Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Í dag er mánudagur, fastir liðir eins og venjulega. Hv. þm. Halldór Blöndal, utan dagskrár. Að vísu nú aðeins í hálftíma, en síðasta mánudag með tveggja tíma framsöguræðu.
    Hins vegar er alveg velkomið að veita hv. þingmanni skýr og afdráttarlaus svör við þessum mörgu spurningum sem hann setti hér fram og hann veit sjálfur svörin við þeim flestum.
    Núv. ríkisstjórn tók ákvörðun um það fyrr á þessu ári að virðisaukaskattur taki gildi um næstu áramót og það hefur engin ákvörðun verið tekin um að breyta til í þeim efnum. Í sumar var undirbúin verkáætlun í fjmrn. og með þeim embættisstofnunum sem þetta verk annast og þeirri verkáætlun hefur verið fylgt. Það var kjarni hennar að á haustmánuðum, frá og með seinni hluta september og fram til áramóta, yrði sú kynningarlota og framkvæmdalota sem nauðsynleg væri á síðasta spretti undirbúningstímans fyrir gildistöku virðisaukaskattsins. Í þeim efnum var byggt á þeirri ágætu reynslu þegar staðgreiðslukerfið var innleitt á Íslandi og víðtækri þekkingu starfsmanna viðkomandi embættisstofnana í þeim efnum.
    Það hefur nokkuð mikið verið gert úr því að enn eigi eftir að gefa út mikinn fjölda reglugerða. Sú athugasemd byggir væntanlega á skorti á upplýsingum um hvenær hafi staðið til að gefa þessar reglugerðir út.
    Virðulegi forseti. Ég vil af þessu tilefni greina frá því hér að nú þegar hafa verið gefnar út tvær reglugerðir, önnur um bókhald og tekjuskráningu og hin um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna. Á morgun verða gefnar út fimm reglugerðir í viðbót.
    Í fyrsta lagi reglugerð um framtöl, gjalddaga og greiðslufyrirkomulag virðisaukaskatts.
    Í öðru lagi reglugerð um uppgjör virðisaukaskatts í landbúnaði, en útgáfu hennar hefur verið flýtt um einar sjö vikur. Upphaflega stóð til að gefa hana ekki út fyrr en í lok desembermánaðar, en hún verður gefin út á morgun.
    Í þriðja lagi reglugerð um frádrátt innskatts.
    Í fjórða lagi reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts til sendimanna erlendra ríkja.
    Í fimmta lagi reglugerð um sjóðsvélar sem skv. áætlun átti ekki að vera tilbúin fyrr en í upphafi desembermánaðar.
    Í næstu viku verða síðan, virðulegi forseti, gefnar út þrjár reglugerðir í viðbót. Reglugerð um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskráðra fyrirtækja eða stofnunar, í öðru lagi reglugerð um frjálsa og sérstaka skráningu og í þriðja lagi reglugerð um leiðréttingu á frádrætti vegna innskatts þegar breyting verður á notkun varanlegra rekstrarfjármuna.
    Þá munu tíu af þeim reglugerðum sem gefa átti út á þessum vikum verða komnar út og staðfestir enn á ný að fylgt er þeirri verkáætlun sem lögð var í upphafi og það sem meira er, verulegur hluti verksins

er á undan áætlun.