Flm. (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir till. til þál. um könnun á vinnubrögðum löggiltra endurskoðenda og er flm. ásamt mér hv. þm. Ingi Björn Albertsson. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram könnun á vinnubrögðum löggiltra endurskoðenda í landinu með það fyrir augum að þau verði samræmd á þann hátt að viðunandi verði fyrir viðskiptalífið, bankastofnanir og allan almenning í landinu.
    Alþingi ályktar enn fremur að á grundvelli könnunarinnar verði lög og reglur um endurskoðun og reikningsskil hér á landi endurmetin og endurbætt þannig að tryggt verði samræmi í vinnubrögðum og lágmarksöryggi fyrir notendur íslenskra reikningsskila.``
    Í greinargerð kemur fram eftirfarandi:
    Fram hefur komið að hættulega mikið ósamræmi virðist nú vera í vinnubrögðum löggiltra endurskoðenda á Íslandi, einkum að því er reikningsskil fyrirtækja varðar. Í störfum sínum við gerð reikningsskila fyrirtækja styðjast endurskoðendur við svonefndar leiðbeinandi reglur og miða vinnubrögð sín við hugtak sem þeir nefna ,,góða reikningsskilavenju``.
    Í nýútkominni skýrslu um rannsóknar- og ákærumeðferð Hafskipsmálsins svonefnda, sem Ragnar Kjartansson, fyrrum stjórnarformaður félagsins, hefur tekið saman, birtast niðurstöður úr mjög athyglisverðri athugun sem Ragnar hefur gert á 60--70 ársreikningum íslenskra fyrirtækja frá síðustu árum. Meðal þeirra fyrirtækja eru flest stærstu og þýðingarmestu fyrirtæki landsins, svo sem SÍS, Flugleiðir, Arnarflug, Eimskip, öll olíufélögin, vátryggingafélög, allir bankar, ýmsir sparisjóðir, fjármögnunarfyrirtæki, opinberar stofnanir, sjávarútvegsfyrirtækin Grandi, Skagstrendingur og fjölmörg önnur, Landsvirkjun, hitaveitur, Álafoss, KEA og fleiri kaupfélög, svo og ýmis einkafyrirtæki. Athugun þessi er vönduð og samviskusamlega unnin og niðurstöður hennar eru merkilegar, koma á óvart og eru um margt ógnvekjandi því að fram kemur að ósamræmi við gerð þessara ársreikninga er mjög mikið. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál því að ætlast verður til að almenningur, bankastofnanir og þeir sem stunda viðskipti geti treyst ársreikningum fyrirtækja og vinnubrögðum endurskoðenda sem gengið hafa undir hæfnispróf til að mega sinna þessum störfum og hafa réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna samkvæmt leyfi sem fjármálaráðherra gefur út. Sérstaklega er það alvarlegt og umhugsunarefni að mikið ósamræmi sé í vinnubrögðum endurskoðenda við ársreikninga þeirra fyrirtækja sem eru með hlutabréf sín til sölu á almennum markaði. Þannig kemur fram að ekki er samræmi í gerð ársreikninga ýmissa þeirra fyrirtækja sem hvað mest hafa selt hlutabréf sín á hlutabréfamarkaðnum hér á landi. Má þar nefna fyrirtæki, svo sem Flugleiðir, Eimskip og Skagstrending og meðal bankanna Iðnaðarbanka, Verslunarbanka og Útvegsbanka. Fjallað er um öll

þessi fyrirtæki í skýrslunni og þar kemur fram að reikningsskil þeirra eru ekki samræmd en á sama tíma ganga hlutabréf í þeim kaupum og sölum á mörkuðunum. Þetta er hættulegt og getur grafið undan þeim vísi sem þó er að myndast að hlutabréfamarkaði hér á landi og er bráðnauðsynlegur.
    Sú athugun á reikningsskilum íslenskra fyrirtækja, sem hér er vitnað til, kallar á víðtæka athugun af hálfu stjórnvalda á þessum málum þannig að unnt verði að gera endurbætur á lögum til þess að tryggja gæði þeirrar vinnu sem unnin er af löggiltum endurskoðendum.
    Vert er að hafa í huga mikilvægi þess að reikningsskil fyrirtækja séu vönduð og rétt. Á þeim grundvallast ekki aðeins skattlagning á fyrirtæki, heldur getur afkoma einstakra fyrirtækja og atvinnugreina í heild haft margháttuð áhrif á verðlag í landinu og þar með á kaupmátt almennings, t.d. þegar heilar atvinnugreinar krefjast hækkana á vörum sínum og þjónustu vegna slæmrar afkomu.
    Hér á eftir verða nefnd fáein dæmi um þá ringulreið sem virðist nú ríkja í reikningsskilum íslenskra fyrirtækja. Dæmin eru sótt í skýrslu Ragnars Kjartanssonar og vekja upp margar spurningar um áreiðanleika ársreikninga fyrirtækja almennt og kalla á svör um það hvort íslenskir endurskoðendur hafi lent á villigötum í túlkun sinni á hugtakinu ,,góðri reikningsskilavenju``, en skýrsluhöfundur heldur því fram að um túlkun á því hugtaki sé nú svo komið að ekkert sé fast í hendi í þeim efnum. Ef það reynist rétt vera er ljóst að Alþingi getur ekki við svo búið látið standa.
    1. Endurskoðendur virðast ekki geta komið sér saman um vinnubrögð við meðferð á gengistapi hjá fyrirtækjum. Félag löggiltra endurskoðenda gaf út um síðustu áramót leiðbeiningar um það hvernig færa skyldi gengistap sem varð vegna 4--5% gengisfellingar í ársbyrjun 1989. Oft er um miklar fjárhæðir að ræða. Sumir endurskoðendur færa gengistapið undir árið 1988, aðrir undir árið 1989 og enn aðrir sitt á hvað eftir fyrirtækjum. Alvarlegasta dæmið um þetta er að sá maður, sem er formaður fagnefndar hjá félagi endurskoðenda og hvatti félagsmenn til að gæta varúðar og færa gengistap vegna gengisfellingar í
ársbyrjun 1989, fór ekki að eigin ráðum þegar hann endurskoðaði ársreikning Landsvirkjunar. Með þessu sýndi hann eiginfjárstöðu Landsvirkjunar betri sem nam heilum milljarði króna en hún var í raun. Dæmi eru um að sama endurskoðunarskrifstofa noti árslokagengi hjá nokkrum stórfyrirtækjum sem vitnað er til í könnuninni, en ekki hjá öðrum stórfyrirtækjum þannig að afkoma og staða þessara fyrirtækja verður engan veginn sambærileg. Almenningur á enga möguleika á að botna í þessum vinnubrögðum.
    2. Íslensk reikningsskil eiga að taka mið af þeim verðbólguaðstæðum sem eru í landinu. Þess vegna er beitt endurmati á fjármunum sem á að vera samræmt að öllu leyti. En fyrrnefnd athugun á 60--70 fyrirtækjum leiðir í ljós að 19 mismunandi aðferðum var beitt.

    3. Fjölmennustu almenningshlutafélög landsins, eins og Eimskip og Flugleiðir, virðast hafa leyft sér að breyta og umsnúa reikningsskilaaðferðum sínum með margvíslegum hætti á undanförnum árum. Hugmyndaflug við þá iðju hefur á köflum verið ótrúlegt, einkum hjá Flugleiðum, sem m.a. hafa reiknað inn í sinn ársreikning verðbólgu í öðrum löndum þegar það hefur þótt henta.
    4. Ársreikningur Seðlabanka Íslands er ekki einu sinni traustvekjandi. Sjálft Seðlabankahúsið við Kalkofnsveg er ekki fært þar til eignar frekar en það væri ekki til. Það var fært til gjalda á byggingartíma eins og tíðkast um alla fjármuni bankans, að því er virðist til að sýna afkomu og stöðu hans verri en hún raunverulega er.
    5. Endurskoðendur eiga að hafa samræmdar reglur við eignafærslu varanlegra rekstrarfjármuna sem ganga út á að færa upphaflegt kostnaðarverð fjármunanna, að viðbættu árlegu endurmati og að frádregnum afskriftum. Dæmi hafa fundist um að vikið hefur verið frá þessu til að sýna eignastöðu fyrirtækja betri en hún raunverulega er. Þannig er um eitt af stærstu togarafyrirtækjum landsins. Þar hefur endurskoðandi fyrirtækisins hækkað verð togaranna um 140 milljónir króna umfram það sem talið er eðlilegt. Fram kemur að deilur eru uppi innan Félags löggiltra endurskoðenda um málið og hefur því verið skotið til úrskurðar hjá fagnefnd í félaginu sem hefur samþykkt vítur á þann endurskoðanda sem hækkuninni beitti. Þannig er kominn upp opinber ágreiningur innan félagsins um vinnubrögð sem hlýtur að teljast alvarlegt mál og rýra traust manna á stétt endurskoðenda.
    6. Dæmi er nefnt um að fyrirtæki leyfi sér að ganga svo langt að færa hjá sér sem eign fiskinn í sjónum til að sýna betri rekstrarafkomu og eiginfjárstöðu. Þá er um að ræða að keyptur kvóti er eignfærður og ætlaður til afskrifta á fimm árum, enda þótt lög um stjórn fiskveiða renni út á næsta ári án þess að nokkur viti hvað tekur þá við.
    7. Ýmis dæmi eru nefnd um ekkert samræmi í meðferð eftirlaunaskuldbindinga hjá mismunandi fyrirtækjum, þar á meðal bönkum og ekki síst hjá ríkisbönkum. Hleypur þar oft á hundruðum milljóna.
    8. Sýnt er fram á alvarlegt ósamræmi við birgðamat hjá fiskvinnslufyrirtækjum vítt og breitt um landið. Það er auðvitað athyglisvert þegar þess er gætt að afkoma fiskvinnslunnar hefur ákaflega mikil áhrif á gengisskráningu og þar með afkomu fólks og kaupmátt í landinu.
    9. Svo virðist sem endurskoðendur hafi ýmsar ólíkar aðferðir við að færa gengistap í ársreikninga fyrirtækja. Áður var nefnt að þeir hafa í ýmsum tilvikum sína hentisemi við færslu gengistaps um síðustu áramót. Dæmi er um að þeir hafi tekið upp á því að mynda svonefndan ,,gengisjöfnunarsjóð`` hjá hitaveitu þar sem þeir töldu gengistapið ekki nægilegt. Þannig var hagnaður hitaveitunnar minnkaður um hundruð milljóna það árið --- sem ætti að hafa auðveldað forsvarsmönnum umræddrar hitaveitu að

knýja fram hækkanir á þjónustugjöldum sínum! En það merkilega er að sama endurskoðunarfyrirtæki sá ástæðu til að ganga með öðrum hætti frá ársreikningi fyrir hitaveitu sem var að öllu leyti sambærileg --- nema hún var rekin með tapi, en þá þurfti ekki að mynda neinn ,,gengisjöfnunarsjóð`` til að eyða hagnaði þar sem tap var á hitaveitunni. Hætt er við að ekki verði gerður mikill vitrænn samanburður á afkomu og stöðu þessara tveggja hitaveitna. Spyrja má hvaða áhrif það hafi á þjónustugjöld þessara stofnana.``
    Ég vil vekja athygli á því að eftir að ég samdi grg. hef ég fengið upplýsingar um að það mun vera svo að umrætt endurskoðunarfyrirtæki hefur notað sömu aðferð við þá hitaveitu sem nefnd er hér að framan og vil ég leiðrétta það hér og nú.
    ,,Fleiri dæmi verða ekki nefnd þó að af miklu sé að taka. Framangreind upptalning hlýtur að sýna Alþingi að hér verður að taka í taumana umsvifalaust.``
    Niðurstaða mín er sú að ósamræmið og eftir atvikum hentistefna lýsi sér m.a. í þessum atriðum hér:
    1. Í því að allt að 19 mismunandi endurmatsaðferðum eigna í efnahagsreikningi er beitt. Engin þeirra gefur sömu eigin niðurstöðu en allar eru sagðar gefa glögga mynd af efnahagsreikningi og byggjast á góðri reikningsskilavenju.
    2. Í stórfelldu ósamræmi í afskriftatíma hliðstæðra eigna er gefa mismunandi mynd af efnahagsstöðu og samanburði á milli rekstraraðila.
    3. Ringulreið á mati á eftirlaunaskuldbindingum og færslumáta.
    4. Er ósamræmi í mati og færslumáta birgða framleiðslugreina, m.a. í fiskvinnslunni.
    5. Um er að ræða stórfelldan rugling endurskoðenda við bókun gengistryggðra eigna og skulda sem kemur fram í mismunandi uppgjörsgengi um áramót og hentistefnukenndri tilraunastarfsemi með gengisjöfnunarreikninga.
    6. Komið hefur í ljós skortur á samræmdum reglum um mat á stofn- og langtímakostnaði sem hefur leitt af sér handahófskennt mat á skilgreindum kostnaði, afskriftatíma hans og fleiru.
    7. Um er að ræða handahófskennda meðferð kaupleigusamninga sem eru ýmist innan eða utan efnahagsreikninga.
    8. Einnig er um að ræða handahófskennda meðferð viðskipta- og skattavildar í eignamati.
    9. Áritanir löggiltra endurskoðenda á ársreikningum virðast oft vera villandi eða eftir atvikum of staðlaðar.
    10. Jafnframt eru oft ónógar skýringar með ársreikningum og iðulega ekki í samræmi við fyrirmæli í lögum.
    11. Svo er að sjá sem marklaust mat sé á rekstrarhæfni í reikningsskilum og skortur á viðmiðunarreglum um hvenær starfsemi telst rekstrarhæf og hvenær ekki.
    Hæstv. forseti. Í nútímaþjóðfélagi þar sem rekstur fyrirtækja er svo mikilvægur og skiptir hvern þegn þjóðfélagsins afar miklu er töluvert áríðandi að

reikningsskil fyrirtækja séu samræmd og niðurstöður reikninga séu sýndar með sama hætti. Engu skiptir hvort um er að ræða einkafyrirtæki, samvinnufyrirtæki eða opinber fyrirtæki.
    Eins og rakið hefur verið hér að framan er ærið mikið ósamræmi og ruglingur í vinnubrögðum löggiltra endurskoðenda við reikningsskil. Alþingi hlýtur í þessu efni að taka á málinu og setja ákveðnar reglur til öryggis fyrir notendur íslenskra reikningsskila.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn. Sþ.