Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. er framlagning þessa frv. hér á Alþingi nokkurt nýmæli. Það nýmæli á sér rætur í umræðum innan fjvn. þar sem nefndin er sammála um að nauðsyn beri til að koma á breyttri skipan í meðferð fjármála ríkisins og í framkvæmd fjárlaga á hverju fjárlagaári. Hér á hinu háa Alþingi hafa einnig komið fram mjög sterkar raddir í þessa átt og kröfur um að þessi háttur væri upp tekinn, þ.e. að frv. til fjáraukalaga væri flutt á hverju fjárlagaári og þar leitað heimilda fyrir þeim útgjöldum sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. vill að nái fram að ganga en haldi ekki áfram að taka ákvörðun um greiðslur úr ríkissjóði sem eru langt umfram það sem fjárlög kveða á um.
    Það er óhætt að segja að þau þáttaskil --- hæstv. fjmrh. er títt að nefna þáttaskil eða tímamót --- sem urðu við framkvæmd fjárlaga á síðasta ári, þegar útgjöld ríkisins fóru yfir 8 milljarða fram úr því sem fjárlög kváðu á um, hafi fært fjvn. og Alþingi heim sanninn um það að það var óhjákvæmilegt að leitast við að gera breytingar á framkvæmd fjárlaga og meðferð ríkisfjármála í heild.
    Ég ætla ekki að rekja aðra þætti í þeirri vinnu sem fjvn. hefur lagt í af þessu tilefni og verður birt Alþingi innan tíðar, en fjvn. stendur heil að því að við viljum leitast við að koma betri skipan á þessi mál. Sú tillögugerð okkar og sú skoðun okkar er ekki bundin við það hver fer með stjórn ríkisfjármála hverju sinni.
    Ég vil hins vegar láta það koma hér fram að það fjáraukalagafrv. sem hér liggur fyrir er auðvitað því marki brennt að það er seint á ferðinni. Það er kannski, eins og hæstv. fjmrh. sagði, nokkur frumsmíð, á sér ekki hefð á undanförnum árum. Frv. er því að ýmsu leyti ófullkomið að mínum dómi og óskýrt og verður kannski að sjá í gegnum fingur með það, en taka það frekar til athugunar í meðferð frv. á Alþingi og síðar í framvindu þessa máls hér á eftir.
    Frv. nær auðvitað ekki þeim tilgangi sem slíkt frv. á að hafa, að leitað sé heimilda Alþingis fyrir greiðslum úr ríkissjóði áður en þær eru inntar af hendi, nema að einhverjum hluta. Ég vil þó einnig láta þess getið að þetta frv. leysir vitaskuld ekki hæstv. fjmrh. undan ábyrgð og með þessu fjáraukalagafrv. er hæstv. fjmrh. ekki að kasta frá sér ábyrgð yfir á herðar Alþingis eins og hann hefur stundum látið í veðri vaka í viðtölum sínum við fjölmiðla þó að hann gerði það ekki í ræðu sinni hér áðan. Hann ber vitaskuld eftir sem áður fulla ábyrgð á meðferð fjármála ríkisins, bæði að því er varðar undirbúning og vinnu að fjárlagafrv. og ekki síður framkvæmd. Þessi frumvarpsflutningur leysir auðvitað ekki hæstv. fjmrh. undan því forustuhlutverki sem honum ber að hafa á þessu sviði og fullri ábyrgð, m.a. þennan hæstv. fjmrh. ábyrgð á því að ríkisfjármál hafa á þessu ári farið svo úr böndunum sem raun ber vitni um.
    Þetta frv. sýnir að því er ætlað að afla heimilda

Alþingis fyrir útgjöldum sem ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið og að miklu leyti þegar greitt. Það sýnir að samkvæmt því rekstraryfirliti, sem er á framhlið frv. í 1. gr. þess, er gert ráð fyrir því að útgjöld ríkisins á þessu ári hækki um 8,1 milljarð kr. og er það sambærileg tala við það sem fjárlög á síðasta ári fóru fram úr útgjaldaákvörðunum fjárlaga. Það er því talsvert samræmi í því hjá þessum hæstv. fjmrh. sem gerðist á síðasta ári hvað þetta snertir, þótt hann væri þar ekki einn um að véla, og því sem áætlað er að gerist á þessu ári.
    Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að tekjur fari 2,7 milljarða fram úr áætlun fjárlaga og að halli á ríkissjóði, rekstri ríkissjóðs á þessu ári, verði nálægt 5 milljarðar kr. Ég held að ástæða sé til þess að vekja á því athygli einu sinni enn að við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár gagnrýndi ég meðferð mála í mörgum liðum og ég gagnrýndi afgreiðslu Alþingis á fjárlagafrv. sem fyrir Alþingi var lagt á síðasta ári. Ég gagnrýndi það, og ég veit að ekki þarf að rifja það mjög upp fyrir hv. alþm., að forsendur frv. væru gersamlega í lausu lofti vegna þess að þær byggðu ekki á neinni stefnu í efnahagsmálum sem augljóst var að hæstv. ríkisstjórn hefði þurft að taka og a.m.k. allir vissu að ekki yrði hjá komist að breyta að ýmsu leyti forsendum efnahagslífsins og atvinnulífsins í landinu sem hefði stórkostleg áhrif á útkomu fjárlaga. Þetta er vitaskuld staðfest í því fjáraukalagafrv. sem hér liggur fyrir og þetta er staðfest í orðum hæstv. fjmrh. hér áðan.
    Þá gagnrýndi ég það að inn í fjárlagadæmið við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár vantaði verulegar fjárhæðir sem þá þegar blöstu við öllum. Og ég lét þess getið að þrátt fyrir að fjárlög ríkisins fyrir árið 1989 væru afgreidd með 636 millj. rekstrarafgangi væri þar í rauninni um blekkingar að ræða vegna þess hversu miklum augljósum útgjöldum væri haldið utan fjárlaganna og þessi staða væri harla nöturleg miðað við þá staðreynd að hæstv. ríkisstjórn hafði þá hækkað skatta til ríkisins um 7,2 milljarða kr. samkvæmt útreikningum starfsmanna í stofnunum er heyra undir fjmrn. Þó að hæstv. fjmrh. hafi reynt að bera brigður á þessa tölu liggja fyrir þeir útreikningar sem ég sé ekki
ástæðu til að fara nánar út í nú.
    Ég rifja það upp að ég gagnrýndi það að afgreiða fjárlög vísvitandi á þann hátt að það vantaði inn í til að mynda niðurgreiðslur. Ég nefndi þá um 700 millj. kr. sem þá þegar blöstu við. Niðurstaðan hefur orðið sú að niðurgreiðslur eru hækkaðar meira en þetta eða sem svarar að ég ætla 870 millj. kr. Ég gagnrýndi það að það vantaði verulega inn í vegamálin og þrátt fyrir það að Alþingi tæki þau mál til meðferðar við afgreiðslu vegáætlunar sl. vor og tæki þar ákvarðanir sem voru umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir
vantaði þó enn meira, og það kemur hér fram í þessu yfirliti, hæstv. fjmrh., sem er samtals um 545 millj. kr.
    Ég gagnrýndi það að vextir væru vantaldir og það kemur hér fram að vextir hafa verið vantaldir

samkvæmt því sem hér kemur fram um 820 millj. kr. Ég taldi að framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna væru vantalin og það sannast í þessu plaggi. Ég taldi að framlög til landbúnaðarmála væru vantalin og stæðust hvorki lög né samninga og það kemur í ljós að hér sannast það með þessu frv. og í orðum hæstv. ráðherra.
    Ég nefndi fleiri þætti, þar á meðal að inn í fjárlagafrv. vantaði það sem hæstv. ríkisstjórn hafði lýst yfir, að verja skyldi um 100 millj. kr. til niðurgreiðslu á raforku til fiskvinnslufyrirtækja. Þetta vantaði í fjárlagaafgreiðslu sem ég vakti athygli á, og heimilda fyrir þeirri fjárhæð er einmitt leitað í frv.
    Fleiri dæmi nefndi ég sem ég ætla ekki að telja hér upp en þessi upptalning mín sannar það alveg ótvírætt að það sem ég sagði um þessi efni við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár var allt satt og rétt. Að vísu gekk ég sums staðar skemmra í áætlunum mínum en raun hefur á orðið í meðförum hæstv. ríkisstjórnar. En miðað við það sem ég sagði að augljóst væri við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár og þáv. meiri hluti, og núv. meiri hluti, sagði að væri órökstuddar fullyrðingar og kæmi ekki til greina að taka inn í afgreiðslu fjárlaga, þá sést að ég ætla að þáv. meiri hluti og núv. meiri hluti og hæstv. fjmrh. hafi vitað betur og að innst inni hafi þeir viðurkennt þá þegar að það sem ég sagði um þessi efni hafi verið satt og rétt. Eigi að síður knúðu þeir fram afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár með þeim götótta og ófullkomna hætti sem ég hef hér lýst og nú blasir við öllum og það er til þess að geta sagt að hæstv. fjmrh. hafi náð því markmiði sínu sem átti að vera eitthvert sérstakt tímamótamarkmið, að afgreiða fjárlög með tekjuafgangi.
    Þetta var yfirvarpið, þetta var blekkingin sem fólst í ákvörðunum meiri hluta Alþingis við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár að undirlagi hæstv. fjmrh. sem vildi láta þjóðina sjá að kominn væri nýr snillingur í fjmrn. sem hefði tök á að afgreiða fjárlög með þeim hætti að nú væri jöfnuður á fjárlagadæminu og nú ætti að taka á þessum málum með þeim tímamótum og aðhaldi í rekstri að við þetta allt yrði staðið.
    Hæstv. fjmrh. hefur nú sýnt hv. Alþingi og þjóðinni fram á hve mikill sannleikur var í þessum sjónhverfingum sem þá voru viðhafðar. Niðurstaðan blasir við. Það blasir við að útgjöld ríkisins á þessu ári samkvæmt því fjáraukalagafrv. sem hér liggur fyrir, sem vitaskuld byggist á spádómum um niðurstöðu ársins um þessar mundir, fari 8,1 milljarð fram úr ákvörðunum Alþingis við afgreiðslu fjárlaga fyrir ári síðan og á móti því hækki tekjur um 2,7 milljarða og hallinn verði nálægt 5 milljarðar kr.
    Ég hlýt að ítreka að frv. til fjáraukalaga, þótt það sé skref fram á við út af fyrir sig, leysir ekki hæstv. fjmrh. né hæstv. ríkisstjórn undan þeirri ábyrgð sem felst í því hvernig þessi mál hafa reynst í raun og væri nú kannski fróðlegt að vita hvort sú muni verða raunin að niðurstaða ársins verði eitthvað allt önnur en hér er verið að leggja til með þessu fjáraukalagafrv. Um það skal ég ekki spá að þessu sinni, en ég vitna

til þess að hæstv. ráðherra, sem gjarnan talar um tímamót, um þáttaskil, um nýjan grundvöll, um hornsteina efnahagskerfisins o.s.frv. í hvert skipti sem hann stígur í ræðustól, steig nokkrum sinnum í ræðustól hér á hinu háa Alþingi eftir að hann tók við fjármálum ríkisins fyrir rúmlega ári og í hvert sinn sem hæstv. ráðherra steig hér í ræðustól til þess að ræða fjármál ríkisins spáði hann því að halli ríkissjóðs hækkaði um 1 milljarð og urðu þó öll þessi tímamót með þeim hætti að hallinn var drjúgum meiri en hæstv. ráðherra hafði nokkru sinni spáð þegar að raunveruleikanum kom.
    Ég vildi fara örfáum orðum um form og efnisatriði frv. sem mér sýnist að ýmsu leyti vera ógreinilegt og kosta vinnu af hálfu fjvn. að kafa í til þess að hlutirnir liggi skýrt fyrir. Það er ekki einungis ógreinilegt fyrir Alþingi, það er einnig ógreinilegt fyrir forstöðumenn stofnana ríkisins. Tilgangur fjáraukalagafrv. og fjáraukalaga á vitaskuld m.a. að vera sá að um leið og aflað er heimilda Alþingis fyrir auknum útgjöldum ríkissjóðs á það að fela í sér að verið sé að gera forstöðumönnum stofnana ríkisins grein fyrir því hvað þeim leyfist í auknum útgjöldum til loka ársins og hvað þeim leyfist ekki. Þetta þarf að skýra mun betur en gert er í frv. og ég segi það kosta verulega vinnu af hálfu fjvn. að draga það fram í dagsljósið því að það er
engin ástæða til þess að einhver dul sé í þessum efnum.
    Um form eða efnisatriði í frv. má segja t.d. að ég tel að það sé næsta hjákátlega sett upp að því leyti að sums staðar er sami fjárlagaliðurinn talinn margsinnis í auknum útgjöldum.
    Í I. kafla 3. gr. frv. þar sem er talað um forsrn. kemur t.d. þrisvar sinnum fyrir orðið aðalskrifstofa, sem er sérstakt fjárlaganúmer, sem þrisvar sinnum fær heimild til aukinna útgjalda samkvæmt þessu frv. Sömu sögu er að segja hér í gegnum frv. Sömu sögu er að segja t.d. um aðalskrifstofu utanrrn. sem fær einnig þrisvar sinnum í frv. heimild til aukinna útgjalda. Ýmis fleiri fjárlaganúmer eru sama marki brennd. Hér sé ég t.d. að fjárlagaliður 201 102, Háskóli Íslands, sameiginleg útgjöld, er einnig talinn upp þrisvar sinnum og svo mætti lengi telja.
    Þrátt fyrir þetta er ekki í þessari sundurliðun talinn upp nema hluti af þeim útgjöldum sem gert er ráð fyrir og í skýringum við einstakar greinar sem eru ófullkomnar er ekki að finna upptalningu á þeim liðum einstakra stofnana í heild sem eiga að taka hækkun á gjaldahlið. Svo að dæmi sé tekið má nefna utanrrn. Þá segir hér í athugasemdum að farið sé fram á aukagreiðsluheimild að upphæð 22 millj. 268 þús. kr. Síðan eru talin upp nokkur verkefni og séu þau lögð saman sýnist mér að það séu um 16 millj. 160 þús. kr. Inn í þessa upptalningu vantar rúmar 6 millj. kr. Eðlilegt er að öll útgjöld hverrar stofnunar, hvers ráðuneytis sem gert er ráð fyrir í frv., séu þar upp talin og á ekki að vera neinn feluleikur um það, og það fer einnig best á því að útgjöld hverrar stofnunar svo sem gert er ráð fyrir að þau verði, til viðbótar því

sem fjárlög kveða á um, séu færð á þá stofnun, þar á meðal þeir sameiginlegu liðir sem hæstv. fjmrh. virðist ætla að séu til frjálsrar úthlutunar, svo sem eins og 800 millj. kr. til rekstrarhalla ríkisstofnana ellegar til ráðstöfunar vegna launa- og verðlagsmála. Þessum lið þarf Alþingi að skipta á einstakar stofnanir, ella kemur til álita að fella hann niður.
    Þá vildi ég gjarnan spyrja hæstv. fjmrh. varðandi það sem hér segir um 350 millj. kr. sem ætlaðar eru til að endurgreiða söluskatt vegna upptöku virðisaukaskatts og virðast eiga að duga fyrir slíkum endurgreiðslum á þessu ári, en ég minnist þess ekki að hafa séð í fjárlagafrv. fyrir næsta ár gert ráð fyrir þessum lið, enda fellur hann niður við upptöku virðisaukaskatts, en það verður ógerlegt að gera þennan lið upp á þessu ári, að ég ætla, vegna þess að bókhald fyrirtækja sem snertir þetta mál getur ekki legið fyrir fyrr en komið er fram á næsta ár. Þess vegna vildi ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hæstv. fjmrh. leysa úr því sem til fellur á næsta ári vegna þessa fjárlagaárs að því er þennan lið snertir?
    Í frv. er ekki að finna neina útlistun yfir það hvað hefur verið greitt af því fé sem hér er verið að fara fram á sem aukin útgjöld ríkissjóðs á þessu ári og hvað er ógreitt. Hæstv. ráðherra sagði að verulegan hluta af þeim fjárheimildum sem hér er verið að fara fram á eigi að nota til þess að greiða fé úr ríkissjóði sem ekki hefur þegar verið innt af hendi. Hann sagði jafnframt að nokkur eða verulegur hluti hefði þegar verið greiddur út. Ég tel nauðsynlegt að í frv. eins og þessu, í athugasemdum með frv. eins og þessu, liggi þetta fyrir og ég hlýt að undrast það að í þessu frv. er meira að segja ekki skrá yfir þær aukafjárveitingar sem veittar hafa verið á þessu ári, meira að segja ekki sá listi sem okkur í fjvn. var afhentur að ég ætla 11. júlí sl. og þá sem trúnaðarmál. Ég held að það hljóti að verða að krefjast þess að þetta liggi allt fyrir og að engin ástæða sé til að halda þessu leyndu, hæstv. ráðherra.
    Ég hef þegar sagt að í frv. er hluti af þeim útgjaldaáformum sem hér eru á ferðinni færður hjá einstökum stofnunum, en hluti útgjalda er í sameiginlegum lið sem hæstv. ráðherra hefur á valdi sínu að ráðstafa og það tel ég einnig ekki viðunandi eins og ég hef þegar sagt. Ég tel því að ýmislegt í framsetningu, formi og í grg. frv. sé ófullkomið. Hæstv. ráðherra bað Alþingi að sjá í gegnum fingur með ýmis slík atriði vegna þess að hér væri um frv. að tefla sem ekki ætti sér neina hefð á síðari árum og það er í sjálfu sér hægt að taka tillit til þess. Það haggar hins vegar ekki því að það er ástæða til og nauðsynlegt að gera sér grein fyrir hvernig frv. af þessu tagi á að vera úr garði gert, og þó að þetta frv. sé svo ófullkomið sem raun ber vitni og athugasemdir með því svo óskýrar og óglöggar, eins og ég hef greint frá í nokkrum atriðum, ættu orð mín a.m.k. að verða til þess að menn átti sig á því að margt af þessum efnum verður auðvitað fjvn. að fá upp áður en frv. er afgreitt og í öðru lagi að það ætti að veita

einhverja leiðsögn um það hvernig slík frumvörp beri að gera úr garði á komandi árum.
    Ég teldi einnig nauðsynlegt, sem hefði verið tilefni til fyrir hæstv. fjmrh. og mikið til leiðsagnar fyrir Alþingi og okkur sem vinnum að þessum málum í fjvn., að fyrir lægi í athugasemdum með þessu frv. áætlun um það --- ég segi áætlun, það er ekki hægt að ganga lengra --- hvernig sá sérstaki niðurskurður sem ákveðinn var við afgreiðslu fjárlaga í fyrra og fjárlögin fyrir þetta ár voru grundvölluð á, þ.e. 4% niðurskurður á launagjöldum ríkisins og nokkur
sparnaður á rekstrarliðum, liti út. Ég varð engu vísari af ræðu hæstv. fjmrh. um þetta efni, en það er auðvitað þeim mun meiri ástæða til þess að birta áætlun um hvernig þetta muni ganga, hvernig þetta muni koma út fyrir þetta ár, vegna þess að fjárlagafrv. fyrir næsta ár er byggt á því að þetta hafi tekist. Og að svo miklu leyti sem það kann að hafa mistekist er grundvöllur fjárlagafrv. fyrir næsta ár rangur og fyrir Alþingi liggur það verk að afgreiða þessi mál bæði tvö.
    Ég vil taka það fram að það sem hæstv. ráðherra sagði um B-hlutann á við nokkur rök að styðjast. Það er auðvitað nokkrum erfiðleikum bundið að setja fram í fjáraukalagafrv. tillögur um B-hluta stofnanir enda þótt það væri vinningur að því að það væri gert. En ég viðurkenni að það er meiri vandkvæðum háð en um A-hlutann og að það er e.t.v. nokkur eðlismunur á þessum stofnunum,
a.m.k. eins og þetta hefur verið tíðkað. En það er auðvitað á valdi Alþingis að kveða þar fastar á um og taka af skarið um ákvarðanir Alþingis um heimildir B-hluta stofnana meira en gert hefur verið, og í sumum tilvikum veitir ekki af því.
    Hér er gerð tillaga um það að lækka útgjöld ríkisins vegna fjárfestingar um 650 millj. kr. og það er sama sagan með þennan lið frv. eins og ýmsa aðra að þar liggja fyrir ógreinilegar eða ófullburða skýringar og ófullburða tillögur eða nærri því að segja engar tillögur um hvernig þessu sé skipt. Það er að vísu sagt að um 500 millj. af þessu eigi að taka af Byggingarsjóði ríkisins, en síðan eigi að skipta því sem eftir er, um 150 millj. kr., milli nokkurra ráðuneyta. Ég tel útilokað annað en að Alþingi taki þetta mál alveg sérstaklega fyrir og ef Alþingi ætlar sér að fallast á niðurskurð af þessu tagi sé það ákveðið hvar þessi niðurskurður á að koma niður en það sé ekki til frjálsrar meðferðar hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstjórnar hvernig því verður ráðstafað og hvaða ákvörðunum Alþingis við afgreiðslu fjárlaga eða afgreiðslu vegáætlunar fyrir þetta ár sé kippt til baka. Þetta vil ég að sé alveg skýrt, og ég tel það vitaskuld afar einkennilega að verki staðið, að maður taki nú ekki sterkar til orða, og afar óviðfelldið að um leið og verið er að taka ákvarðanir um það að auka útgjöld ríkisins um meira en 8 milljarða kr. umfram það sem fjárlög kveða á um skuli á sama tíma verið að kippa til baka ýmsu af því sem Alþingi taldi við afgreiðslu fjárlaga og afgreiðslu vegáætlunar vera nauðsynjaverk í framkvæmdum og hefur samþykkt og að ætla síðan

að kippa því til baka á síðustu mánuðum ársins og vera búið með allra handa baktjaldavinnubrögðum að hindra það að þær framkvæmdir fari í gang og koma þannig alveg í bakið á ákvörðunum Alþingis við afgreiðslu þessara mála á þessu ári. Þetta er vitaskuld ekki þannig að verki staðið að það sé í raun viðunandi og a.m.k., ef meiri hluti Alþingis kýs að fallast á þennan niðurskurð, þá liggi það ljóst fyrir hvaða verk það eru sem eigi að skera niður eða fresta.
    Hæstv. ráðherra sagði að nú liti út fyrir að halli á fjárlögum fyrir þetta ár yrði aðeins helmingur af hallanum sem varð í fyrra og væri gott ef satt reynist, þrátt fyrir þá lýsingu sem frv. gefur af þessum málum og þrátt fyrir það sem ég hef sagt um þessi efni, en ég ítreka þá spurningu mína hvort það sé þá meining hæstv. ráðherra að standa á því sem Alþingi afgreiðir með þessu frv. og að ekki verði farið fram úr þeim ákvörðunum sem þar verða teknar eða hvort áfram leiki lausum hala fjárstreymi úr hirslum ríkissjóðs sem mun verða umfram ákvarðanir Alþingis.
    Ég tók einnig eftir því að hæstv. fjmrh. minnti á það sem hann kallaði átak í innheimtu á miðju þessu ári sem ég hef farið viðurkenningarorðum um, þótt þar hafi gallar fylgt þar sem fyrirtækjum var stórlega mismunað. Ég ætlaði mér að rifja það upp vegna þess að þá var einnig fyrrv. hæstv. fjmrh. hér í salnum, núv. hæstv. utanrrh., að það kann náttúrlega ekki góðri lukku að stýra þegar þáv. fjmrh. lýsti því yfir á miðju sumri að hér eftir væri það ákveðið af fjmrn. að fella niður viðurlög við ógoldnum sköttum til ríkisins. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Ég hef satt að segja aldrei, að ég hygg, heyrt eins vitlausa yfirlýsingu frá neinum fjmrh. ( ÓÞÞ: Hver gaf hana?) Hæstv. núv. utanrrh. Og það var vitaskuld eins og við manninn mælt að innheimta á opinberum gjöldum til ríkisins féll stórkostlega niður það sem eftir lifði ársins og fram eftir þessu ári og það var þess vegna ekki vanþörf á því og ekkert hægt að komast hjá því fyrir hæstv. núv. fjmrh. að taka þarna eitthvað fastar á. Það var algerlega óhjákvæmilegt því að það vitaskuld gengur ekki að gefið sé í skyn af hálfu fjmrh. að það geri bara ekkert til þó að opinber gjöld séu ekki greidd. Þetta hefði ég nú kunnað betur við að segja ef hæstv. utanrrh. hefði verið áfram hér í salnum, en þetta var mikil tímamótayfirlýsing.
    Ég minnist þess að einhvern tíma í sumar lýsti hæstv. fjmrh. því yfir að þeir forstöðumenn stofnana ríkisins sem sýnilegt væri að mundu fara verulega fram úr þeim heimildum sem fjárlög veita um útgjöld úr ríkissjóði yrðu kallaðir fyrir og teknir til bæna, jafnvel að þeim yrði sagt upp ef þeir létu ekki skipast. Ég hefði nú gjarnan talið ákjósanlegt að hæstv. fjmrh. gerði Alþingi grein fyrir því starfi sínu, og ég held að það væri þá um leið ástæða fyrir hæstv. fjmrh. að vænta þess að hann sjálfur hlyti sömu meðferð og væri
þá kallaður fyrir af hv. Alþingi því að samanlagt ( Fjmrh.: Ég er hér.) hefur hann farið fram úr heimildum fjárlaga fyrir þetta ár, eftir því sem áætlanir hans standa nú til um, yfir 8 milljarða kr.

( Fjmrh.: Ég er hér.) Hér er nú hæstv. ráðherra og því er ég að vekja á þessu athygli að þetta auðvitað sannar það að um leið og hæstv. ráðherra segist ætla að tyfta þá forstöðumenn stofnana sem hafa farið fram úr áætlunum fjárlaga í rekstri sinna stofnana og eytt fé ríkissjóðs umfram heimildir lítur hann lítt í eigin garð því að sameiginlega ber hann ábyrgð á meðferð þessara mála og getur ekki fríað sig frá því eða skýlt sér á bak við einn eða neinn varðandi það hlutverk sitt og þá miklu ábyrgð sem því fylgir. Um leið og hæstv. fjmrh. er nú að sýna það hvernig honum hefur til tekist á þessu ári vildi ég gjarnan að hann gerði Alþingi grein fyrir því hvernig herferð hans á hendur einstökum forstöðumönnum stofnana ríkisins hefur til gengið.