Samningaviðræður við EB
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Meðferð hv. þm. Kvennalistans á þessum fyrirspurnatíma minnir mig á þá siðvenju í breska þinginu að menn notfæra sér þann möguleika í þingsköpum til að standa upp og bera fram fsp. til ráðherra hvað ráðherrann hyggist gera kl. fjögur og nota það tilefni til þess að flytja síðan langar ræður um ýmislegt annað en spurt var um.
    Ég ætla ekki að víkja að þeim ræðum sem hér voru fluttar enda eru tvær af þingkonum Kvennalistans sem fluttu þessar ræður farnar úr salnum þannig að það virðist ekki vera mikill áhugi á því að heyra hvað maður hefur um það að segja sem þær báru fram. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að það hefur verið ákveðið að fram fari ítarleg umræða hér á Alþingi um þessi mál síðar í þessum mánuði og þá gefst rækilegt tækifæri til þess að ræða þau sjónarmið sem hér hafa verið sett fram.
    Ég vænti þess að mönnum sé ljóst, m.a. af fundi með Mitterandforseta Frakklands, hvað beinar pólitískar viðræður forustumanna Íslendinga og forustumanna Evrópubandalagsríkjanna geta haft í för með sér og ég þurfi þess vegna ekki að útskýra nánar hvað ég eigi við þegar ég sé að tala um beinar pólitískar viðræður milli íslenskra stjórnvalda og stjórnvalda einstakra Evrópubandalagsríkja.
    Einn ræðumaður beindi þeirri spurningu til mín hvernig væri hægt að tryggja að Íslendingar hefðu forræði á fiskveiðifyrirtækjum sínum og auðlind hafsins innan Evrópubandalagsins. Það er flókið mál sem ég get ekki svarað hér í stuttum tíma, en vek hins vegar athygli á því að hvað sem líður viðræðum okkar við Evrópubandalagið sýnir þróun mála nú þegar að við þurfum að velta því rækilega fyrir okkur hvernig við tryggjum forræði okkar á fiskveiðum og fiskvinnslu í landinu, hvort sem við erum í Evrópubandalaginu eða utan.