Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið. Þær hafa verið mjög fróðlegar og stundum allmerkilegar í sjálfu sér. Ég get sagt eins og aðrir að ég fagna því að þessi háttur er orðinn að veruleika, að frv. til fjáraukalaga liggur hér frammi fyrir fjárlagaárið sem stendur yfir. Ég fagna því ekki síst vegna þess að ég hef bæði við fjárlagaumræður 1988 og 1989 lagt áherslu á að þetta kæmist í framkvæmd og hafði rótfasta skoðun um það að hér væri um mál að ræða sem yrði að fara að ná tökum á. Og þegar við skoðum málið í samhengi er það alveg ljóst að við höfum núna miklu, miklu meiri möguleika á að koma mjög ákveðinni skipan á meðferð fjármála ríkisins. Ég minni þar á að við höfum Ríkisendurskoðun sem starfar undir Alþingi og gildi hennar er örugglega þegar komið í ljós. Bara tilkoma Ríkisendurskoðunar á Alþingi, og þær skýrslur sem hún vinnur, veitir nú þegar jákvætt aðhald, að mínu mati, í ríkisgeiranum og það ekki síst í hinum ýmsu ríkisstofnunum, þannig að það er farið að taka tillit til þess. Það eru að sjálfsögðu alltaf hnökrar á meðferð þessara mála sem hafa komið í ljós, en aðalatriðið er að við höfum þarna möguleika til að fylgja fram þessum málum og með því að hæstv. fjmrh. hefur tekið þetta frumkvæði sem er í alla staði jákvætt, og væri hægt að halda langar ræður um það, að gefa út fjáraukalög fyrir gildandi ár, þá erum við að komast á rétta braut.
    Ég vil aðeins nefna það hér að það hefur komið í ljós núna síðustu dagana, þegar fjvn. er að fjalla um ríkisreikninginn fyrir árið 1988, með tilliti til hans og þau fjáraukalög sem væntanleg eru fyrir sl. ár, og þegar við skoðum þær fjárhæðir og meðferð mála á sl. ári, þá sjáum við auðvitað strax hversu jákvætt það hefði verið að hafa slíkar upplýsingar í höndunum við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár. Ég er alveg sannfærður um það að þá hefði verið hægt í mörgum tilfellum að gera fjárlagafrv. fyrir 1989 raunhæfara en það varð miðað við þær upplýsingar sem koma fram um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 1988. Það er auðvitað staðreynd að það að hafa þessi fjáraukalög eða frv. hér til meðferðar hefur auðvitað bein áhrif á afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1990, svo einfalt er málið.
    Ég vil taka það fram að það er mín skoðun að við eigum að afgreiða þetta frv. áður en við afgreiðum fjárlög fyrir árið 1990. Það er að mínu mati rökrétt og eðlileg afgreiðsla málsins. Það eru margir þættir í þessu frv. sem gefa beina vísbendingu um meðferð vissra mála á annan hátt en gert hefur verið áður, í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1990.
    Það er e.t.v. ástæðulaust fyrir mig að fara meira ofan í þetta frv. hér, þar sem það kemur til beinnar afgreiðslu inn í fjvn. og við munum að sjálfsögðu þar óska eftir ýmsum upplýsingum sem ég tel nauðsynlegt að gera og tek undir það sem hér hefur áður komið fram, sérstaklega frá formanni fjvn. og hv. 2. þm. Norðurl. v. Við þurfum að fá yfirlit um framkvæmdir

fjárlaga skv. 6. gr. núgildandi fjárlaga. Það tel ég mjög eðlilegt og eins sundurliðun á ýmsum þáttum, bæði að því er varðar skattkerfisbreytingar og greiðsluhalla stofnana og geymdar fjárveitingar frá fyrra ári og eins um lækkun gjalda vegna fjárlaga í ár. Þar er um viðkvæmt mál að ræða sem mætti halda langt mál um. Út af fsp. hv. 17. þm. Reykv., í sambandi við húsnæðismálin, vil ég taka fram að ég ætla ekki að ræða þau hér. Það er ýmislegt sem mætti ræða út frá þeim
þætti. Við vitum það að Húsnæðisstofnun hefur á næsta ári 13,2 milljarða frá lífeyrissjóðunum skv. öllum upplýsingum og sem yrði kannski meira, þannig að þar er um gífurlega mikið fjármagn að ræða. Hins vegar liggur það líka fyrir að Húsnæðisstofnunin hefur ekki afgreitt lán á yfirstandandi ári eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Og það liggja líka fyrir upplýsingar um það að Húsnæðisstofnun hefur geymt inni á reikningi í Seðlabankanum, allt heila árið, alveg frá áramótum 1988--1989, upphæðir sem hafa leikið á bilinu frá 1 milljarði og upp í 2 milljarða og þannig haldið að sér höndum um eðlilega lánafyrirgreiðslu til fólks sem bíður og bíður eftir lánum og þar með hefði lánstíminn verið styttur svo um munar.
    Það er ástæðulaust að vera að tala um þetta hér, en ég get ekki stillt mig um að nefna það í leiðinni af því ég nefndi þennan málaflokk að það er dálítið undrunarefni hjá mér og fleirum að milliþinganefnd þingmanna úr öllum flokkum átti að skila greinargerð inn í Alþingi í byrjun þings í haust um áhrif nýrra þátta í húsnæðismálum, þ.e. húsbréfanna, hvaða áhrif þau hefðu á fjármálakerfið og þenslu o.s.frv. í þjóðfélaginu og hvort þingmenn væru sammála um það að láta lögin taka gildi 15. nóv. nk., eða gera einhverjar aðrar ráðstafanir. Ekki eitt einasta orð hefur komið fram frá þessari sameiginlegu þingnefnd þingflokkanna og þegar maður spyr viðkomandi menn um niðurstöðuna þá veit enginn neitt. Þó þetta sé utan fjárlaga getur það þó haft áhrif á fjárlög. Þetta er eitt dæmi um það hvernig þingmenn hunsa gjörsamlega ákvæði sem búið er að taka ákvörðun um við samþykkt ákveðinna laga. Ég ætla nú bara að segja það hér í leiðinni af því að hér hafa verið haldnar mjög merkar ræður um þensluauka í meðferð ríkisfjármála o.s.frv., að það er eitt sem menn
hafa ekki nefnt sem ég tel ástæðu til að nefna, að fjárlög eftir fjárlög hefur fyrsta atriði í 6. gr. fjárlaga verið á þá leið að þar hefur alltaf staðið að ríkisstjórninni sé heimilt að breyta fjárhæðum tekju- og gjaldamegin, ef lög verða staðfest frá Alþingi sem hafi í för með sér tekjur eða útgjöld fyrir ríkissjóð. Ætli það hafi nokkurn tímann verið skilgreint, það væri kannski ástæða til að fara að skoða það nánar, einmitt þegar við erum að komast á þetta framfarastig að vita allt um fjárlagaárið, það væri ástæða til að fara að skoða það, það væri fróðlegt, hversu samþykktir sem eru gerðar hér á Alþingi, lagasamþykktir og ýmis kostnaðarauki fyrir ríkið, er fyrirferðarmikið í fjárlögum yfirstandandi árs, það sem kemur eftir að fjárlög eru samþykkt. Ég held að þetta

hafi aldrei verið tekið til meðferðar. Mér datt það í hug undir ræðu formanns fjvn. áðan að það væri kannski ástæða til að taka ýmis svona atriði inn í þegar við förum að skoða þensluvalda í fjárlagagerðinni. Og ég verð að segja það líka að við verðum að skoða þá í leiðinni hvað af þessum framkvæmdum við getum verið sammála um og hvað ekki, af því hann minntist á útgjalda- eða þensluþáttinn í heilbrigðiskerfinu sem ekki skilaði neinu jákvæðu. Ég verð nú að segja það alveg eins og er að ég get ekki tekið undir þetta að öllu leyti, vegna þess að framfarir á sviði heilbrigðismála hafa verið mjög örar hér hjá okkur á Íslandi og ég held að það séu allir sammála um að það er ekki of gott fyrir íslenska þjóð að eiga mjög mikið öryggi og það besta sem völ er á á þessu sviði. Ég nefni þar nýjar heilsugæslustöðvar, ný sjúkrahús o.s.frv., sem öll kosta náttúrlega mikið fjármagn en enn þá meira í rekstrinum sem hlýtur þá að koma sjálfkrafa inn í ríkiskerfið. Þetta eru allt atriði sem við þurfum að sjálfsögðu að skoða niður í kjölinn.
    Ég vil einnig undirstrika það, sem kom raunar fram hjá hæstv. fjmrh., að það er þegar farið að bera árangur, við getum ekki neitað því, sú viðleitni í sambandi við hið sjálfvirka þenslukerfi í ríkiskerfinu, þó það séu nú ljót orð, að taka upp aðhald í launakerfinu t.d. með því að setja upp sérstakt launakerfi sem er tölvusett og þar með hægt að meðhöndla hvern einstakling nákvæmlega, hvort hann er raunverulega rétt settur í launakerfi ríkisins eða ekki og hvernig þessi þensla er. Ég er í engum vafa um að þetta á eftir að skila sér ef rétt er á haldið, og mér finnst að fjmrn. og hagsýslan séu á réttri leið hvað þetta varðar.
    Virðulegur forseti. Ég skal standa við það að hafa ekki hér langt mál um. Ég vil aðeins nefna eitt atriði sem snerti mig í ræðu hæstv. fjmrh. Það var í sambandi við landbúnaðarmálin. Hann sagði eitthvað á þá leið að greiðslur í sambandi við jarðræktarframlög og búfjárræktarframlög væru í samræmi við heimild í lánsfjárlögum. Ég hefði gjarnan viljað að það hefði komið fram í þessum fjáraukalögum, eða þá í lánsfjárlögum sem nú eru einnig til meðferðar, að það hefði komið skýrt fram hvernig fjmrh. ætlar að nýta þessa heimild lánsfjárlaga, þ.e. að gera upp við bændur og búnaðarsambönd það sem þau eiga skv. eldri lögum, jarðræktarlögum og búfjárræktarlögum, og heimild er fyrir í lánsfjárlögum fyrir árið 1989, að semja um uppgjör á. Ég held að við verðum að fá þarna hrein skil svo við þurfum ekki sífellt að vera að draga þetta á eftir okkur, náttúrlega öllum til tjóns. Ég hefði viljað að þarna hefði verið svolítið skýrar að orði komist og við fengjum að vita hvar málið stendur í augnablikinu.
    Eins og ég segi þá ætla ég ekki að fara ofan í ýmsa liði, ég tel að sjálfsögðu að við þurfum að skoða ýmislegt hér um og ég get tekið undir það sem kom fram hjá einum hv. ræðumanni að það kemur í ljós í hinum mörgu safnliðum sem eru í fjárlagafrv.,

þar sem fjvn. ákvað að hafa nokkuð stórar fjárhæðir óskiptar fyrir viðkomandi ráðuneyti, að viðkomandi ráðuneyti hafa samt sem áður þurft að fá aukafjárveitingar merkt undir sömu liði án þess að vitað sé hvernig þessi óskipti liður, sem var einhvers staðar, t.d. í menntmrn. um 25--30 millj. Ég held því að það sé rétt krafa sem fjvn. mun auðvitað fylgja eftir að fá hreinar upplýsingar um þetta atriði.
    Ég vil svo að lokum aðeins endurtaka það, sem hér hafa margir sagt, að ég tel að þetta séu tímamót og fjmrh. á vissulega heiður skilið fyrir að hafa komið þessu í verk eins og margir hafa gert kröfu til á undanförnum árum.