Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það hefur farið fram mikil umræða um það hér á landi að við þurfum að aðlaga marga hluti hjá okkur þeirri staðreynd að innri markaður Evrópu er að verða að veruleika. Og eitt af því sem þar hefur verið horft á er það hvort skattakerfi á Íslandi væri í það miklum tengslum við skattakerfi Evrópu að einhver samsvörun ætti sér stað.
    Nú liggur það nokkuð ljóst fyrir að samkeppnisiðnaður allur í þessu landi hefur af því verulegan hag að virðisaukaskattur sé upp tekinn. Mér kemur þess vegna verulega á óvart þegar Sjálfstfl. talar nú á þann veg, eða hinir ýmsu fulltrúar hans, að þeir telji virðisaukaskattinn ekki eiga að koma til greina. Satt best að segja verð ég að segja eins og er að ég vorkenni Morgunblaðinu þó nokkuð mikið að þurfa að túlka stefnu slíks flokks sem segir eitt í dag og annað á morgun. Það liggur nefnilega fyrir í þingskjölum Alþingis að þessi flokkur studdi virðisaukaskattinn, studdi það að hann yrði lagður á. Nú þarf flokkurinn ekki aðeins á því að halda að málgagn flokksins, Morgunblaðið, geri grein fyrir því hvers vegna þeir studdu skattinn, heldur einnig að koma með skýringu á því hvers vegna þeir hafi yfirgefið þá skoðun. Og það verður að vera einhver merkilegri skýring en sú að þeir séu í stjórnarandstöðu í dag, sú skýring dugar ekki.
    Ég hygg því að atvinnurekendur í landinu hljóti að spyrja Sjálfstfl. að því hver sé stefna þeirra í skattamálum. Vilja þeir hafa allt annað skattakerfi á Íslandi en er í Evrópu? Er það þannig sem þeir vilja að Íslendingar búi sig undir sameiginlegan markað? Við þessu verða að fást svör. Það þýðir ekkert að koma hér fram sem hið sterka afl íslenskra stjórnmála með allt niður um sig í þeim efnum hvernig skattakerfi þeir vilji hafa. Flokkur af þessari stærð hlýtur að verða að bera þá ábyrgð hvort sem hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu að hann hafi stefnu í skattamálum. Allt annað er út í hött og menn skyldu ekki gera ráð fyrir því að íslensk alþýða sé svo óábyrg að hún telji að það sé farsælt fyrir nokkra þjóð að hafa flokk við völd sem ekki treystir sér til að segja frá því hvernig stefnu hann vill hafa í skattamálum.