Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla að svara einni fsp. sem til mín var beint út af sérstöku atriði hér af hv. 17. þm. Reykv. Í fyrra tók utanrrn. þá ákvörðun að tilkynna Alþingi að það mundi ekki lengur greiða kostnað við þátttöku fulltrúa þingflokkanna á þingi Sameinuðu þjóðanna. Fyrir 3. umr. fjárlaga sem fram fór 5. jan. 1989 varð því að taka afstöðu til þess hvort ætti að fella niður þátttöku fulltrúa þingflokkanna á þingi Sameinuðu þjóðanna eða hvort leggja bæri til að það yrði tekið inn á kostnað vegna Alþingis. Niðurstaðan varð sú að fjvn. flutti sérstaka tillögu þar um á þskj. 395, að tekið yrði upp sérstakt viðfangsefni á vegum Alþingis er fengi númerið 136 og héti, virðulegi forseti, Þátttaka alþingismanna í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þetta var með ráðum gert, virðulegi forseti, vegna þess að um leið og mér var falið að mæla fyrir tillögunni svohljóðandi frá fjvn., þá var mér falið að útskýra tillögugerðina fyrir Alþingi þannig að eins og segir í máli mínu þá, með leyfi forseta vitna ég beint í þá ræðu:
    ,,Þar eð utanrrn. greiðir ekki lengur kostnað af þessari starfsemi, heldur hefur hann alfarið flust yfir til Alþingis, er ekki lengur um það að ræða að Alþingi geti greitt kostnað annarra þátttakenda en alþm. Þingflokkarnir geta því hér eftir ekki tilnefnt aðra fulltrúa af sinni hálfu til setu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna en alþm. því ekki er heimilt að Alþingi greiði slíkan kostnað vegna annarra en alþm. Hafi þm. einhvers þingflokks ekki aðstæður til eða áhuga á að sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna er því ekki um það að ræða að sá þingflokkur geti átt fulltrúa þar í það sinn og yrði það þá ákvörðun alþingisforseta og þingflokkaformanna hvort öðrum þingflokkum yrði gefinn kostur á að tilnefna í það sæti ef þátttaka félli niður.``
    Þetta var mér falið að flytja, eins og hv. 17. þm. Reykv. sagði hér áðan, sem skýringu fjvn. Alþingis á þessari tilteknu tillögu. Og eins og hann sagði réttilega, þá er framsaga formanns fjvn. með fjárlagatillögum nefndarinnar notuð til að styðjast við til skýringar á hvað fyrir nefndinni hafi vakað. Þannig að Alþingi, hafandi samþykkt tillögu frá nefndinni með slíkum skýringum, hefur þá um leið samþykkt skýringuna sem hv. fjvn. leggur fyrir. Liðurinn heitir Þátttaka alþingismanna í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Það er ekki heimilt að greiða kostnað af lið sem heitir Þátttaka alþingismanna vegna þátttöku einhverra aðila úti í bæ sem ekki eru alþm. á þingi Sameinuðu þjóðanna. Það liggur alveg ljóst fyrir. Við höfum rætt þetta lítillega í fjvn. er okkur var ljóst hvaða ákvörðun hafði verið tekin, sem stríðir gegn bæði þeirri skýringu sem ég gaf og ótvíræðri orðun þess fjárlagaliðar sem til stendur að greiða kostnað þennan af. Það hefur ekki formlega verið afgreitt neitt um þessi mál í fjvn. en ég mun leggja til í nefndinni, og tel mig hafa jafnmikinn stuðning við þá afstöðu eins og ég hafði við þá afstöðu sem ég kynnti á vegum nefndarinnar fyrir tæpu ári síðan, að fjvn. leggi ekki fyrir Alþingi að fallast á þá greiðslu kostnaðar sem

kann að hafa farið fram af þessum fjárlagalið vegna þátttöku manns, sem ekki er alþm., á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir.
    Mér er kunnugt um það að sumir af þeim sem sátu þann fund þar sem þessi ákvörðun var tekin mótmæltu ákvörðuninni með vísan til þess sem fram hefði komið í minni ræðu og í samþykkt fjvn. Þau mótmæli hljóta að vera til vitnis um að þegar ákvörðunin var tekin um hverja sendi skyldi sem fulltrúa Alþingis á þing Sameinuðu þjóðanna, þá hljóti þeir sem að þeirri ákvarðanatöku stóðu að hafa vitað hvaða samþykktir voru gerðar þar um og hafi menn efast um það var hægur vandinn að fletta upp, í bæði fjárlagaliðnum sem er ótvíræður og í ummælum mínum. Þetta vil ég að komi fram, herra forseti. Alþingi getur ekki og hefur ekki heimild til þess að greiða af liðnum Þátttaka alþingismanna í starfi Sameinuðu þjóðanna, kostnað annarra en alþm.