Kynbótastöð fyrir laxfiska
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um kynbótastöð fyrir laxfiska. Þetta er reyndar í þriðja skiptið sem tillaga í þessum dúr er flutt á hv. Alþingi þó með þeirri breytingu að nú hljóðar hún svo: ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta reisa og reka kynbótastöð fyrir laxfiska.`` Í fyrri útgáfum var talað um eldisfisk. Hér er kannski sérstaklega um að ræða áherslu á bleikjuna og orðið víkkað út þess vegna.
    Þar sem tvívegis áður hefur verið mælt fyrir þessari till. ætla ég ekki að gera hana að mjög miklu umtalsefni hér. Þau meginrök sem áður hafa verið flutt eiga enn við. Ég hygg að hér sé um eitt veigamesta og mikilvægasta málið að ræða fyrir fiskeldi í dag. Norðmenn hafa um mjög langt árabil stundað kynbætur á eldislaxi og þeir hafa lagt meginþunga á þrjú aðalatriði, þ.e. að ná fram auknum vaxtarhraða, síðbúnum kynþroska og aukinni mótstöðu gegn sjúkdómum. Árangur er eftir norskum skýrslum að dæma mjög mikill, eða 3--5% aukning vaxtarhraða á ári. Þetta leiðir aftur til þess að eftirspurn eftir hrognum úr kynbættum laxi í Noregi er mjög mikil.
    Eitt af því sem vekur ýmsar spurningar og veldur erfiðleikum í íslensku fiskeldi er að íslensku laxastofnarnir verða í stórum mæli kynþroska eftir eitt ár í sjó. Við kynþroska fer fóður og orka mest í að þroska hrogn og svil. Fiskurinn vex ekki þrátt fyrir eldi, og gæði fisksins til matar minnka. Úrval af seiðum til undaneldis er lítið og kynbætur eru nánast engar. Brýnasta málið við eldi á laxi á Íslandi er nú að kynbæta stofna til undaneldis. Það er útilokað að treysta á innflutt hrogn vegna þess að áhætta mun verða of mikil af að sjúkdómar geti borist til landsins.
    Hér er lögð áhersla á að ríkið verði sá aðili sem hleypi þessari starfsemi af stokkunum. Íslensku fiskeldisstöðvarnar búa við mjög erfiða aðstöðu í dag og valda því ekki að setja slíka stöð af stað þó að hún sé í rauninni ekki mjög fjárfrek, en gert er ráð fyrir að slík kynbótastöð væri hlutafélag sem atvinnugreinin mundi kaupa sig inn í og væntanlega yfirtaka þegar henni vex fiskur um hrygg.
    Í Kollafirði eru hafnar kynbætur á hafbeitarlaxi en þar er að hluta verið að leita annarra eiginleika en í eldi, eins og ratvísi og auknum endurheimtum. Vonir eru bundnar við að þessar kynbætur sem þarna eru geti aukið arðsemi í hafbeit um 3--6% á ári með hærri endurheimtum og meiri sláturþunga. Fyrstu niðurstöður úr tilraunum með samanburði á norskum og íslenskum laxastofnum sem nú er unnið að á vegum RALA benda til að af íslenska stofninum í tilrauninni verði rúm 70% kynþroska eftir eitt ár í sjó en af þeim norska 10%. Það sýnir hversu gríðarlega mikilvægt atriði hér er um að ræða vegna þess að það er ekki bara um það að ræða að ná laxinum stærri ef hann verður ekki kynþroska fyrr en eftir tvö ár í sjó. Annars vegar er það að kílóið af laxi er í hærra verði ef fiskurinn er stærri og hins vegar að viðbótarkílóin sem framleidd eru eru ódýrari í framleiðslu.

    Það er mjög mikilvægt að kynbótastöð fyrir laxfiska sé nálægt sjó og hún þarf á hreinum jarðsjó að halda. Hún þarf að vera staðsett sér og nokkuð einangruð vegna sjúkdómahættu, og gert er ráð fyrir að til hennar yrðu fluttir stofnfiskar í byrjun frá nokkrum stöðvum. Þar þarf að vera aðstaða til klaks, seiðaeldis, geymslu stofnfisks og einhvers áframeldis en síðar mundum við gera ráð fyrir að seiðin yrðu alin í nokkrum matfiskastöðvum samkvæmt samningi við kynbótastöðina, þannig að stofnkostnaður yrði minni. Mælingar á þroska fisksins og sláturþunga væru síðan notaðar til vals á fiski til undaneldis. Það val væri framkvæmt á fiski sem alinn er í sjálfri kynbótastöðinni en kynbótastöðin gæti síðan selt hrogn í framtíðinni. Af reynslu Norðmanna að dæma er um mjög arðbært fyrirtæki að ræða.
    Sjálf skipulagning og tölvustýring kynbótanna gæti verið framkvæmd af sérfræðingum hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, en sérfræðingar landbúnaðarins hafa þegar mikla reynslu af kynbótum, og undirbúningur vegna kynbóta á hafbeitarlaxi mundi nýtast vel í kynbótastöð fyrir laxfiska almennt í eldi.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að leggja áherslu á það að framtíð fiskeldis á Íslandi veltur á því að rannsóknir og tilraunir verði efldar. Íslendingar hafa þegar dregist aftur úr helstu samkeppnisþjóðum sínum í fiskeldi. Þróunin er mjög ör og það mál sem hér er flutt er eitt af því allra mikilvægasta fyrir íslenskt fiskeldi sem um er að ræða í dag.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að þessari till. verði vísað til hv. atvmn. að lokinni umræðu.