Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Við borgaraflokksmenn höfum ávallt haft nokkrar efasemdir um gæði virðisaukaskattsins og grátum það ekki þó að honum verði frestað um nokkra mánuði. Hins vegar samþykktum við við myndun þessarar ríkisstjórnar að taka upp virðisaukaskattinn um þessi áramót og við það stöndum við. Það sem hefur gerst núna er hlutur sem kemur okkur sem öðrum ríkisstjórnarflokkum verulega á óvart, að einn flokkurinn hefur ályktað að það eigi að fresta þessum skatti í sex mánuði. Þó svo að undirbúningur sé ekki mjög vel á veg kominn verður að viðurkenna það að auglýsingar og kynning hefur farið fram og að fresta skattinum núna mundi kalla á álíka kynningu. Þá eru einnig mörg fyrirtæki búin að undirbúa sig undir upptöku virðisaukaskattsins um áramótin og það mundi koma sér mjög illa fyrir mörg fyrirtæki ef fresturinn ætti sér stað.
    Annað er það að ég og minn flokkur mundum vilja fresta skattinum ef það væri á borðinu að verið væri að taka upp tvö virðisaukaskattsstig með þessum skatti. Ef verið væri að taka upp lægri skatt á matvælum og öðrum lífsnauðsynjum og svo hærri skatt á öðrum vörum, þá værum við tilbúnir og mundum krefjast þess ef við fengjum hljómgrunn að fresta þessu og þá kannski ekki um sex mánuði heldur jafnvel um eitt ár.