Lögheimili
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Þegar hæstv. ráðherra var að mæla fyrir þessu merka máli sem hér er nú til umræðu nefndi hún að vera mætti að breyta þyrfti öðrum lögum, nefndi málefni sem ekki féllu inn í þessi lög um lögheimili. T.d. nefndi hún merkingu íbúða. Það kom þá í minn hug að annað málefni sem snertir almannaskráningu og fasta búsetu og ekki fellur inn í þessi lög er skráning fæðingarstaðar. Það er nú svo að sjálfsagt á meiri hluti fæðinga nú til dags sér stað hér í Reykjavík eða á einhverjum sérstökum heilsugæsluþjónustustöðum. Sá sem t.d. á foreldra og æskuheimili vestur á Snæfellsnesi og Hellissandi er trúlega skráður fæddur í Reykjavík, eða inni í Stykkishólmi o.s.frv. Ég held að þessi almannaskráning sé orðin úrelt. Og ég bendi hæstv. ráðherra og starfsmönnum almannaskráningar sem hér eru staddir á hvort ekki væri athugandi einmitt í sambandi við umfjöllun þessa máls að breyta þessari skráningarskyldu. Hún er vitaskuld orðin að vissu leyti ómerk miðað við það sem hún var áður. Þá var fyrst og fremst verið að benda á hvaðan þessi og þessi einstaklingur væri upprunninn. Ég tel þess vegna og bið um það að þetta mál verði skoðað og mundi benda hæstv. ráðherra á það að mikið væri nú notalegra að skrá lögheimili móður í viðkomandi skýrslu en það hvort barnið hefði fæðst á þessu eða hinu sjúkrahúsinu.
    Einmitt út frá þessum orðum ráðherra, að við þyrftum kannski að líta víðar en beint til þeirra þátta sem tengjast ákveðið lögheimilinu, datt mér í hug að koma hér upp og benda á þennan sérstaka þátt.