Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Þegar virðisaukaskatturinn tekur gildi verður það stórfelld hagsmunabót fyrir íslenskan útflutning og samkeppnisiðnað. Vilja menn fresta því að útflutningsgreinar og samkeppnisiðnaður fái slíka hagsmunabót? Þegar virðisaukaskatturinn verður tekinn upp verður stigið veigamikið skref í því að laga Ísland að þróun Evrópumarkaðarins. Vilja menn fresta þeirri aðlögun? Mér skilst ekki. Sjálfstæðismennirnir kalla hér í salnum: Prósentan, prósentan, prósentan. Og þeir segja hér í ræðustólnum: Við viljum miklu lægri prósentu. Já, við skulum tala um það, ef Sjálfstfl. hefur þá manndóm til að leggja fram tillögur um það hvar Sjálfstfl. vill skera niður í ríkisútgjöldunum sem nemur 5--6 milljörðum kr. Það hefur Sjálfstfl. auðvitað ekki manndóm til að gera. En hann mun hafa tvö tækifæri fram að jólum til þess að leggja fram þær tillögur hér á Alþingi ef það á að taka mark á honum, bæði þegar frv. til fjáraukalaga verður afgreitt og þegar fjárlagafrv. verður afgreitt.
    Það er rangt, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, að skatttekjur ríkisins verði auknar um 6 milljarða á næsta ári. Og það er vont til þess að vita að jafnvandaður maður skuli fara með annað eins rugl vegna þess að skatttekjur ríkisins munu minnka á næsta ári um 1300 millj. kr. Það er staðreyndin sem hefur verið kynnt hér hvað eftir annað á hv. Alþingi. (Gripið fram í.) Staðreyndin er auðvitað sú að Sjálfstfl. er fullkomlega tækifærissinnaður í þessum málum. Hann er ekki að hugsa um hagsmuni útflutningsgreinanna á Íslandi, hann er ekki að hugsa um það að laga hagkerfið okkar að því sem er að gerast í helstu viðskiptalöndum okkar, hann er bara að hugsa um upphlaupspólitík og hreina tækifærismennsku á meðan við hinir vinnum að því að styrkja grundvöll íslenskra útflutningsgreina og atvinnulífsins í landinu.