Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég vil fá að leiðrétta. Í fyrsta lagi: Sjálfstfl. hefur ekki lagst gegn því að virðisaukaskattur kæmi til framkvæmda hérlendis. En hann leggur áherslu á að það sé gert með þeim hætti að framkvæmdin sé traust og örugg. Í öðru lagi, virðulegi forseti, vil ég gera athugasemd við það sem hæstv. fjmrh. sagði í sambandi við prósentuna. Að hækka virðisaukaskatt úr 22% upp í 26% þýðir aukningu upp á 6 milljarða, enda kom það fram í ræðu hæstv. fjmrh., þannig að það var rétt sem ég sagði í ræðu minni hér áðan að þessi prósenta þýðir 6 milljarða hækkun, skattaíþyngingu ekki aðeins á atvinnuvegina heldur á fólkið í landinu. Það er meginatriði að sú umfjöllun fari fram hér á hinu háa Alþingi áður en það verður ákveðið endanlega hver skattprósentan á að vera.