Fjármál og fjárveitingar ríkisstofnana
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Aðeins nokkur orð í belg þessarar umræðu, hæstv. forseti. Þetta er nefnilega afar mikilvægt atriði sem var komið inn á í umræðunni um fsp. sem er að stofnunum er beinlínis refsað fyrir að sýna aðhaldssemi. Það er ekki bara um ríkisspítalana að ræða sem er einmitt mjög gott og nýlegt dæmi því að þetta kom fram á nýlegum fyrsta ársfundi ríkisspítalanna. Þetta á líka við um ýmsar rannsóknastofnanir, stofnanir atvinnuveganna t.d. sem hafa möguleika á sjálfsaflafé, að um leið og þeim vegnar eitthvað betur í þeim efnum eru þær jafnframt og jafnharðan skornar niður við trog hvað varðar reglubundnar fjárveitingar úr ríkissjóði. Og það er kannski ekki meginmálið, 1%, 5% fram yfir. Mig langar til þess að spyrja hæstv. fjmrh.: Liggur þessi vandi --- sem hann hlýtur að viðurkenna að er raunverulegur og hann hlýtur að viðurkenna að það verður að vera innbyggður hvati og umbun fyrir menn til þess að þeir haldi áfram að vilja sýna aðhaldssemi í rekstri --- liggur þetta ekki í gerð fjárlaganna? Nú eru margar aðferðir til við að gera fjárlög og okkar fjárlagagerð hér á landi, hygg ég, hefur verið um of stofnanabundin. Hún hefur ekki verið nærri nóg verkefnabundin og þess vegna ekki nógu hreyfanleg eða ,,dynamisk``. Liggur þessi vandi ekki einmitt í því að gerð fjárlaganna er með þeim hætti sem hún er? Og hefur hæstv. fjmrh. í hyggju að leggja drög að nýrri gerð fjárlaga, þ.e. nýjum aðferðum við fjárlagagerð?