Fjármál og fjárveitingar ríkisstofnana
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka fjmrh. fyrir þessi svör og vil jafnframt taka undir með honum að það er auðvitað engan veginn auðvelt að svara þessum spurningum í stuttum fyrirspurnartíma. Það er rétt að samanburður er glettilega flókinn og menn mega ekki draga fljótfærnislegar ályktanir af þeim tölum sem hér eru lagðar fram. Ég geri mér grein fyrir því að um þetta efni má sjálfsagt skrifa heila doktorsritgerð ef menn vildu fara vel yfir.
    Ég varð hins vegar fyrir dálitlum vonbrigðum með svörin, sérstaklega þegar talin eru upp þau fyrirtæki sem innan fjárlaga voru. Ég nefni það strax hér að mér finnst líklegt að það séu gríðarlega stór fyrirtæki innan ríkisgeirans sem hafa verið undir og skipta mjög miklu máli. Ég nefni í því sambandi ríkisspítalana sem eru eitthvert allra stærsta fyrirtæki landsins og voru á árinu 1988 um 1% undir fjárlögum samkvæmt þeim tölum sem ég hef. Það náðist með gríðarlega miklu aðhaldi, mikilli vinnu og aðhaldi yfirstjórnenda spítalans og með mikilli samvinnu við nánast starfslið allt. Það varð að þrengja að á öllum sviðum, en niðurstaða fjárlaga 1990 er sú að hækkun á rekstri ríkisspítalanna er lítil samanborið við aðrar sjúkrastofnanir. Þetta vekur upp ýmsar spurningar og gerir í rauninni mjög erfitt um vik að beita aðhaldi áfram í stjórnun slíkra stofnana vegna þess að þær skýringar koma einfaldlega fram hjá starfsfólki sem lagt hefur sig mjög fram að það sé þýðingarlaust. Þeir sem með minni vandvirkni hafi reynt að fylgja fjárlögunum njóti þess síðan við fjárlagagerð næsta árs, fái hærri fjárveitingar, fleiri stöður og meira fé til umráða.
    Enn á ný skal ég taka undir að þessi samanburður er glettilega erfiður, en þessi umræða er nú orðin mjög sterk innan ýmissa stofnana ríkisins. (Forseti hringir.) Á þeim stutta tíma sem ég hef, forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu, vil ég beina því mjög til fjmrh. að hann taki það til sérstakrar athugunar, og ég veit að jafnglöggur maður og hann er gerir sér grein fyrir því, að það er kjarni þess að unnt sé að ná fram sparnaði og aðhaldi í ríkisrekstrinum að þeir sem best beita sér og mestum árangri ná fái það ekki á tilfinninguna og sem sinn skilning að þeim sé beinlínis refsað fyrir. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði.
    Ég vonaðist til að geta fengið svör við þessum spurningum með fsp. Það hefur því miður ekki tekist og þar er sjálfsagt ekki við fjmrh. að sakast. Spurningin er yfirgripsmeiri en svo að á henni sé hægt að festa hendur nægilega á þessum stutta tíma, en það bendir til þess að það þurfi að taka málið og spurningarnar öðrum tökum og kannski undir öðrum lið.