Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál þegar hæstv. fjmrh. kemur upp og tekur þátt í umræðum af þessu tagi og fer rangt með, svarar með öðrum hætti en hann gerði í sjónvarpi nú fyrir tveim dögum sem sýnir með öðrum hætti í hversu mikilli sjálfheldu hin pólitíska umræða er hér á Alþingi, þegar ráðherrar fást ekki til að svara efnislega þeim spurningum sem fyrir þá eru lagðar.
    Í sjónvarpi var hann spurður að því hvernig þetta mál stæði. Þá sagðist hann hafa lagt fram skýrslu til allra þingflokka fyrir rúmlega hálfum mánuði og óskað eftir því að þeir svöruðu þeim pólitísku atriðum sem þar kæmu fram en Alþfl. hefði ekki svarað þessum spurningum. Síðan sagði hann, með leyfi hæstv. forseta: ,,Það stendur ekkert á tæknilega undirbúningnum, en það stendur á pólitískum svörum og hinir stjórnarflokkarnir eru tilbúnir að leggja þau fram.``
    Þetta sýnir okkur auðvitað að það er rangt að sú verkáætlun sem lögð var fram í vor standist.
    Ég fullyrði líka, og ég veit að hæstv. fjmrh. staðfestir að ég fer með rétt mál, þegar ég upplýsi hér að sú fundaáætlun sem gerð hafði verið í milliþinganefndinni hefur ekki staðist og þær reglugerðir, sem hann er nú að lýsa að eigi að leggja fram á morgun og í næstu viku, hafa ekki verið lagðar fyrir á fundi í milliþinganefndinni, þannig að sú verkáætlun hefur ekki staðist að láta þessa nefnd fylgjast með þeim verkum sem unnin hafa verið. (Forseti hringir.) Hef ég lokið mínum þrem mínútum? Mér finnst það nú vera fullskammur tími, en ég vil þá aðeins segja að síðustu, hæstv. forseti, og ekki misnota það, að hér kemur fram annars vegar að þingmenn Framsfl. lýsa því yfir og Alexander Stefánsson hv. þm. mjög skýrlega að frá hans sjónarmiði sé það forsenda fyrir virðisaukaskatti að skattþrepin verði tvö. Hæstv. fjmrh. lýsir hinu gagnstæða yfir. Hæstv. utanrrh. er hér að reyna að skýra ályktun Alþfl. og á hér í miklum erfiðleikum fyrir samstarfsmönnum sínum, ráðherrum úr öðrum flokkum og m.a. var vikið heldur óþyrmilega að formanni þingflokks Alþfl. í fyrstu ummælum hæstv. fjmrh. þegar hann gerði lítið úr ummælum hans á Stöð 2 sl. laugardag. Það er athyglisvert að enginn þingmaður Alþfl. stóð upp til þess að skýra með formanni sínum hvað hefði vakað fyrir flokksstjórn Alþfl. þegar hún hvatti þingmenn og ráðherra til að fylgja því eftir að virðisaukaskatti yrði frestað um hálft ár. Ekki einu sinni hæstv. viðskrh. sá ástæðu til að taka til máls sem sýnir með öðru hversu lítils virði þessi ályktun er í þeirri umræðu sem eftir verður fram að áramótum. Alþfl. hefur sætt sig við það, þingflokkur og ráðherrar, að virðisaukaskatturinn taki gildi um áramót. Það er hæstv. fjmrh. sem hefur völdin í þessu efni og við vitum það þingmenn að Alþfl. mun dansa með.