Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur til umræðu um breytingu á lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, hefur fengið hér í þinginu allóvenjulega umræðu. Ég vil segja að málflutningur hv. 2. þm. Vestf. vekur mikla athygli. Ég get að sumu leyti tekið undir það sem hann hefur sagt að því leyti til að mér hefur fundist að á þeim stutta tíma sem ég hef setið á þingi hafi æ ofan í æ verið lögð hér fram frv. sem skara okkar þrískiptingu valdsins sem er dómsvald, löggjafarvald og framkvæmdarvald. Það er með æ ríkari hætti verið að leggja dómsvaldið undir framkvæmdarvaldið sem stenst ekki þá meginhugsun sem felst í okkar stjórnskipun. Það verður með engu móti hægt að verja það að verið sé að leggja upp með slík mál að framkvæmdarvaldið sé orðið dómsvald og fari jafnframt með ákæruvald í málum eins og hér er. Það verður því að líta mjög náið á þetta. Ég vil segja það fyrir hönd okkar frjálslyndra hægrimanna að við viljum að það sé farið að lögum og stjórnskipun Íslands.
    Það er alveg rétt sem hefur komið hér fram að það eru margar spurningar sem vakna við þetta t.d. um skaðabótaábyrgð ríkisins. Ef ríkið lokar rekstri á fyrirtæki sem getur náttúrlega valdið bæði gjaldþroti fyrirtækisins og verulegum skaða, þá er spurning um skaðabótaábyrgð ríkisins þó auðvitað verði einnig að athuga hvort fyrirtækið sem slíkt eða þá rekstur þess geti skaðað sitt umhverfi.
    Nýlega var gefin út reglugerð um mengunarvarnir eða eins og hún heitir, mengunarvarnareglugerð. Það eru mörg ítarleg ákvæði í þeirri reglugerð um ýmsa þætti er varða mengun og er full ástæða til að það fylgi þessari umræðu hér. Það verður að segjast eins og er að í þeirri reglugerð er mjög nákvæm skilgreining á mengun og um hvernig á að fara með þá þætti. Þó er í þeirri reglugerð ekki raunverulega kveðið á um hvernig á að fara með þau mál. Það þyrfti að vera mun betur gengið frá þessum málum með þeim hætti og það væri þá sérstakur dómstóll sem fjallaði um mengunarvarnir eða með þeim hætti að hægt væri að skjóta slíkum málum með meiri hraða undir dómstóla til úrskurðar því að þetta er auðvitað töluvert mikið mál fyrir okkur, bæði mengunarvarnir sem slíkar og ýmsir þættir er varða hollustuvernd. Það er alveg ljóst að svo lítil þjóð sem við erum stendur ekki að því leyti til eins höllum fæti og margar aðrar þjóðir og það vakna spurningar um mörg ákvæði í þessari reglugerð, m.a. sem hafa verið rakin í blöðum í dag, ef ég man rétt, varðandi leyfilegt hámark mengunarefna í útblásturslofti bifreiða. Það sem deilt hefur verið á í þessari reglugerð er að farið sé eftir amerískum staðli en hefði verið betra að fara eftir evrópskum staðli.
    Það vekur líka upp spurningar í því sambandi hvort nægilega hafi verið kannað í sambandi við bifreiðar út af fyrir sig, hvort innflutningur á þeim bifreiðum sem lágtekjufólkið í landinu hefur helst notað, og þá á ég við bifreiðir eins og Lada og Skoda sem óneitanlega

hafa verið á lágu verði og góðum kjörum, hvort í framtíðinni verður ekki hægt að kaupa þær, sem þýðir þá verulega útgjaldahækkun hjá því fólki sem hefur minnst umleikis. Ég held að þetta mál hafi ekki verið raunverulega skoðað frá því sjónarmiði. Einnig skulum við líta á það að viðskipti okkar við Sovétríkin fram að þessu hafa verið okkur mjög hagstæð. Við höfum getað selt vörur þangað, t.d. saltsíldina sem við höfum ekki átt möguleika á að selja neitt annað, m.a. út á gagnkvæm viðskipti. Við hljótum náttúrlega að líta á þessi atriði, ekki bara út frá einni reglugerð um að laga mengun, sem ég er auðvitað mjög hlynntur, en ég held að það verði að horfa á svona í mjög víðtæku samhengi, okkar efnahagsmál hljóti að skoðast í þessu tilfelli og hvað er að gerast í þessum málum í heild.
    Ég vil að lokum bara ítreka að það hlýtur að vera krafa okkar þingmanna að frv. til laga feli það ekki í sér að dómsvald sé sett undir framkvæmdarvald sem sé jafnframt ákæruvald í þeim málum. Það sé alveg skýrt og skorinort að dómsmál eigi að heyra undir dómstóla en ekki undir framkvæmdarvaldið.