Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Eins og er um mörg önnur málefni sem koma til kasta Alþingis hefur þetta frv. sem hér er til umræðu tvær hliðar. Annars vegar er á því formleg hlið, hins vegar efnisleg. Að því er varðar hina formlegu hlið þessa máls hlýt ég að taka undir það sem fram hefur komið hjá ýmsum ræðumönnum, að framlagning þessa frv. er jákvætt framlag til umbóta og endurbóta á vinnubrögðum að því er varðar meðferð fjárlaga, fjáraukalaga, ríkisreiknings og annarra tengdra mála. Ég tek undir með þeim sem fagna þessu framtaki í sjálfu sér. Ég tel að það sé allra góðra gjalda vert enda þótt ég sakni reyndar frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1988 sem hefði að mörgu leyti verið eðlilegra að leggja fram á undan þessu frv., en það er auðvitað ekkert aðalatriði.
    Hins vegar er það jafnframt ljóst að þó að frv. sé spor í áttina mun engu að síður verða þörf á öðru frv. til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár vegna þess að það blasir við af þessu frv. að í því eru ekki allir endar hnýttir sem snúa að tekjum og gjöldum ríkissjóðs á þessu ári ef hv. fjvn. afgreiðir þetta mál með þeim hætti sem ráðherrann óskar eftir, þ.e. fljótlega. En nefndin hefur það auðvitað í hendi sér að bíða með afgreiðslu málsins fram eftir þessu þingi og fram á vor ef því er að skipta og getur þá með þeim hætti komið í veg fyrir að þörf gerist fyrir annað frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1989. Þá blasir aftur á móti við að þingið hefur ekki tekið ákvörðun um útgjöld sem í þessu frv. er gert ráð fyrir og sem ráðherrann er að óska eftir. Annaðhvort verður því að afgreiða þetta frv. á næstunni og heimila eitthvað af þeim útgjöldum sem þar er farið fram á og leggja því næst fram annað frv. til að gera upp árið ellegar þá að bíða með þetta frv., en þá koma ekki þær heimildir sem ráðherra óskar eftir varðandi afgreiðslu útgjalda sem farið er fram á í þessu frv.
    Nú er það að vísu þannig, og kom fram í máli ráðherrans, að enda þótt hluti þeirra útgjalda sem ráðgerð eru samkvæmt þessu frv. hafi ekki verið inntur af hendi enn þá, er það samt sem áður svo að Alþingi stendur að verulegu leyti frammi fyrir gerðum hlut að því er varðar frv. og þau útgjöld sem þar er að finna og í því efni er ekki eðlismunur á þessu frv. og frv. vegna fyrri ára sem lögð hafa verið fram eftir á, eftir að viðkomandi fjárlagaári var lokið, í einstaka tilfellum mörgum árum eftir á.
    Eða ætlar hæstv. fjmrh. til að mynda að endurkrefja fyrirtækið Silfurstjörnuna um þær 3,3 millj. kr. sem hann hefur veitt til þess fyrirtækis án heimildar frá Alþingi ef svo skyldi fara að sú fjárveiting yrði ekki samþykkt hér á Alþingi þegar frv. kemur til afgreiðslu? Ætlar hann að krefja til að mynda áhugahóp kvenna um þær 100 þúsundir króna sem veittar voru til stuðnings komu ákveðins einstaklings hingað til lands fyrr á þessu ári sem hér flutti ræðu í Þjóðleikhúsinu og hæstv. utanrrh. fór reyndar hinum háðulegustu orðum um í sjónvarpi? Þessi liður er einn af þeim sem gert er ráð fyrir í

menntmrn., en þessum peningum er bara búið að eyða og Alþingi stendur hér frammi fyrir gerðum hlut. Það er ástæða til þess að velta því fyrir sér ef þessari fjárveitingu yrði hafnað af þinginu hvort fjmrh. hyggst krefja viðkomandi aðila um endurgreiðslu á þessum fjármunum.
    Ég sagði í upphafi, og er þá enn að tala um hina formlegu hlið þessa máls, herra forseti, að ég tel það spor fram á við, að leggja fram slíkt frv. til fjáraukalaga. Það er hins vegar fjarri því að hæstv. fjmrh. hafi fundið upp þennan möguleika þó að hann sé vel að því kominn að hafa fyrstur manna í 67 ár lagt fram slíkt frv. Ég vil leyfa mér að benda á að yfirskoðunarmenn ríkisreiknings hafa tvívegis, nú ár eftir ár, bent á nauðsyn þess að vinna að frekari endurbótum í þessu efni, bæði í skýrslu sinni fyrir árið 1987 og svo í þeirri skýrslu sem nýlega hefur verið lögð fram hér á þinginu um sl. ár. Ég vil jafnframt benda á að við hv. þm. Pálmi Jónsson fluttum á síðasta ári frv. þar sem gert er ráð fyrir að fjáraukalög verði jafnan lögð fram á vorþingi hinu næsta eftir að fjárlagaárinu lýkur. Miðað við þetta frv. sem er nú verið að tala um hefði það frv. gert ráð fyrir því að skylt væri að leggja fram frv. til fjáraukalaga svo skjótt sem verða mætti á þinginu nú eftir áramót. Fjmrh. tók þann kost að leggja fram frv. nú fyrir jólin með það í huga að fá það afgreitt á þessu ári, en þá eins og ég sagði er nauðsynlegt að í kjölfarið fylgi nýtt frv. þegar árið verður gert upp og þegar ríkisreikningur þessa árs liggur fyrir, en það verður ekki fyrr en á næsta ári.
    Það er alveg ljóst að umbætur á þessu sviði eru brýnar og hafa verið brýnar um nokkurt skeið. Það hafa verið að þróast ný vinnubrögð og breyttir starfshættir í þessu efni. M.a. hefur hv. fjvn. þar komið við sögu og ýmsir þeir sem að þessum málum hafa unnið á undanförnum árum og ég bendi mönnum sérstaklega á að kynna sér skýrslur yfirskoðunarmanna sem ég gat um, en í þeim eru ábendingar um þessi efni sem ástæða er til að vekja athygli á.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa fleiri orð um formlega hlið þessa máls, en vildi gjarnan koma að því sem í frv. stendur, þ.e. hinum efnislegu atriðum
þess, en þannig stendur á að fyrir nákvæmlega ári síðan flutti hæstv. fjmrh. fjárlagaræðu sína vegna frv. til fjárlaga fyrir árið 1989. Ég skal trúa þingheimi fyrir því að ég lagði það á mig að lesa þessa ræðu að nýju þegar frv. til fjáraukalaga var lagt fram þar sem gert er ráð fyrir rúmlega 8 milljarða kr. útgjöldum til viðbótar því sem fjárlög þessa árs gerðu ráð fyrir. Og ég verð að viðurkenna, þó að þessi umræðuefni séu nú alla jafna ekki sérstakt skemmtiefni, að ég skellti upp úr við að lesa fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. frá í fyrra í ljósi þess frv. sem hann hefur nú flutt. Og mætti ég þá ekki, með leyfi forseta, vitna til fjárlagaræðu hæstv. núv. fjmrh. og vita hvort þingmenn almennt sjá ekki hvað mér fannst svona spaugilegt. Hér segir hæstv. fjmrh. við 1. umr. fjárlaga 10. nóv. á síðasta ári svo, með leyfi forseta:
    ,,Þessar forsendur fjárlagafrv. hafa verið gagnrýndar

töluvert að undanförnu. Því hefur verið haldið fram að þær standist ekki og þar með sé grundvellinum kippt undan frv. Ef tekið er tillit til erlendrar verðbólgu fela þessar forsendur í sér að á næsta ári verði raungengi krónunnar svipað og það er á þessum ársfjórðungi og lækki lítillega á milli ára. Hvað raunlaun varðar gera þessar forsendur ráð fyrir óbreyttum raunlaunum frá því sem þau verða á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Þannig er það misræmi, sem kemur fram í þróun verðlags, gengis og launa, að mestu komið fram nú þegar.`` Síðan segir: ,,Enda þótt þróun verðlags og launa á næsta ári verði á annan hátt en hér er miðað við, kollvarpast fjárlagafrv. alls ekki af þeim sökum. Skýringin er það innbyrðis samhengi sem byggt er inn í frv. Ef verðbólga verður almennt meiri mun tekjuafgangurinn vaxa vegna krónutöluframlaga í frv. Ef kaupgreiðslur hækka umfram það sem hér er gert ráð fyrir aukast launaútgjöld ríkisins. Á móti kemur að eftirspurn og umsvif í hagkerfinu aukast og verðbólga einnig. Skattatekjur af bæði veltu- og tekjusköttum aukast. Tekjuafgangurinn getur því orðið meiri, en á móti verður viðskiptahallinn við útlönd einnig meiri. Ef raungengi krónunnar lækkar meira en hér er gert ráð fyrir munu raunverulegar tekjur, eftirspurn og innflutningur verða minni auk þess sem vaxtagjöld aukast. Tekjuafgangurinn minnkar eða hverfur alveg, en það mun koma lítið að sök þar sem á móti kemur að viðskiptahallinn verður minni. Vegna þessa rökræna samhengis frv. sjálfs er á þessu stigi máls engin ástæða til annars en að byggja á þeim forsendum sem hér hafa verið raktar.``
    Tilvitnun lýkur hér í þessa fróðlegu ræðu hæstv. fjmrh. frá því fyrir nákvæmlega ári síðan þar sem hann hélt uppi hörðum vörnum gagnvart þeirri gagnrýni sem stjórnarandstaðan á síðasta þingi hafði uppi um forsendur þess frv. til fjárlaga sem þá var til umræðu, en frekari staðfestingar á þessum ummælum en fram kemur í þessu frv. sama ráðherra til fjáraukalaga er að sjálfsögðu ekki þörf.
    Gjöld samkvæmt þessu frv. til fjáraukalaga fara rúmlega 8 milljarða fram úr fjárlögum en tekjurnar 2,7 milljarða fram úr fjárlögum, þannig að þrátt fyrir ítrekað tal hæstv. fjmrh. fyrr og nú um hinn nýja grundvöll, þá sé ég nú ekki annað en grundvöllurinn sé, ekki bara brostinn, heldur hruninn og það til algerra grunna fyrir þeim boðskap sem hann flutti okkur hér fyrir ári síðan um þessi efni og þetta viðurkennir ráðherrann nú, með því sem fram kemur í frv. hans til fjáraukalaga. En það er reyndar ekki langt síðan hæstv. fjmrh. hélt því enn fram að fjárlög þessa árs væru á traustum grunni reist, því að hinn 6. sept. sl. barst í pósthólf okkar þm. fréttatilkynning frá ráðuneyti hans þar sem segir fullum fetum: ,,Framkvæmd fjárlaga samkvæmt áætlun.`` Það er ekki lengra en tveir mánuðir síðan að hæstv. ráðherra lýsti því yfir í þessari fréttatilkynningu að framkvæmd fjárlaga væri samkvæmt áætlun. En nú, tveimur mánuðum síðar, leggur hann hér fram frv. til fjáraukalaga þar sem gert er ráð fyrir að 600 millj. kr. tekjuafgangi fjárlaga þessa árs verði breytt í 5,5

milljarða kr. halla í samræmi við ákvæði þessa frv. Þannig er ljóst að jafnvel þeim, sem telja sig hafa höndlað sannleikann í sambandi við fjárlög, útgjöld og tekjur ríkissjóðs, getur skjátlast og þannig er nú komið fyrir hæstv. fjmrh. í þessu efni.
    Ég hirði ekki um að lesa meira upp úr þessari fjárlagaræðu frá því í fyrra, sem var auðvitað merkileg fyrir þeirra hluta sakir að þar var nýr fjmrh. að flytja sína fjárlagaræðu í fyrsta sinn og að gera grein fyrir sinni stefnu og því ,,innbyrðis samhengi`` sem átti að vera í því frv. og þeim fjárlögum sem hann kynnti. En það kennir óneitanlega margra grasa í þessari ræðu sem þm. geta skemmt sér við að lesa og rifja upp þegar þeir hafa tíma til.
    Hins vegar hefur ráðherrann nýlega flutt aðra framsöguræðu fyrir fjárlögum og aðra ræðu hér í umræðum um stefnuræðu forsrh. sem er sömuleiðis athyglisvert að glugga í í ljósi þeirra staðreynda sem hér hafa verið rifjaðar upp. Honum verður tíðrætt um hinn nýja grundvöll, hinn nýja grundvöll sem Alþb. hefur lagt í stjórn efnahagsmála og sem á að koma þessari þjóð til
bjargar á næstu missirum.
    Ég var einn af þeim sem horfðu á sjónvarpsþátt um liðinn stjórnmálaforingja um síðustu helgi í sjónvarpinu. Þar birtist á skjánum skjal sem sá
stjórnmálaforingi, Jónas Jónsson frá Hriflu, hafði gefið út og hét ,,Nýr landsmálagrundvöllur``. Ég veit nú ekki hvort það er tilviljun að sá maður sem margir telja að sé einna líkastur Jónasi frá Hriflu af stjórnmálamönnum nútímans boðar oss nú ,,nýjan grundvöll`` af því kappi sem honum er lagið. Það er kannski tilviljun en ekki veit ég hvort samanburður ráðherrans á sjálfum sér og þeim ráðherra sem lagði síðast fram frv. til fjáraukalaga, Magnúsi Jónssyni, er nær lagi en samanburðurinn á hæstv. fjmrh. og Jónasi frá Hriflu, en ég skal láta það liggja á milli hluta. Hvað sem síðar kann að verða, þá er hæstv. núv. fjmrh. ekki orðinn sá hrópandi í eyðimörkinni eins og hann lýsti Jónasi frá Hriflu í viðtali sem við hann var í þeim sjónvarpsþætti sem ég nefndi, en hugsanlega er ekki öll nótt úti enn í þeim efnum fyrir hæstv. fjmrh.
    Ég hafði hugsað mér, herra forseti, að nefna nokkur fleiri atriði úr því frv. sem hér liggur fyrir til fjáraukalaga og er hér til umræðu, en skal þó vera stuttorður um það efni, enda gerði hv. 2. þm. Norðurl. v. ítarlega grein fyrir ýmsu því sem þar er ábótavant. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þegar svona verk er unnið á nýjan leik, þá koma ýmsar leiðir til greina varðandi uppsetningu og frágang. Ég skal ekki vera með neina smámunasemi í þeim efnum og geri mér alveg ljóst að þar kunna að vera skiptar skoðanir um frágang mála og treysti hv. fjvn. til þess að gera þar uppsetningarbreytingar ef hún telur ástæðu til. En ég tek hins vegar undir það að það er eitt og annað hér sem er ruglingslegt og sem mætti færa til betri vegar en það skiptir ekki höfuðmáli að mínum dómi. Reyndar eru smávægilegar reikningsvillur að mér sýnist á stöku stað í frv. en þær má eflaust laga. Þannig er t.d. á bls. 3, þegar fjallað er um forsrn.,

gert ráð fyrir því að liðirnir Aðalskrifstofa og Eignakaup séu 8 millj. 270 þús. en skv. skýringum á bls. 17 er hér um að ræða fjárveitingu vegna tilkomu umhverfisráðuneytis og vegna rekstrar á skrifstofu ráðherra Hagstofu Íslands. Þar er talan sögð vera 8 millj. 290 þús. Þarna munar heilum 20 þúsundum sem ég ætla ekki að gera hér að sérstöku umtalsefni.
    En það hefur komið fram að samhliða þessu frv. hefur fjmrh. lagt fram í Ed. Alþingis frv. til lánsfjárlaga þar sem gert er ráð fyrir auknum lántökuheimildum upp á 7 milljarða kr. Auðvitað er samræmi hér á milli og fjárlagahallinn er mun meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum, þ.e. 600 millj. kr. afgangur hefur breyst í a.m.k. 5,5 milljarða kr. halla og það þarf að fá heimildir til þess að taka lán fyrir þessum mismun og ríflega það reyndar. En í greinargerð með frv. til fjáraukalaga er talað um hversu vel lánsfjáröflun ríkissjóðs hafi gengið. Það sé búið að selja hrein reiðinnar býsn af spariskírteinum og það sé búið að selja ríkisvíxla fyrir, að mér skilst, 4 milljarða kr. umfram innlausn. Það er út af fyrir sig ágætt þegar vel gengur að selja skuldabréf og víxla ríkissjóðs því að það er þörf á því að hafa markað fyrir þessi bréf þannig að hann skili árangri og þar séu virk viðskipti. Hins vegar kemur hvergi fram, hvorki hér né minnist ég þess að hafa heyrt fjmrh. tala um það á öðrum vettvangi, á hvaða kjörum hann býður kaupendum þessara víxla þá til sölu. Ég hef reyndar lagt fram formlega fyrirspurn um það efni til ráðherrans sem ég vænti að hann svari skriflega innan tíðar, en þar munu vera á ferðinni einhverjir hæstu vextir á skammtíma pappírum sem nokkur völ er á hér, enda munu bankar og fjármálaaðilar ýmsir vera gráðugir í að kaupa þessa víxla sem jafnframt setja ákveðinn grunn að öðrum viðskiptum með verðbréf í landinu eins og reyndar er ekki óeðlilegt.
    Ég held að það væri forvitnilegt ef ráðherra mundi upplýsa okkur um það áður en hann skilar hinu formlega svari við þessari fsp. hverjir þessir vextir eru um þessar mundir, þ.e. raunvextirnir. Ég hygg að það mundi koma mörgum aðilum á óvart með hvaða hætti ríkissjóður setur þar grunn fyrir hið almenna vaxtastig í landinu. Hins vegar er það jafnframt þannig þegar við erum að tala um vexti ríkissjóðs, að þó að lántakan gangi vel og það sé ánægjulegt í sjálfu sér, þá hafa þessar lántökur auðvitað í för með sér frekari vaxtabyrði fyrir ríkissjóð í framtíðinni. Og eitt af því sem veldur áhyggjum, þegar þessi mál eru skoðuð í samhengi, er sú þróun sem orðið hefur á vaxtagreiðslum ríkissjóðs og það sem við blasir í þeim efnum því að auðvitað getur ríkissjóður ekki komist undan því að greiða þá fjármuni sem hann hefur skuldbundið sig til að greiða þeim sem veitt hafa honum lán.
    Þetta er annar hlutur sem er nátengdur því umræðuefni sem hv. formaður fjvn. og hv. 2. þm. Vestf. gerðu hér að umtalsefni og snertir ríkisbúskapinn á breiðum grundvelli og þá miklu þenslu sem orðið hefur í útgjöldum ríkissjóðs, þá miklu raunverulega aukningu ríkisútgjalda sem virðist

innbyggð í útgjaldauppbygginguna og sem verður að stoppa ef menn ætla sér að ná tökum á þessum málum í framtíðinni. Þar heyrist mér að tveir síðustu ræðumenn séu sama sinnis og má mikið vera ef ég hef ekki einhvern tíma heyrt hæstv. fjmrh. sjálfan taka undir nauðsyn þess að ná utan um þessi útgjöld ríkissjóðs þannig að það verði spornað við þessari sjálfvirku þenslu sem þar er innbyggð. Það verður að vísu ekki gert nema að litlu leyti með formbreytingum, með því að breyta forminu á meðferð aukafjárveitinga og afgreiðslu fjáraukalaga. ( Fjmrh.: Það hjálpar til.) En það hjálpar til, það er rétt, ég tek undir það, hæstv.
ráðherra. Slíkar breytingar geta skipt einhverju máli og auðvitað er engin von um árangur ef hinn formlegi rammi utan um útgjöld og ákvarðanir þeim tengdar er í molum, ef ekkert sérstakt formlegt ákvarðanaferli er til fyrir slíkar ákvarðanir. Og það verður því miður að segjast að á undanförnum árum og áratugum hafa þróast ákveðnar venjur varðandi veitingu fjármagns umfram fjárlagaheimildir, um greiðslur umfram heimildir fjárlaga sem eru auðvitað ekkert annað en sóðaskapur og ósiður af versta tagi og þar að auki bæði óþingræðislegar og óeðlilegar gagnvart fjárveitingavaldinu, þ.e. Alþingi.
    Um þetta hafa menn nú rætt og ritað töluvert mál og við hv. þm. Pálmi Jónsson fluttum um þetta efni frv. á síðasta þingi sem hefur ekki verið endurflutt enn sem komið er vegna þess að það mun von á frv. um svipað efni frá hv. fjvn. og ástæðulaust annað en slíkt mál sé flutt í fullkominni samstöðu allra stjórnmálaflokka sem aðild eiga að fjvn. En auðvitað er mál að linni í þessu efni og að því marki sem fjmrh. hefur spornað gegn vinnubrögðum af þessu tagi og greiðslum umfram heimildir fjárlaga á hann auðvitað lof skilið. En þetta frv. til fjáraukalaga ber það með sér að hann hefur valið og hafnað í því efni. Hann hefur t.d. valið að bíða þessara fjáraukalaga áður en hann innir af hendi greiðslur til landbúnaðarins, en hann sá enga ástæðu til þess að bíða ákvörðunar Alþingis um það hvort hann veitti fyrirtækinu Silfurstjörnunni 3,3 millj. kr. aukafjárveitingu. Sú ákvörðun hefur greinilega verið svo brýn að hún mátti ekki bíða ákvörðunar Alþingis og þeir aðilar sem þar áttu hlut að máli gátu ekki beðið eftir þeim fjármunum eða útvegað sér skammtímafyrirgreiðslu þar til ákvörðun Alþingis lægi fyrir. Það er greinilega ekki sama hver á í hlut, virðulegur ráðherra, þegar fjallað er um það hvort fjárveitingar eru látnar bíða ákvörðunar Alþingis eða hvort ráðherrann tekur ákvarðanir með þeim hætti sem hér er um að ræða og hafa reyndar tíðkast um langt árabil, því miður. Þannig að fjmrh. er nú ekki hvítþveginn í þessum efnum, því fer fjarri, og getur reyndar ekki hælt sér af því hér á Alþingi að hafa ekki tekið ákvarðanir um greiðslur úr ríkissjóði umfram heimildir fjárlaga. Ég mundi fagna því mjög og vona að það styttist í það að hér á Alþingi standi upp fjmrh. sem getur stært sig af því að hafa ekki innt af hendi slíkar greiðslur úr ríkissjóði. Við skulum

reyna að ná saman um að bæta vinnubrögðin þannig að það styttist í þá tíð að enginn fjmrh. leyfi sér slík útgjöld eða heimili slíkar greiðslur.
    Það er sem sagt greinilegt að hæstv. ráðherra hefur ekki haft samræmi á því hvort hann innti greiðslur af hendi fyrir framlagningu þessa frv. eða hvort hann bíður með þær þar til ákvörðun Alþingis liggur fyrir. En það er ekki nóg með það, vegna þess að það er ljóst að í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir útgjöldum í samræmi við allar þær ákvarðanir og allar þær yfirlýsingar sem ríkisstjórn eða einstakir ráðherrar hafa gefið og í því sambandi nægir að minna á Lánasjóð ísl. námsmanna. Skv. þessu frv. er gert ráð fyrir 180 millj. kr. sem verðlagsuppfærslu handa sjóðnum. Það er hins vegar ljóst og hefur komið fram, bæði hér á Alþingi og annars staðar, að ef sjóðurinn á að standa við þær skuldbindingar sem hæstv. núv. menntmrh. hefur bundið honum, þá vantar þarna a.m.k. 100 millj. til viðbótar. Ber þá að skilja þetta frv. svo að hæstv. fjmrh. ætlist ekki til þess að þær 100 millj. verði inntar af hendi, að þær 100 millj. verði greiddar í samræmi við stefnu menntmrh.? Eða er ætlast til þess að fjvn. bæti þarna um betur, eða hver er ætlunin varðandi þennan eina þátt sem ég hef nefnt?
    Það kennir óneitanlega ýmissa forvitnilegra grasa í frv. Það kemur til að mynda fram að kostnaðurinn við hið sérstaka innheimtuátak hæstv. fjmrh. á þessu ári, sem menn hafa gert hér að umtalsefni, hefur að því er virðist verið 25 millj. kr. Innheimtuátakið í sumar hefur kostað ríkissjóð 25 millj. kr. Þetta innheimtuátak hefur út af fyrir sig ekki verið gagnrýnt sem slíkt, heldur hefur verið gagnrýnt með hvaða hætti fjmrh. mismunaði fyrirtækjum við þær innheimtuaðgerðir og skal ég ekki fjalla frekar um það, en bendi hins vegar á hvað þetta átak hefur kostað þó auðvitað hafi það skilað meiri peningum en nemur kostnaðinum. Mig minnir að fjmrh. hafi farið með einhverjar tölur um það efni, en þó að innheimta hafi batnað er ekki þar með sagt að það sé allt vegna átaksins því að auðvitað voru þetta útistandandi kröfur sem áttu að innheimtast að réttu lagi þó að ekki hafi verið farið í sérstakar aðgerðir til þess í því skyni.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að segja mikið meira um frv. að svo stöddu. Ég vil hins vegar benda á, og sérstaklega benda hv. 1. þm. Vesturl. og varaformanni fjvn. á það, að í frv. segir að gert sé ráð fyrir 500 millj. kr. lækkun á framlagi ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins á þessu ári. Þetta er liður í þeim lækkunum gjalda sem ríkisstjórnin hefur ákveðið og er nú að bera undir þingið. Þetta vildi ég sérstaklega benda næsta ræðumanni á, vegna þess að ég veit að hv. 1. þm. Vesturl. er næstur á mælendaskrá, og væri forvitnilegt að heyra hvað hann hefur um þetta atriði að segja, en óneitanlega er það nýmæli, þegar í hlut á ríkisstjórn sem kennir sig við jafnrétti og félagshyggju, að skornir séu niður fjármunir til húsbyggingarsjóðanna svo
nemur mörg hundruð millj. kr.
    Ég vil að lokum, herra forseti, aðeins mótmæla því sem hv. formaður fjvn. sagði hér áðan, þegar hann

var að snúa út úr ummælum fyrrv. menntmrh. um vígslu Listasafnsins, og láta það koma fram að þeim ummælum er mótmælt sem útúrsnúningi og rangfærslu. Hins vegar mætti hv. formaður fjvn. gjarnan huga að því í starfi sínu á næstunni við meðferð þessa frv. með hvaða hætti hæstv. Alþingi sjálft hefur farið með hans eigin ummæli og skýringar við fjárlög yfirstandandi árs. Þannig er nefnilega, virðulegi forseti, að það hefur jafnan verið litið svo á að framsaga formanns fjvn. með frv. til fjárlaga væri mikilvægt lögskýringargagn þegar á þyrfti að halda við túlkun á fjárlögum og umdeilanlegum atriðum í sambandi við fjárveitingar í fjárlögum. Þess vegna hefur formaður fjvn. jafnan flutt mjög ítarlega framsöguræðu fyrir hönd nefndarinnar við 2. og 3. umr. um fjárlög og útskýrt nákvæmlega hvað lægi á bak við hvern einasta lið sem nefndin gerir tillögu um. Núv. formaður fjvn. er engin undantekning í því efni og hefur lagt sig fram um að útskýra af mikilli nákvæmni og mjög vandlega og vel hvað fjvn. hefur haft í huga við hvern einstakan lið sem nefndin hefur fjallað um og gerir tillögur um.
    Nú hefur hins vegar hæstv. Alþingi sjálft gert formann fjvn. ómerkan orða sinna að því er varðar ráðstöfun á fjármunum sem í núv. fjárlögum eru ætlaðir til þess að kosta för alþingismanna á þing Sameinuðu þjóðanna. Í fjárlögum þessa árs er tekinn upp sérstakur nýr liður sem heitir ,,Kynnisferð alþingismanna á þing Sameinuðu þjóðanna``. Áður var það svo að utanrrn. kostaði ferðir þingmanna á þing Sameinuðu þjóðanna og menn voru þar jafnvel í eins konar erindrekstri á vegum ráðuneytisins. Þessu var breytt og nú er þetta sérstakur liður sem Alþingi kostar sjálft. Til útskýringar þessum lið lét hv. formaður fjvn. það koma séstaklega fram og ítrekaði það oftar en einu sinni í ræðu sinni að hér eftir yrðu það eingöngu alþingismenn sem sæktu þing Sameinuðu þjóðanna vegna þess að það væru ekki heimildir til þess að kosta ferðir annarra af lið sem þessum. Og hann lét það koma mjög ákveðið fram að þarna yrði sem sé eingöngu um alþingismenn að ræða, fulltrúa allra þingflokkanna, og ef þannig stæði á að einhver þingflokkur gæti ekki sent mann úr sínum röðum eða aðstæður væru þannig að þingmaður úr tilteknum þingflokki hefði ekki kost á því að fara þyrftu forsetar þingsins að taka sérstaka ákvörðun um það hvort í staðinn færi þá þingmaður úr öðrum þingflokki eða hvort enginn færi í stað þess þingmanns sem hefði forfallast eða gæti ekki farið.
    Ég hygg, virðulegi forseti, að ekki sé hægt að komast skýrar að orði um ákveðin atriði í þessu máli og ég hygg að hv. formaður fjvn. hafi alveg vitað hvað hann var að segja og sú fjvn. sem stóð á bak við þessa yfirlýsingu. Nú hefur það hins vegar gerst, eins og ég hygg að flestir þingmenn viti, að Alþingi sjálft hefur gengið fram fyrir skjöldu í þessu máli og gert formann nefndarinnar ómerkan orða sinna með því að senda aðila í þessum hópi á þing Sameinuðu þjóðanna sem ekki er þingmaður og er reyndar varaþingmaður fyrir þingmann úr öðrum

stjórnmálaflokki eins og atvikin hafa orðið sem skiptir þó reyndar heldur ekki máli í þessu sambandi.
    Og mér er spurn, fyrst við erum að ræða hér frv. til fjáraukalaga og þá virðingu sem menn eiga að bera fyrir fjárlögum, hvað um alla hina sem eiga undir fjárveitingar til Alþingis að sækja og hefur verið úthlutað peningum af fjárlögum þegar Alþingi sjálft gengur fram fyrir skjöldu og hefur að engu þær skýringar og þær túlkanir sem fjvn. Alþingis og formaður hennar hafa gefið um einstaka fjárlagaliði? Hvaða fordæmi er hér verið að skapa? Hvað hyggst formaður fjvn. og hv. fjvn. gera í þessu efni? Ætlar nefndin að una þessu og sitja undir þessari lítilsvirðingu, sem ég vil kalla svo, sem henni hefur verið sýnd í þessu máli? Ætlar nefndin að gera það? Ætlar nefndin þá kannski að breyta þessu í sinni meðferð fyrir fjárlög næsta árs? Ætlar nefndin kannski að taka upp í frv. til fjáraukalaga núna sérstaka heimild til að kosta þessa breytingu þannig að viðkomandi liður verði ekki notaður til að greiða þetta, heldur einhver nýr liður? Eða ætlar nefndin að láta það á sig sannast að orð hennar og formanns hennar séu að engu höfð og það af Alþingi sjálfu? Þessu held ég að væri nær fyrir hv. formann fjvn. að huga að í stað þess að snúa út úr ummælum og rangtúlka ummæli fyrrv. menntmrh. eins og hann gerði hér áðan í ræðu sinni, ummæli sem viðhöfð voru þegar Listasafn Íslands tók í notkun nýbyggingu sína. ( SighB: Hver voru ummælin?) Ég hef ekki ummælin skriflega undir höndum, en ég veit, vegna þess að ég man þau áreiðanlega jafnvel og hv. formaður fjvn., að þau voru ekki þau sem hann taldi þau vera, enda greip fyrrv. menntmrh. fram í og leiðrétti ræðumann þannig að ef eitthvað er á huldu í því efni getur hann snúið sér til þess manns sem þar talaði, sem hér er viðstaddur, og fengið þetta nákvæmlega upp gefið.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að lengja þessa umræðu. Ég tel að því er hina formlegu hlið málsins varðar að hér sé á ferðinni mjög jákvætt mál. Og ég tek undir það með mönnum að hæstv. fjmrh. á að því leyti til þakkir skildar fyrir að beita sér fyrir þessu. Ég tel hins vegar ýmsa efnislega galla á
málinu og ég tel reyndar að formlega þurfi að ganga lengra í þessum efnum, í því að takmarka vald framkvæmdarvaldshafa til þess að greiða peninga úr ríkissjóði utan fjárlaga og það sé enn þá verulega mikið svigrúm og verulega mikil þörf fyrir umbætur í allri meðferð þessara mála og öllum starfsháttum sem að þeim snúa.