Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Sigríður Lillý Baldursdóttir:
    Virðulegur forseti. Við kvennalistakonur fögnum nýgerðri samþykkt flokksforustu Alþfl. um frestun á gildistöku virðisaukaskatts. Og við bindum nokkrar vonir við að ef framkvæmd virðisaukaskatts frestast um hálft ár og menn gefa sér þann tíma til að meta væntanleg áhrif hans muni þeir sjá að það er rétt sem þá er sýnilega farið að gruna, þrátt fyrir orð hæstv. utanrrh. hér áðan, að það er ekkert vit í að leggja skattinn á.
    Virðisaukaskatti er ætlað að koma í stað söluskatts og leggst á sérhvert framleiðsluþrep vöru og þjónustu. Greiðendur skattsins verða því mun fleiri en söluskatts. Áætlað er að þeir verði 26.500 í stað 12.500. Þannig fer samtals meira en helmingi meiri vinna í skýrsluskrif landans og fyrstu missirin má búast við að sá tími sem sú vinna taki verði margfalt meiri vegna allra nýju greiðendanna. Þá er ótalin sú aukavinna sem skattheimtan þarf að inna af hendi. En búist er við að um 400 manns verði ráðnir til starfa í landinu sérstaklega vegna þessa skatts. Kostnaðinn greiðir svo öll þjóðin þegar upp er staðið. Áætlað er að hann verði mældur í hundruðum milljóna kr., jafnvel eitthvað á annan milljarð.
    Hver er svo ávinningurinn? Fyrst var talið að með tilkomu virðisaukaskatts mundu skattskil aukast að mun vegna þess innbyggða eftirlits sem menn sáu í honum. En frá Noregi, þar sem virðisaukaskattur var tekinn upp fyrir nokkrum árum, fréttist nú að það eftirlit hafi brugðist. Þá var gert ráð fyrir að aukinn fjöldi greiðenda yrði til þess að skattprósentan yrði lægri og það mundi leiða til bættra skattskila. Það hefur líka brugðist því nú er gert ráð fyrir 26% skatti.
    Um allt þjóðfélagið er fólk skelfingu lostið yfir því að það skuli eiga að demba enn einni skattkerfisbreytingunni yfir þjóðina. Orðalag hæstv. utanrrh., um vélun, á hér vel við. Þessu er dembt yfir þjóðina án nauðsynlegs undirbúnings.
    Niðurstaðan er sú að við höfum öllu að tapa en ekkert að vinna með upptöku virðisaukaskatts. Verið nú menn til að viðurkenna það og frestið gildistöku virðisaukaskattsins um eilífð. Kvennalistakonur mundu greiða slíkri frestun atkvæði sín.