1 eða 2% yfir. (Forseti hringir.) Ég er nú að ljúka máli mínu, virðulegi forseti.
    Hvað snertir þær stofnanir sem eru með einna hæstu hlutfallstölu umfram fjárlög, þá er þar einnig um að ræða mismunandi safn stofnana og ólíkar að gerð. Ég nefni hér nokkrar: Þjóðskjalasafn Íslands 63% fram yfir fjárlög með 16% breytingu í frv. fyrir 1990. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ 37% umfram með 54% í frv. fyrir 1990. Sýslumaðurinn og bæjarfógetinn á Seyðisfirði 34% umfram, 30% breytingu í frv. fyrir 1990. Sýslumaðurinn og bæjarfógeti á Eskifirði 39% umfram, 24% breytingu í fjárlagafrv. Hegningarhúsið í Reykjavík 30% umfram. Heilbrrn., aðalskrifstofa 40% umfram. Sjúkrahúsið í Keflavík 47% umfram, 20% breyting í fjárlögum. Ríkisbókhaldið 123% umfram, 31% í fjárlögum, Iðntæknistofnun Íslands 41% umfram, 4% í fjárlögum.
    Ég vænti þess að þessar tölur varpi nokkru ljósi á það sem hv. fyrirspyrjandi spurði um, en endurtek það sem ég sagði í upphafi að til þess að geta dregið einhverjar ályktanir af slíkum töflum þarf að liggja ítarleg greining á bak við breytingarnar hjá hverri stofnun fyrir sig vegna þess að ástæður þeirra eru mjög mismunandi, enda eðli stofnananna ólíkt.