Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Á þinginu 1987--1988 lagði ég, ásamt þm. Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur og Guðmundi Ágústssyni, fram þáltill. þess efnis að keypt yrði fullkomin björgunarþyrla fyrir Landhelgisgæsluna. Sú tillaga var samþykkt örlítið breytt þann 11. maí 1988, svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera athugun á kostnaði við kaup og rekstur á björgunarþyrlu af bestu fáanlegri gerð fyrir Landhelgisgæsluna.``
    Síðan leið eitt ár og ekkert hafði gerst. Þá lagði ég fram fsp. á síðasta þingi samhljóða þeirri sem ég er nú að mæla fyrir og þá svaraði hæstv. fyrrv. dómsmrh. á þá lund m.a. að hann hefði sent Fjárlaga- og hagsýslustofnun bréf þar sem hann fór fram á að þessi könnun yrði framkvæmd. Síðan kom fram í svari hans að Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefði ekki unnist tími til að ljúka þessari athugun vegna gerðar fjárlagafrv. en hann ætlaði að sjá til þess að þessu verki yrði hraðað og ítarleg könnun mundi liggja fyrir fljótlega. Nú hef ég ekki orðið var við að þessi könnun hafi farið fram. Ég vona hins vegar að það komi fram í svari hæstv. ráðherra að svo hafi verið. Ég vil því fá að leggja fram þessa fsp. hér á þskj. 95 sem hljóðar svo:
    ,,Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþingis frá 11. maí 1988 um athugun á kostnaði við kaup og rekstur á björgunarþyrlu?``
    Það er að sjálfsögðu hægt að hafa langt mál um nauðsyn og mikilvægi þessa máls. Ég vil þó geta þess að bæði mér og hv. þm. Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur hafa borist í hendur fjölmargir undirskriftalistar þar sem tekið er undir þessa tillögu og nauðsyn þess að þyrla verði keypt.
    Það má líka koma fram að víða um bæ, hjá félögum og stofnunum er verið að samþykkja ályktanir í þessa veruna. Það fara fram fjársafnanir og eins og ég sagði fyrr, undirskriftir um allt land. Það er því vissulega brýnt að ríkisstjórnin taki nú til hendinni í þessu máli og ég vil geta þess hér að kaup á svona þyrlu gerast ekki á einum degi eða yfir nóttu. Bara sá liður að afgreiðslutími á fullkominni björgunarþyrlu er sennilega um tvö ár gerir það að verkum að við verðum að fara að taka ákvörðun.
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki meira að segja í framsögu fyrir þessari fsp.