Samningaviðræður við EB
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Sigríður Lillý Baldursdóttir:
    Hæstv. forseti. Frelsi er líklega það sem oftast ber á góma í umræðunni um EB og hugsanlega samninga EB og EFTA eða EB og Íslands. Frelsin fjögur, þar á meðal frjálst flæði vinnuafls sem oft er nefnt ódýrt eða dýrt vinnuafl. Þá er átt við ódýrt eða dýrt fyrir launagreiðandann en ekki launþegann og þar vega launatengd gjöld sem tengjast félagslegum réttindum þungt. Sjónarhornið í umræðunni um samningana virðist ætíð vera vinnuveitandans. Að tala um flæði vinnuafls rétt eins og að tala um flæði fjármagns lýsir í raun því hugarfari að manneskjan sé ekki hátt skrifuð þegar frelsi gróðans er annars vegar.
    Þó það skref sem taka á 1992 í samskiptum landa innan EB hafi átt sér langan aðdraganda eru ótal þættir enn óleystir varðandi frelsin fjögur. Þarna eins og svo oft áður virðist sem fyrst hafi verið spurt hvað sé best fyrir fjármagnið, fyrir fyrirtækin, bankana, atvinnulífið, iðnaðinn o.s.frv., samsett í eitt orð, hagvöxtinn. Orðið hagvöxtur vísar til aukinnar hagsældar og því er eðlilegt að ætla að skilyrðislaust beri að stefna að auknum hagvexti. En þegar undir er skyggnst kemur í ljós að hagvöxturinn metur einskis ýmsa þá hluti sem verulegu máli skipta í lífi fólks eins og t.d. aukinn frítíma og þar á meðal meiri mannleg samskipti. Allt það starf sem ekki er sannanlega launað í samfélaginu, hvort sem þar er um að ræða ólaunaða vinnu innan heimilis við umönnun og uppeldi, framleiðslu, þjónustu og annað, er ekki tekið inn í hagvöxtinn.
    Það er að koma æ betur í ljós ef menn vilja á annað borð sjá ljósið að lítillar forsjálni hefur gætt í ákvörðunartekt. Fyrst er ákveðið kerfi, efnahagskerfi, og þá standa menn frammi fyrir því að manneskjurnar passa ekki fyllilega inn í það, þá er hafist handa við að plástra kerfið sem þá getur endað með óskapnaði.