Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Sl. laugardag samþykkti flokksstjórn Alþfl. ályktun þar sem heitið er á ráðherra og þingmenn flokksins að beita sér fyrir því að gildistöku virðisaukaskatts verði frestað til 1. júlí 1990. Með þessari ályktun staðfestir flokksstjórn Alþfl. það sem við sjálfstæðismenn höfum haldið fram að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur ekki innri styrk til að undirbúa og hrinda í framkvæmd svo flóknu og viðurhlutamiklu máli sem sú kerfisbreyting er að taka upp virðisaukaskatt í stað söluskatts. Það eru sjö vikur til stefnu og þó er langt í land að teknar hafi verið ákvarðanir um þýðingarmikil atriði, tæknilegs og pólitísks eðlis. Málið er allt í uppnámi, ég nefni t.d.: Verða skattþrepin eitt eða tvö? Hvernig verður háttað skattlagningu matvæla? Hvernig verður staðið að skattkerfisbreytingunni með hliðsjón af hagsmunum sjávarútvegs og landbúnaðar? Verður virðisaukaskattur lagður á upphitun íbúðarhúsnæðis? Verður veittur gjaldfrestur á virðisaukaskatti við innflutning? Hversu verður háttað skattlagningu á blöð, tímarit og bækur? Hækkar gildistaka virðisaukaskatts byggingarkostnað íbúðarhúsnæðis?
    Formaður Alþfl. hefur tekið undir gagnrýni flokksstjórnar Alþfl., þegar hann segir að allra hluta vegna sé æskilegt að meiri tími gefist til undirbúnings málsins og það eru stór orð. En formaður Alþb., Ólafur Ragnar Grímsson, hefur þvertekið fyrir að til greina komi að fresta gildistöku virðisaukaskatts og fullyrðir að undirbúningur hafi gengið skv. þeirri áætlun sem mótuð var fyrir mörgum mánuðum, sem er rangt.
    Hæstv. forseti. Ummæli utanrrh. og fjmrh. staðfesta að alvarlegur klofningur er kominn upp í ríkisstjórninni. Ályktun flokksstjórnar Alþfl. er vantraustsyfirlýsing á meðferð fjmrh. á undirbúningi
skattkerfisbreytingarinnar um næstu áramót. Við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á mikilvægi hóflegs virðisaukaskatts til að treysta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum, en slík breyting krefst mikils og vandaðs undirbúnings, krefst fyrirhyggju. Hún má undir engum kringumstæðum vera skálkaskjól til þess að hækka skatta eins og 26% virðisaukaskattur gerir. Svo skattglaðri ríkisstjórn sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar er er ekki treystandi til að framkvæma fyrirhugaða skattkerfisbreytingu. Eins og sakir standa er óhjákvæmilegt að fresta gildistöku virðisaukaskatts. Eftir ályktun flokksstjórnar Alþfl. er óvissan um gildistöku virðisaukaskatts orðin algjör með því óhagræði sem því fylgir fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu.
    Ég beini orðum mínum til þeirra ráðherra sem hér eru staddir, að þeir gefi skýr svör um afstöðu sína til málsins.