Samningaviðræður við EB
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er væntanlega öllum hv. alþm. kunnugt að á næstu tveimur til þremur árum munu ráðast örlög markaða og efnahagsmála í Evrópu með afdrifaríkari hætti heldur en gerst hefur í marga áratugi. Ártalið 1992 hefur orðið eins konar tákn fyrir þessar breytingar. Það er einnig ljóst að við Íslendingar flytjum nú þegar út meginhluta okkar útflutnings á evrópskt markaðssvæði svo að það er brýnt efnahagslegt hagsmunamál fyrir okkur að okkur takist að ná traustum og góðum samningum við Evrópubandalagið um þetta efni.
    Nú þegar eru þeir tollar sem við þurfum að greiða fyrir sjávarafurðir okkar á markaði Evrópubandalagslandanna töluverður efnahagslegur baggi fyrir okkur Íslendinga. Ætlum við enn fremur að skapa skilyrði til þess að flytja fullunnar sjávarafurðir og fá aukið verðmæti úr okkar sjávarafla inn á markaði í Evrópu, þá er einnig nauðsynlegt að tryggja þann farveg með samningum. Þess vegna er það auðvitað alveg ljóst að næsta ár verður viðamikið samningaár um þessi efni. Þær samningaviðræður geta gerst með þrennum hætti. Þær geta gerst í fyrsta lagi með þeim hætti að EFTA-ríkin saman gangi til þeirra viðræðna. Þær geta í öðru lagi gerst með þeim hætti að hvert og eitt EFTA-ríki fyrir sig ræði að öllu leyti eða að hluta við Evrópubandalagið og þær geta í þriðja lagi gerst með þeim hætti að ráðherrar og aðrir stjórnmálalegir forustumenn okkar lands eða annarra EFTA-ríkja ræði við ráðherra og stjórnmálalega forustumenn í einstökum ríkjum Evrópubandalagsins, en ekki aðeins við embættismennina í Brussel.
    Sjútvrh. átti nýlega slíkan fund með nokkrum sjávarútvegsráðherrum Evrópubandalagsins. Sá fundur var mjög mikilvægur og skilaði mikilvægri vitneskju í þessum efnum. Það er einnig ljóst að forsrh. Íslands og utanrrh. Íslands hafa átt tvíhliða viðræður við forustumenn í ríkisstjórnum einstakra Evrópubandalagsríkja í þessum efnum.
    Það hefur ekki verið tekin um það ákvörðun hér og nú hver af þessum samningaleiðum verður aðalleiðin á árinu 1990. Það getur líka verið að þær verði allar farnar að einhverju leyti eða blanda þeirra verði breytileg, jafnvel önnur í upphafi ársins heldur en í lok ársins. Ég er persónulega þeirrar skoðunar að það eigi að halda öllum þessum möguleikum opnum. Það eigi ekki síst að leggja áherslu á þriðju leiðina sem ég nefndi sem eru beinar pólitískar viðræður íslenskra ráðamanna við forustumenn Evrópubandalagsríkjanna líkt og forsrh. og utanrrh. áttu við Frakklandsforseta hér í Reykjavík fyrir nokkrum dögum síðan.
    Þegar allt þetta er lagt saman er auðvitað alveg ljóst að útgjöld Íslendinga vegna slíkra margháttaðra og margvíslegra viðræðna á næsta ári verða mun meiri en á þessu ári og þannig eru tilkomnar þær tölur sem í fjárlagafrv. eru sem skýrðar eru með þessum augljósa hætti.