Skráningarkerfi bifreiða
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir það að hafa lagt þessa till. fram. Ég hef heyrt það víða á landsbyggðinni að menn eru mjög óhressir með hið nýja númerakerfi bifreiða, sérstaklega með tilliti til þess að ekki er lengur hægt að sjá hvaðan viðkomandi kemur. Það er mjög mikill áhugi á því að viðhalda annaðhvort gamla kerfinu eða taka upp eitthvert slíkt kerfi þar sem hægt er að sjá hvaðan bifreiðir koma. Öll sú röksemdafærsla sem hv. flm. flutti fyrir máli sínu hér áðan á fullkominn rétt á sér.
    Ég hafði sjálfur í huga að flytja mál af svipuðum toga en var ekki kominn niður á hvers konar kerfi ætti að taka upp í staðinn. Ég hafði hugsað þann möguleika sem flm. hafa lagt hér til. Mér finnst ekki ráðlegt að við verðum áfram með tvenns konar númerakerfi á bifreiðum. Ég held að það gangi hreinlega ekki upp. Ég hafði hugsað mér að leggja fram þá tillögu, ég veit ekki hvort flm. gæti hugsað það mál með mér, að nýja kerfinu sem einu sinni er komið á verði við haldið. Eins og við þekkjum á þessum nýju númerum er ætlað pláss fyrir framan tölurnar fyrir skjaldarmerki viðkomandi byggðarlags. Nú hefur það alls ekki gengið eftir og við sjáum sárafáar bifreiðar sem hafa notfært sér þetta rými á númeraspjöldunum. Mér hafði dottið í hug að leggja til að gömlu einkennisstöfunum fyrir gömlu skráningarhéruðin yrði viðhaldið. Það yrði beinlínis skylda að viðhalda gömlu stöfunum, R fyrir Reykjavík, V fyrir Vestmannaeyjar, F fyrir Siglufjörð o.s.frv. Þetta pláss á númeraspjöldunum yrði notað þannig að límmiðar, svipaðir og eru notaðir fyrir skráningartöluna, yrðu settir á þetta pláss og það væri beinlínis hægt að skipta um límmiða í hvert skipti sem skipt væri um eiganda að bílnum. Þannig að þá hefðum við þrjá bókstafi og þrjá tölustafi á hverju númeri, en fyrsti bókstafurinn gæfi ávallt til kynna hvaðan bifreiðin kæmi.
    Ég hef hugsað mér að setja þetta niður á blað og flytja um þetta tillögu, og mér þætti vænt um ef hv. flm. þeirrar till. sem hér liggur frammi gæti hugsað sér að hugsa þetta mál með mér.