Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér er verið að ræða um ágreining í ríkisstjórn. Nú er ágreiningurinn kominn upp á yfirborðið og hann kemur fram með þeim hætti að ef þetta hefði verið í síðustu ríkisstjórn þá hefði hæstv. utanrrh. orðað það svo að nú hefði hann sett hníf og gaffal í bakið á fjmrh., enda aðalágreiningurinn um matarskattinn. Þessi ágreiningur er þannig kominn upp að mann undrar það að þessir stjórnarflokkar skuli starfa saman.
    En það hefur líka komið í ljós að núna eru tveir af þeim fjórum þingflokkum sem standa að ríkisstjórninni á því að fresta eigi þessum skatti, þ.e. helmingurinn af ríkisstjórninni vill fresta, hinn helmingurinn vill það ekki. Það er því mikilvægt að úr því verði skorið sem allra fyrst hver afstaða ríkisstjórnarinnar er. Þetta er eitt stærsta mál sem við fjöllum um og það á eftir að skera úr um fjölmörg atriði, um hæsta skattþrep í heimi á virðisaukaskatti, fjölmiðlaskattinn, matarskattinn, endurgreiðslur frá fiskiðnaði, ýmsa þætti sem varða bændur, byggingariðnaðinn og sveitarfélög. Allt er þetta óráðið og enginn veit hvernig það verður. Það er því nauðsynlegt að þessi ríkisstjórn fari frá sem allra fyrst.