Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Hann er ekki langur sá lagatexti sem hér er lagt fyrir deildina að samþykkja, en hann er framhald af ákvörðun um það að Alþingi Íslendinga setji í lög ákvæði sem brjóta Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, brjóta stjórnarskrá landsins og eru brot á almennum mannréttindum. Ég veit að það er ekki auðvelt að útskýra það fyrir þingheimi að svo einfaldur lagatexti eins og hér er á ferðinni sé brot á þessu öllu, en ég vil þó reyna að gera það og vil byrja, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það upp sem hér er lagt til að leyft verði:
    ,,Í þeim tilvikum, þar sem Hollustuvernd ríkisins fer með beint eftirlit samkvæmt lögunum, sbr. 2. tölul. 17. gr., til eða samkvæmt ákvörðun ráðherra, sbr. 4. tölul. 13. gr., getur stofnunin beitt sama valdi og sömu þvingunarúrræðum og heilbrigðisnefndir skv. 27. gr.``
    Þetta er heimildin til þess að mega skjóta án dóms. Þetta er heimildin um að mega skjóta án dóms. Hvað, munu menn spyrja. Skepnur ef því væri að skipta. Trúlega telst ekki heimild til að taka hættulegan smitbera af lífi þó að það sé ekkert í lögunum sem banni það samkvæmt uppsetningunni.
    En hvað segir Mannréttindastofnskrá Sameinuðu þjóðanna um það hvort menn eigi rétt á því að fyrst sé dæmt og svo sé dómi fullnægt? Eða eiga þeir að búa við það ástand eins og er á Íslandi í þessum efnum að fyrst sé aðför gerð og dómi fullnægt, svo megi þeir fara af stað á eftir? Hér stendur í 11. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna:
    ,,Hvern þann mann sem borinn er sökum fyrir refsivert athæfi skal telja saklausan uns sök hans er sönnuð lögfullri sönnun fyrir opinberum dómstóli, enda hafi tryggilega verið búið um vörn sakbornings.
    Engan skal telja sekan til refsingar nema verknaður sá eða aðgerðarleysi sem hann er borinn varði refsingu að landslögum eða þjóðarrétti á þeim tíma er máli skiptir. Eigi má heldur dæma hann til þyngri refsingar en þeirrar sem að lögum var leyfð þegar verknaðurinn var framinn.``
    Hvað segir íslenska stjórnarskráin um eignarréttinn? 67. gr. íslensku stjórnarskrárinnar segir eftirfarandi um eignarréttinn: ,,Eignarrétturinn er friðhelgur.`` --- Það verður fróðlegt að sjá hvernig sjálfstæðismenn greiða atkvæði í deildinni um þetta mál, flokkurinn sem hefur prédikað ár eftir ár að friðhelgi eignarréttarins sé þeim heilagur, heilagri en allt annað. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir greiða atkvæði. --- ,,Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.``
    Samkvæmt því sem heilbrrh. er að leggja hér til getur fulltrúi ráðuneytisins farið af stað þar sem fiskeldisstöð starfar og lokað henni, --- lokað henni sama daginn og gefið fyrirmæli um að drepa allan fiskinn þess vegna. ( FrS: Hver flytur þetta vitlausa frv.?) Hver flytur þetta vitlausa frv., spyr sá maður sem settur var af af Sjálfstfl. vegna þess að hann var

ekki hæfur sem varaformaður flokksins og telur að það verði hlustað á hann hér í sölum þingsins á eftir. Nei, menn verða að átta sig á því að þeir þurfa örlítið betur að undirbúa sínar hugsanir áður en þeir koma þeim á framfæri en þetta.
    Mér er ljóst að það er ekki vinsælt að tala um mannréttindi á Íslandi. Spurningin er þessi: Ef ráðuneytið vill loka fiskeldisstöð norður í landi, á það fyrst að leita til dómstóla að fá heimildir til að gera það? Eða á það að hafa rétt til þess að senda menn, Gestapo-sveit, til að vinna verkið? Um þetta snýst málið. Þeir glotta sem eitt sinn voru kannski hallir undir ákveðinn stjórnmálaflokk, en ég vona nú að það sé löngu liðin tíð.
    Ég ætla að halda áfram. Það er nú einu sinni svo að Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna grípur einnig á þessu máli. Hér segir í 17. gr.:
    ,,Hverjum manni skal heimilt að eiga eignir, einum sér eða í félagi við aðra. Engan má eftir geðþótta svipta eign sinni.``
    Vilja menn að milljóna atvinnurekstur og sennilega atvinnurekstur sem á eftir að skila þessari þjóð milljörðum eigi það undir duttlungafullum og hrokafullum embættismönnum sem telja sig ekki þurfa að standa neinum skil á einu eða neinu hvort slíkur atvinnurekstur er stöðvaður með þvingunaraðgerðum eins og hér er sagt? Eða eiga þessir menn kost á mannréttindum, að fá að leita fyrir dómstól með sitt mál áður en búið er að setja allt í rúst? Auðvitað finnst fulltrúum mörgum hverjum þetta aukaatriði. Hæstv. heilbrrh. taldi það ekki þess virði í þingflokki Framsfl. að hlusta á það hvort mannréttindi ættu að vera í gildi í landinu eða ekki. En þegar hjólreiðamaður frá Akureyri fer með sitt mál til Evrópu, hvað gerist þá? Þá eru ráðherrar vors lands hræddir eins og halaklipptir hundar á flótta.
    Ég er alveg gáttaður á því að ráðherra skuli láta sér detta það í hug að halda áfram með lagasetningarákvæði sem þverbrjóta mannréttindi, eins og hér er verið að gera, sem þverbrjóta mannréttindi. Hvernig fær það staðist að atburðarásin þurfi að vera svo hröð að það sé ekki hægt að fara fram á það að Hollustuvernd ríkisins stefni viðkomandi fyrirtæki? Sýslumaður framfylgi því
eftir að dómur falli? Kannski mætti eftir slíkan dóm gera eitthvað, fremja einhverjar aðgerðir. Ég verð nú að segja eins og er að mér þætti ekki óeðlilegt þó það yrði að bíða eftir Hæstarétti þegar verið er að takast á um jafnstóra hluti og hér eru til umræðu. Og hver er ábyrgur? Það stendur hér í stjórnarskrá Íslands, í 67. gr., og ég vil aftur lesa hana, með leyfi forseta:
    ,,Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.``
    Er þessi stjórnarskrá bara rugl sem menn vilja ekkert gera með? Á að leyfa hrokagikkjum valdsins að vaða áfram og þurfa ekki að sækja mál sín fyrir dómstólum? Er það það sem menn vilja? Það er kannski rétt að hv. 2. þm. Norðurl. e. átti sig á því hvað er hér til umræðu. ( Gripið fram í: Hann hefur

ekki málfrelsi, hann er ekki í deildinni.) Það er nú náttúrlega til bóta að hann hafi ekki málfrelsi en það hefur enginn bannað honum að hlusta, það var nú það sem ég var að leiða hugann að hér, að það væri til bóta að hann fylgdist með. Hér er verið að tala um mannréttindi, grundvallarmannréttindi þar sem einkaframtak er yfir höfuð til staðar í löndum og fær að starfa. Á ríkisvaldið að þurfa þá aðstöðu að það þurfi ekki að fara með sín mál fyrir dómstóla? Um það snýst þetta mál. Orðalagið er fínt, það vantar ekki. Þetta er fallegt orðalag, með leyfi forseta: ,,getur stofnunin beitt sama valdi og sömu þvingunarúrræðum og heilbrigðisnefndir skv. 27. gr.`` --- Peningana eða lífið.
    Það er nú svo að heilbrigðisnefndir hafa þetta vald og ég hef áður vakið á því athygli að ég tel að það stangist algjörlega á við stjórnarskrá Íslands. En heilbrigðisnefndirnar starfa þó í umhverfinu þar sem á að veita aðförina og þær hafa yfir höfði sér almenningsálit svæðisins til eftirlits þannig að af tvennu illu þá veit ég að þær komast ekkert undan því að hugleiða hvað þær eru að gera. En embættismaður sendur héðan að sunnan norður í land til að loka fyrirtæki með þetta vald að vopni, hann spyr ekki um neitt, hann framkvæmir. Þar gildir nefnilega gamla reglan um eldflaugarnar. Þær eru farnar af stað, en hvar þær lenda --- það er ekki á hans verksviði.
    Og hver á að borga vitleysurnar? Hver á að borga vitleysurnar ef menn valda skaða upp á hundruð milljóna með þessu tiltæki? Á þá íslenska þjóðin að borga ef það félli dómur í Hæstarétti eftir fimm ár, á þá íslenska þjóðin að borga? Hvaða nauðsyn er á svona lagasetningu? Er einhver nauðsyn yfir höfuð sem knýr á um það að atvinnulíf í landinu sé svipt þeim rétti að mega láta dóm ganga í máli áður en aðför er gerð? Er eitthvað sem knýr á um það?
    Ég verð að segja eins og er að ég efa það að svona frv. komi fram í þingum hinnar svörtustu Afríku. Það má vel vera að í einræðisríkjum Suður-Ameríku detti mönnum í hug að koma með svona frv. inn í þingið, þar sem mannréttindi skulu fótum troðin. Frumréttur atvinnulífs í landi í samskiptum við opinbera aðila, að mega leita til dómstóla til að verja sig, er af þeim tekinn.
    Ég geri mér grein fyrir því að sumum finnst raunverulega að allt þetta vafstur hins opinbera á þann veg að það þurfi yfir höfuð að viðhafa almennar samskiptareglur í viðskiptum við þegnana, sumum finnst það vera af hinu illa, það tefji fyrir málum. Sennilega er skilningsríkasta persóna allra tíma á það hvað þetta er óþægilegt fyrir hið opinbera góði dátinn Svejk. Það var ekki til það sem hann gat ekki fyrirgefið hinu opinbera einfaldlega vegna þess að hann vissi að agi þyrfti að vera í hernum.