Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hans greinargóðu svör þar sem vissulega kemur fram það sem allir vita að bæði kaup á slíkri þyrlu og rekstur eru afar dýr. Þetta var öllum kunnugt þó að tölur hafi ekki fengist fram fyrr en núna. Það er hins vegar í raun og veru ekki hægt að setja verð á öryggi þjóðar og þegna og því saknaði ég þess að heyra ekki ákveðna stefnu hjá ráðherranum aðra en þá sem ég gat skilið út úr orðum hans að það væri of dýrt fyrir íslenska þjóð að eignast slíkt öryggistæki sem björgunarþyrla er.
    Ráðherrann eyddi töluverðum tíma í það að ræða um afísingarbúnað sem er, eins og kom fram í upphaflegri þáltill., eiginlega algert frumskilyrði að sé til staðar. Þó hann nýtist kannski ekki nógu vel hjá Norðmönnum eða einhvers annars staðar í heiminum þá vill nú svo til að bara tiltölulega nýlega gat Landhelgisgæslan ekki sinnt bráðatilfelli, hún varð að snúa við þegar hún var komin langleiðina á slysstað, vegna ísingar. Í þessu tiltekna dæmi hefði þyrlan komist á leiðarenda ef hún hefði verið með afísingarbúnað. Ég skal ekkert segja hverju það hefði breytt í því tilfelli, en tilfellin geta komið upp við slæmar aðstæður þar sem þessi búnaður er alger nauðsyn. Aðallega sakna ég þess að heyra ekki hjá ráðherra hvort ríkisstjórnin hyggst standa að kaupum á slíkri þyrlu. Staðan í dag er þannig að Landhelgisgæslan á aðeins eina þyrlu og við þurfum ekkert að fjölyrða um hvað skeður ef sú þyrla bilar, ég tala nú ekki um ef hún bilar alvarlega. Þá er eins og við kyngjum alltaf þjóðarrembunni. Þá hlaupum við til Kanans og fáum þyrlu hjá þeim. Ég óska því eindregið eftir að ráðherrann gefi okkur svona smá ,,hint``, á slæmri íslensku, um hver stefna ríkisstjórnarinnar er í þessu efni.
    Ég vil að lokum aðeins minnast á þessar undirskriftir sem hv. 11. þm. Reykv. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir kom hér inn á og nefndi töluna 3000 nöfn. Menn geta kannski reiknað það út í fljótheitum að þetta eru flest eiginkonur sjómanna sem þarna skrifa undir og það eru þá væntanlega talsmenn 10.000--12.000 manna í landinu sem hafa skrifað undir þetta. Og hefur þá ekki nema að litlu leyti, eftir því sem ég best veit, verið safnað undirskriftum hér í Reykjavík.