Sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Frsm. allshn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 158 um frv. um breyting á lögum um sakadóm í ávana- og fíkniefnamálum nr. 29/1986.
    Nefndarmenn eru sammála um að mæla með samþykkt frv. með þeirri brtt. sem fram kemur á þskj. 159.
    Nál. er á þessa leið:
    ,,Nefndin hefur rætt frumvarpið á fundum sínum og fengið til viðtals Gunnlaug Briem, yfirsakadómara í Reykjavík, Ásgeir Friðjónsson, sakadómara við dómstól í ávana- og fíkniefnamálum, Unni Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Lögmannafélags Íslands, Hrafn Bragason, formann réttarfarsnefndar, Þorstein Geirsson, ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu, Þorleif Pálsson, skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu, og Þorstein A. Jónsson, deildarstjóra í dómsmálaráðuneytinu.
    Eftir að hafa rætt frumvarpið og skipst á skoðunum við fyrrtalda aðila eru
nefndarmenn sammála um að mæla með samþykkt frumvarpsins með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Undir þetta rita Jón Helgason, Guðmundur Ágústsson, Skúli Alexandersson, Salome Þorkelsdóttir, Eyjólfur Konráð Jónsson, Jóhann Einvarðsson og Danfríður Skarphéðinsdóttir.
    Eins og frv. ber með sér er verið að breyta því þannig að þrír aðilar geti setið í sakadómi í ávana- og fíkniefnamálum. Eins og nú er getur aðeins einn aðili setið í hverju máli. Ástæða þess að þetta frv. er flutt, og sem fram hefur komið hjá viðmælendum okkar sem heimsótt hafa nefndina, er sú að upp kom sérstakt mál í sakadómi í ávana- og fíkniefnamálum sem krefst þess eiginlega að þrír aðilar skipi dóminn.
    Nefndin var ekki sammála um orðalagið í 1. gr. frv., en það er svo, með leyfi forseta:
    ,,Ef vafi þykir vera um mikilsverð sönnunar- eða lagaatriði getur dómarinn kvatt til setu í dómi með sér tvo dómendur. Sá sem kvaddur er til setu í dómi skal vera embættisdómari eða fullnægja skilyrðum 2. mgr.``
    Það var einkum síðasti liðurinn í ákvæðinu, að fullnægja skilyrðum 2. mgr., sem vafðist fyrir mönnum. Einkum það að það þyrfti ekki að vera aðili sem er dómari í dag, heldur að það væri hægt að kalla til aðila utan réttar sem skipa aðrar stöður en dómarastöður í dag. Þess vegna leggjum við fram svofellda brtt.:
    Við 1. gr., í a.-lið á eftir orðunum ,,getur dómarinn`` í fyrri málsl. efnismgr. komi: ,,að fengnu samþykki dómsmálaráðuneytisins``, og í b.-lið falli orðin ,,eða fullnægja skilyrðum 2. mgr.`` í síðari málsl. efnismgr. brott.
    Það er sem sagt lagt í hendur dómsmrn. að skipa þessa aðila en það er ekki sjálfur sakadómurinn sem tilnefnir þessa menn sem er kjarninn í okkar brtt.