Fjármál og fjárveitingar ríkisstofnana
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þetta tækifæri. Ég vil svara þeirri fsp. sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir beindi til mín. Í grg. með fjárlagafrv. kemur fram sú tillaga mín að við fjárlagagerð næstu ára verði viðhöfð sú regla sem kennd hefur verið við rammafjárlög. Hún felur það í sér að viðkomandi ráðuneyti, í þessu tilviki heilbrrn., og þá viðkomandi undirstofnanir þess, fær ákveðna heildarupphæð til ráðstöfunar og síðan er það verkefni viðkomandi ráðuneytis og viðkomandi fagstofnana að ráðstafa þeirri upphæð eftir því sem stjórnendur þessara stofnana telja best og raunhæfast.
    Fjmrh. hefur því þegar tekið ákvörðun um það að breyta þessum vinnubrögðum sem hv. þm. vék að. Ég hef sannfærst um það að þau eru einn af þeim þáttum sem valda því að þessi mál hafa ekki verið í nógu góðu lagi hjá okkur Íslendingum á undanförnum árum. Ég vænti góðs samstarfs við ráðuneyti og ríkisstofnanir í þessum efnum.
    Þær upplýsingar sem ég greindi frá varðandi ríkisspítalana liggja fyrir í ríkisreikningnum sem hv. alþm. fengu fyrir nokkrum vikum síðan og þær sýna það að fullyrðingar um að ríkisspítalarnir hafi verið innan ramma fjárlaga eru því miður ekki réttar. En hitt vil ég svo taka skýrt fram að fjármálastjórn ríkisspítalanna er með því besta sem þekkist í ríkiskerfinu og þau lofsyrði sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson fór með varðandi fjármálastjórn ríkisspítalanna eiga fyllilega rétt á sér.