Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka fyrir þau jákvæðu ummæli sem hér hafa fallið í minn garð vegna þess að ég hef lagt hér fyrir þingið frv. til fjáraukalaga. Það er alveg rétt að ýmsir menn hafa á undanförnum árum rætt um nauðsyn þess að þetta væri gert og ríkur skilningur er víða á því að það er brýnt að skapa þann nýja grundvöll í meðferð ríkisfjármála sem ég hef nokkrum sinnum vikið að hér á þessu hv. Alþingi. Engu að síður er það staðreynd að fyrr en nú hefur það ekki verið gert.
    Ég er þeirrar skoðunar að skýringin á því liggi e.t.v. með afdráttarlausustum hætti í þeim ummælum sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson lét falla hér, og eru að mínum dómi alveg rétt, að með því að flytja frv. til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár er verið að skila valdi, umtalsverðu valdi sem framkvæmdarvaldið hefur smátt og smátt á sl. rúmri hálfri öld tekið til sín frá Alþingi í reynd. Og allir þeir sem þekkja þróun og breytingar á valdahlutföllum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds í þróuðum lýðræðisríkjum á þessari öld gera sér auðvitað skýra grein fyrir því að megineinkenni þeirrar þróunar hefur verið aukning á valdi framkvæmdarvaldsins á kostnað löggjafarvaldsins. Ég hefði að sjálfsögðu haft nokkurn fræðilegan áhuga á því í framsöguræðu minni að fjalla um þetta atriði en kaus að gera það ekki þótt ærið tilefni hefði verið til þess að setja þetta frv. í samhengi við þá miklu lýðræðislegu umræðu sem staðið hefur nokkra áratugi á Vesturlöndum um nauðsyn þess að breyta á ný valdahlutföllum milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds löggjafarvaldinu í hag. Kjarninn í þeirri ákvörðun minni að flytja þetta frv. er þess vegna ekki fyrst og fremst sá, þótt það sé mikilvægt, að stuðla að breyttri skipan í meðferð ríkisfjármála, heldur að fylgja fram þeirri lýðræðislegu nauðsyn að færa á ný í hendur Alþingis stóran hluta af því valdi sem því ber skv. stjórnskipan íslenska lýðveldisins.
    Ég verð hins vegar að segja eins og er, og vona að það verði ekki misskilið, að það kann að verða vitnisburður um áhugaleysi Alþingis á að fá þetta vald í hendur að þorri þingsins hefur sýnt þessari umræðu takmarkaðan áhuga þótt margt hefði mátt læra af þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar. Ég tek þess vegna undir þá spurningu sem formaður fjvn., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, flutti hér og er enn ósvarað, að hve miklu leyti Alþingi hefur í reynd áhuga á að fá þetta vald í sínar hendur og nota það.
    Ég gerði líka grein fyrir því að það var óhjákvæmilegt þegar þetta skref væri stigið í fyrsta sinn að frv. væri nokkur blanda af ákvörðunum sem þegar væri búið að hrinda í framkvæmd og þeim sem ætti eftir að hrinda í framkvæmd.
    Ég vil svo nota hér fáeinar mínútur til að víkja að nokkrum atriðum sem fram hafa komið í ræðum þeirra sem hér hafa talað. Ég vil fyrst segja í fullri vinsemd við ágætan vin minn, hv. þm. Pálma Jónsson, að auðvitað met ég mikils huga Sjálfstfl. á því að

koma þessari breyttu skipan á ríkisfjármálin. Það er hins vegar söguleg staðreynd að það kom í minn hlut á síðasta þingi að flytja hér frv. til fjáraukalaga fyrir nær öll þau ár sem Sjálfstfl. fór með fjmrn. á árunum 1983--1987. Það er auðvitað alveg rétt sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson benti á og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson vakti með dramatískum hætti athygli á að kannski er ástæðan fyrir því að fjármálaráðherrar fyrri áratuga hafa kosið þennan hátt, að flytja frumvörpin ýmist ekki eða mörgum árum á eftir, sú að þeir vildu sleppa við það að standa frammi fyrir þinginu og þurfa að sitja fyrir svörum og taka við gagnrýninni og ásökununum í tæka tíð og á réttum tíma.
    Ég tel það vera lýðræðislega nauðsynlegt að fjármálaráðherra og ríkisstjórn setji sig í þá lýðræðislegu prófraun í þjóðþinginu á hverjum tíma og eigi ekkert að hika við að ræða sín verk á þeim tíma þegar þau koma til framkvæmda en ekki sitja í því skjóli að tönn tímans eyði þeirri gagnrýni og enginn nenni fjórum eða fimm árum síðar að taka málið upp.
    Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur að nokkru leyti svarað þeirri fsp. frá hv. þm. Pálma Jónssyni sem snertir þær 350 millj. sem hér er lagt til að komi til viðbótar varðandi endurgreiðslur á söluskatti því ætlunin er að hafa hreint borð í þessum efnum við áramótin þegar virðisaukaskatturinn verður tekinn upp en framlengja kerfið ekki inn í næsta ár þótt það sé auðvitað hægt að færa ýmis rök fyrir því að uppsöfnuð söluskattstilefni séu þá fyrir hendi.
    Ég hefði að vísu kosið að hv. þm. Pálmi Jónsson heyrði næsta svar mitt en hann hefur vikið úr salnum og vona ég að honum verði fært það því að hann ásamt fleiri þingmönnum, séstaklega hv. þm. Inga Birni Albertssyni, kvartaði yfir því að ekki væri lögð fram skrá yfir aukafjárveitingar með þessu frv. Þetta er einhver misskilningur hjá hv. þm. vegna þess að skráin yfir aukafjárveitingar er í frv. Hún er alveg nákvæm og tæmandi á bls. 17--21 í frv. Hún er að vísu ekki sett upp í töflu eins og stundum hefur verið gert, heldur er hún flokkuð eins og venja er í fjárlagafrv. þegar verið er að gera grein fyrir einstökum liðum undir hverju ráðuneyti, en hver einstakur liður er þar rakinn og nefndur. Var hv. þm. Pálmi Jónsson að víkja að því að í ræðu,
sem hv. þm. flutti hér og reyndar fleiri þingmenn, var kvartað yfir því að ekki væri skrá yfir aukafjárveitingar í frv. en hún er í frv. alveg nákvæm og tæmandi á bls. 17--21. Hún er hins vegar ekki sett upp í hinu hefðbundna töfluformi, sem oft hefur verið gert áður og það var gert af ráðnum huga til þess að færa form þessa frv. nær formi fjárlagafrv. á hverjum tíma. Hitt er svo rétt að það hefði mátt huga að því að hafa á þessu frv. sérstaka skrá yfir hvað búið væri að greiða út og hvað ætti eftir að greiða út og það er fyllilega réttmæt ábending. Ég tel að í meðferð fjárveitinga á frv. muni það koma skýrt og mjög greinilega í ljós og ég vakti athygli á okkrum slíkum atriðum hér í minni framsöguræðu.
    Nokkrir hv. þm. --- þó held ég að það séu að vísu

aðeins tveir, hv. þm. Ingi Björn Albertsson og hv. þm. Geir Haarde --- hafa vikið að fjárveitingu til rannsókna á fiskeldi sem unnar hafa verið í tengslum við fyrirtækið Silfurstjörnuna. Í þessu samhengi vil ég minna á þá umræðu sem hér hefur orðið, að framsaga formanns fjvn. á hverjum tíma sé nánast ígildi laga. Og ég bendi hv. alþm. á það að í framsöguræðu fyrir meiri hl. fjvn. 18. des. 1986 skýrði hv. þm., þáv. formaður fjvn., lið sem tengdur var Orkustofnun á þá leið:
    ,,Tekinn verði upp nýr liður, 10 millj. kr., sem tengist sérgreindu verkefni við fiskeldi, einkanlega til að rannsaka náttúruleg skilyrði vatns og upptöku sjávar fyrir fiskeldi, þar á meðal vegna slíkra rannsókna í Öxarfirði.``
    Þetta var í framsögu fyrir fjárlagafrv. í desember 1986. ( Gripið fram í: Undir Orkustofnun?) Já, já, undir Orkustofnun, að sjálfsögðu. Skömmu eftir að
ég kom í ráðuneytið höfðu fulltrúar bænda á þessu svæði samband við mig og greindu mér frá því að það fyrirheit sem hér væri gefið um þessar rannsóknir í Öxarfirði hefði ekki verið efnt því að Öxarfjörður væri eini staðurinn sem þarna er nefndur. Ég lét kanna það mál og komst að raun um það að þessi umkvörtun væri á rökum reist og ákvað þess vegna að standa við það fyrirheit, sem ég taldi að þarna hefði verið gefið, að þær rannsóknir, sem þar höfðu verið framkvæmdar í góðri trú, í tengslum við þetta fyrirtæki, yrðu greiddar. Það hafði ekkert með hv. þm. Stefán Valgeirsson að gera. Það hafði ekkert með aðild að þessari ríkisstjórn að gera, heldur var eingöngu um að ræða skuldbindingar sem ég taldi með réttu hafa verið gefnar, sérstaklega bændum og stjórnendum þessa fyrirtækis í Öxarfirði á sínum tíma, en ekki hafði verið staðið við án þess að ég ætli nokkuð að fara að rekja það hér og nú hverjar skýringar kunni að vera á þessu. Ég vek sérstaka athygli á þessu hér af því að hér hefur mönnum orðið tíðrætt um það að framsaga formanns fjvn. á hverjum tíma séu nánast lög.
    Hv. þm. Geir H. Haarde las hér texta úr minni framsöguræðu fyrir fjárlagafrv. í fyrra. Mér er þessi texti nokkuð kær vegna þess að hann felur í sér í fáeinum setningum kjarnann í þeirri efnahagsstefnu sem fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár byggðist á. Ég ætla ekki að eyða löngu máli hér í að ræða þennan texta en er reiðubúinn að gera það síðar við gott tækifæri hér á Alþingi vegna þess að þessi texti lýsti einmitt þeim efnahagslega kjarna fjárlagafrv. að annaðhvort mundu fjárlögin í framkvæmd skila tekjuafgangi eða, ef um halla yrði að ræða, mundi það jafnframt leiða til þess að viðskiptahallinn mundi stórlega minnka og þannig mundi nást sá jákvæði efnahagslegi árangur sem fjárlagafrv. var ætlað að vera veigamikill liður í. Ég veit að hv. þm. er það vel hagfræðilega menntaður að hann skilur það að fjárlögin eru ekkert einangrað fyrirbæri. Þau ber að skilja og dæma í samhengi við aðra veigamikla þætti í stjórn efnahagsmála og hin ánægjulega niðurstaða yfirstandandi árs er einmitt sú að um leið og halli

ríkisins hefur orðið meiri hefur vöruskiptahallinn horfið og nú verður jákvæður vöruskiptajöfnuður í fyrsta skipti í langan tíma. Fyrir nokkrum dögum síðan gekk Seðlabankinn frá nýju mati á þróun viðskiptahallans á þessu ári sem sýnir jafnvel mun jákvæðari niðurstöðu en bjartsýnustu spár fram til þessa höfðu falið í sér.
    Um þetta gæti ég haft langt mál ( Gripið fram í: Ég líka.) og ég vænti þess hv. þm. líka. Þetta er mikilvægt atriði vegna þess að þetta snertir grundvallarsamhengið milli fjárlaganna og efnahagsstjórnarinnar á hverjum tíma. En ég ætla ekki að gera það hér og nú en bara nota þetta tækifæri til þess að segja að það er víðs fjarri að þessi ummæli séu mér eitthvert feimnismál. Þau eru þvert á móti þau sem ég mundi helst halda til streitu úr framsöguræðu minni fyrir fjárlagafrv. í fyrra, enda vitnaði ég sérstaklega í þessi ummæli og rifjaði þau upp sjálfur á ráðstefnu viðskiptafræðinga um fjárlagafrv. fyrir nokkrum dögum síðan.
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Pálmi Jónsson spurði einnig að því hvort það væri ætlun mín að þetta frv. fæli í sér fyrirheit um að halda við þær ákvarðanir sem Alþingi mundi taka í þessu frv. og fara ekki fram úr því með nýjum ákvörðunum. Svarið við þessu er einfalt. Það er já. Það er ætlun mín og fyrirheit sem lýst hefur verið yfir í ríkisstjórninni og ríkisstjórnin hefur staðfest fyrir sitt leyti að það verða ekki afgreiddar aðrar fjárveitingar á þessu ári en þær sem staðfestar verða í þessu frv. Þar með er haldið áfram á þeirri braut sem hér er mörkuð, að gefa ríkisfjármálunum þá festu að ekki sé
greitt út úr ríkissjóði annað en það sem heimild er fyrir.
    Ég gæti einnig í nokkuð löngu máli svarað fyrirspurn hv. þm. um samskipti fjmrn. við forsvarsmenn ríkisstofnana sem farið hafa fram úr fjárlögum. Við höfum átt viðræður við ýmsa þeirra. Þær viðræður hafa leitt til aðgerða sem bætt hafa stöðuna en ég ætla ekki að verja löngum tíma í það hér og nú.
    Hv. þm. Geir H. Haarde, sem nú er að vísu farinn úr salnum þó að ég kysi heldur að hann heyrði svar við fyrirspurn hans ... ( Forseti: Forseti vill upplýsa að þingmaðurinn er ekki lengur í húsinu.) Nei. Það finnst mér leitt vegna þess að hann spurði að því hvers vegna viðbótarkostnaður væri færður hér vegna hins sérstaka innheimtuátaks á sköttum. Skýringin er sú að okkur fannst ekki rétt að það viðbótarvinnuframlag, sem óhjákvæmilega þurfti að inna af hendi hjá sýslumönnum, hjá öðrum innheimtustofnunum, hjá tollstjóranum í Reykjavík og öðrum embættum, kæmi fram sem umframútgjöld hjá þessum stofnunum heldur kusum að færa þetta undir sérstakan lið á vegum fjmrn.
    Hv. þm. sagði svo einnig að það ætti að ganga enn lengra en hér er gert í því að takmarka vald framkvæmdarvaldshafa til aukafjárveitinga. Þetta fannst mér hraustlega mælt af hv. alþm. vegna þess að auk þeirra fjármálaráðherra sem nú sitja á Alþingi hefur

líklegast enginn alþingismaður tekið jafnríkan þátt í að veita aukafjárveitingar á undanförnum árum eins og hv. þm. Geir H. Haarde sem í fjögur ár var aðstoðarmaður fjmrh. á árunum 1983--1987.
    Hvað snertir fyrirspurn hv. þm. Inga Björns Albertssonar um greiðslu í félmrn. vegna álags, þá er þar átt við álag á stofnunina sjálfa sem kemur auðvitað fram sem viðbótarvinnuframlag þeirra sem þar starfa.
    Hv. þm. vék einnig að þeirri 7 milljarða skattatölu sem margir veifa oft. Í framsöguræðu minni minnti ég á það að raunbreytingin á tekjum ríkisins frá árinu 1988--1989 er eingöngu 1,7 milljarðar. Þeir sem gagnrýna viðbótarskatta verða þá að svara því hvort þeir hefðu þá látið halla ríkissjóðs verða samsvarandi eða hvar þeir hefðu ætlað að finna þá 5,3 milljarða í niðurskurði sem ella hefði orðið að koma til framkvæmda. Það var þess vegna farið í það verk að auka skatttekjurnar til þess að fyrirbyggja halla og vegna þess að það var ekki meirihlutavilji á þingi, ég held hvorki hjá stjórnarandstöðunni né hjá stjórnarliðum, að fara í þann umfangsmikla niðurskurð sem hefði verið óhjákvæmilegur hefði ekki komið til þeirrar tekjuöflunar.
    Virðulegi forseti. Ég vil svo þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið og óska fjvn. þess að henni takist vel til með meðferð þessa máls. Ég tek undir með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, formanni fjvn., að eðlilega mun nefndin meðhöndla frv. líkt og hún hefur gert með fjárlagafrv., breyta einstökum liðum og útfæra þá nánar. Enn fremur tel ég að í þessari umræðu hafi komið fram ýmsar mjög athyglisverðar ábendingar um framtíðarform frv. af þessu tagi, bæði þegar það er lagt fram og þegar það er endanlega afgreitt og ég vænti þess að fjvn. muni taka þær ábendingar til ítarlegrar athugunar.