Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Það er dálítið merkilegt að hlusta á hv. sjálfstæðismenn ræða þessi mál. Þeir tala alltaf um að þessi og þessi skattur sé of hár, en þeir koma ekki með neinar tillögur um það hvað eigi þá að skera niður eða hvernig eigi að ná tekjum upp í ríkissjóð. Sem sagt, allt þeirra tal um þetta er marklaust. Hins vegar kemur mér dálítið óvart það sem sumir hér hafa talað um að það sé ekki búið að taka ákvörðun um tvö skattþrep. Ég veit ekki betur en að það hafi verið ákveðið að þau yrðu tvö og þess vegna var þetta skattþrep hækkað frá því sem áður var talað um upp í 26% til þess að hægt væri að lækka þrepið á brýnustu nauðþurftum almennings. Mér kemur þetta sem sagt á óvart og vil raunar fá á því skýringu.