Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Flm. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Því miður eru ekki hér viðstaddir þeir hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh. Mér er hins vegar kunnugt um að hæstv. fjmrh. getur ekki verið við þessa umræðu hér í dag og vænti þess að umræðunni verði ekki lokið þannig að hann fái tækifæri til þess, og þá auðvitað hæstv. viðskrh. jafnframt, að taka til máls um þetta mál sem hér er til umræðu á næsta fundi deildarinnar sem verður í næstu viku. Ég mun haga mínum málflutningi þannig að rökstyðja tvö frv. sem hér eru á dagskrá í dag, annars vegar 95. mál og hins vegar 96. mál. Þau eru samofin og get ég þá verið ákaflega stuttorður um seinna málið þegar það kemur á dagskrá.
    Hér er til umræðu frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Flm. þessa frv. eru allir þm. Sjálfstfl. í neðri deild.
    Megintilgangur þessa frv. og hins sem er þessu tengt er í fyrsta lagi að auka svigrúm fyrirtækja til að afla eigin fjár og varðveita eigið fé. Í öðru lagi að hvetja einstaklinga og lögaðila til þátttöku í atvinnurekstri og í þriðja lagi að örva viðskipti með hlutabréf og koma á fót virkum hlutabréfamarkaði.
    Þessi frv. eru hluti af samþykkt þingflokks Sjálfstfl. frá því í ágúst sl.
en landsfundur flokksins, sem fjallaði um þessi efni ásamt öðrum málefnum, var haldinn í byrjun október og tók undir þessar tillögur í ályktunum sem samþykktar voru á landsfundinum.
    Í yfirlýsingu þingflokks og landsfundar um þau atriði sem ég nefndi er m.a. minnt á eftirtalin atriði:
    1. Að Seðlabanki skrái grunngengi, verð geti hækkað innan vissra marka en meginhlutverk bankans verði að jafna skammtímasveiflur og sjá um að jafnvægi ríki í viðskiptum við útlönd.
    2. Bankar og sparisjóðir geti verslað með erlendan gjaldeyri og tekið erlend lán.
    3. Stefnt er að því, samkvæmt yfirlýsingu þingflokks Sjálfstfl., að gjaldeyrisviðskipti verði frjáls fyrir 1. jan. 1992. Þetta gerist í áföngum þannig að Íslendingar verði gjaldgengir í samstarfi EFTA- og EB-þjóðanna. Slíkt ætti að jafna samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á fjármagnsmarkaði.
    4. Sjálfstfl. vill auðvelda eiginfjármyndun í atvinnulífinu. Að því er stefnt m.a. með þeim frv. sem hér eru til umræðu.
    5. Millifærslusjóðir verði afnumdir --- hér er að sjálfsögðu átt við Atvinnutryggingarsjóð og Hlutafjársjóð --- en í staðinn komi almenn skilyrði fyrir atvinnulífið. Byggðastofnun yfirtaki skuldbindingar sjóðanna og hlutabréf Byggðastofnunar verði til sölu á almennum markaði.
    6. Í yfirlýsingu þingflokksins er því lýst yfir að sveiflujöfnunarsjóður í fyrirtækjum komi í stað núverandi verðjöfnunarsjóðakerfis. Ekki verði lengur hægt að millifæra í gegnum sjóðina til að falsa gengi íslensku krónunnar eins og hæstv. ríkisstjórn hefur verið staðin að.

    7. Þingflokkurinn hefur samþykkt að fiskverð verði á ábyrgð sjávarútvegsins þannig að fulltrúi ríkisstjórnarinnar verði ekki lengur oddamaður.
    8. Það er skoðun þingflokksins að fjárlög eigi að setja fram sem rammafjárlög.
    9. Skertar verði heimildir til aukafjárveitinga, en hvort tveggja kom fram í frv. sem einstakir sjálfstæðisþingmenn fluttu á síðasta þingi.
10. Gert er ráð fyrir því í yfirlýsingu þingflokksins að ríkisbankarnir verði gerðir að hlutafélögum og þeir seldir í áföngum.
11. Virðisaukaskattur verði í tveimur þrepum.
12. Ríkisábyrgð fjárfestingarlánasjóða verði afnumin og starfsemi þeirra gerð sjálfstæðari.
    Þetta eru í stuttu máli þær tillögur sem samþykktar voru af hálfu þingflokksins sl. sumar og það mál sem hér er til umræðu er eitt þessara atriða og önnur frv. hafa komið fram og munu koma fram á næstu vikum.
    Ástæðan fyrir þeim tillöguflutningi, sem kemur fram í þessu frv. sem hér er til umræðu, er annars vegar ástandið í þjóðfélaginu en það er afar slæmt vegna ýmissa ytri og innri skilyrða og hins vegar stjórnarstefnan sem hefur verið atvinnulífinu fjandsamleg.
    Ef við lítum fyrst á ástandið í þjóðfélaginu má lýsa því m.a. með eftirfarandi hætti:
    1. Halli hefur verið á rekstri fyrirtækja, einkum og sér í lagi þeirra sem stunda útflutning, en í seinni tíð líka þeirra sem eru í þjónustu og verslun. Þessi hallarekstur, sem er áframhaldandi, hefur aukið skuldabyrði fyrirtækjanna og aukið fjármagnskostnaðinn.
    2. Það er staðreynd að viðskiptahallinn á yfirstandandi ári mun verða um 9 milljarðar króna eða u.þ.b. 3% af vergri landsframleiðlsu og er það talandi tákn um ranga gengisskráningu.
    3. Gert er ráð fyrir því að í ár verði halli á ríkissjóði um 5 milljarðar
kr. þrátt fyrir verulegar skattahækkanir sem munu hafa numið um 7 milljörðum þegar þær voru samþykktar í desember í fyrra og gengu í gildi á yfirstandandi ári.
    Þannig hafa ríkisútgjöldin orðið mun meiri en ætlað var og stefna í 29% af vergri landsframleiðslu sem er nýtt útgjaldamet á Íslandi. Ríkið fjármagnar síðan þann mun sem kemur fram á niðurstöðum rekstrarreiknings ríkisins með því að keppa við aðra aðila á lánsfjármarkaðinum. Slíkt veldur að sjálfsögðu vaxtahækkunum þvert á það sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir að hún stefni að.
    Ef við lítum til stjórnarstefnunnar þá má í fyrsta lagi benda á þær stórfelldu skattahækkanir sem ríkisstjórnin hefur staðið að. Í öðru lagi þær skuldbreytingar sem valda áframhaldandi skuldasöfnun fyrirtækja vegna hallareksturs, þar sem fyrirtækin skortir rekstrarskilyrði. Dæmi um þetta eru Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina og Hlutafjársjóðurinn sem í raun eru ekki til annars en að breyta skuldum fyrirtækjanna en ekki er reynt að komast fyrir rætur vandans. Þetta eru slíkir sjóðir, stofnun þeirra er dæmi um sértækar aðgerðir sem

mismuna fyrirtækjum.
    Þá má benda á millifærslur þær sem gerðar hafa verið með því að færa peninga í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins með niðurgreiðslu rafmagnsverðs til sjávarútvegs og endurgreiðslu söluskatts umfram sannanlega uppsöfnun. Þetta er að sjálfsögðu gengisfölsun og hefur valdið verulegum erfiðleikum í öðrum greinum sem ekki njóta þessara millifærslna.
    Loks er það svo að þrátt fyrir að gengisbreytingar hafa verið tíðar hjá núv. hæstv. ríkisstjórn hafa þær verið of litlar og komið of seint.
    Þetta hefur allt þýtt að eigið fé fyrirtækjanna hefur eyðst og viðnámsþrek þeirra dvínað. Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina hefur sett fyrirtæki í spennitreyju og Hlutafjársjóður Byggðastofnunar hefur eignast hlutafé í fyrirtækjunum. Með þessum aðgerðum hafa pólitísk afskipti af atvinnulífinu aukist og vextir fjárfestingarsjóða hafa hækkað vegna þess að þeir eru nú skyldugir til þess að leggja fram fjármagn án þess að fá vexti af því, þegar um er að ræða fyrirtæki sem hafa lent í vandræðum. Það framkallar vaxtahækkun fyrir önnur fyrirtæki sem standa í skilum eins og dæmin sanna og samþykktir, til að mynda Fiskveiðasjóðs.
    Áframhaldandi halli í fyrirtækjarekstri kallar án efa á nýja blóðgjöf innan tíðar og þannig hefur myndast vítahringur sem erfitt er að komast út úr.
    Þetta hefur haft sálræn áhrif á stjórnendur sem eiga allt sitt undir stjórnvöldum og góðvild þeirra. Rekstrarábyrgð stjórnenda hefur auðvitað slævst af þessum ástæðum. Það er beðið eftir því að stóri bróðir komi til hjálpar, ef hann hefur þá velþóknun á viðkomandi fyrirtæki. Þetta eru allt skref til þjóðnýtingar eins og þekkist víða þegar um slík skilyrði er að ræða.
    Frv. sem hér eru til umræðu eru liður í þeirri viðleitni að snúa þessari þróun við. --- Og áður en ég held lengra, virðulegur forseti, þykir mér rétt að benda á, sem er æðiathyglivert, að fyrir utan hæstv. forseta er enginn stjórnarsinni hér í þingsalnum til þess að hlusta nema Guðmundur G. Þórarinsson, hv. 10. þm. Reykv., sem ég veit að er í hjarta sínu fyllilega sammála þessum tillögum og mun ég víkja að hans þætti síðar. --- Býð ég nú hæstv. forseta Sþ. velkominn í þingsalinn. ( Forseti: Ég þakka þm. fyrir.)
    Það eru ýmis atriði sem skipta máli fyrir atvinnulífið önnur en þau sem koma fram í þessu frv.
    Í fyrsta lagi langar mig til að benda á, sem augljóst er, að markaðsbúskapur á sem flestum sviðum tryggir bestu lífskjör. Þetta gildir að sjálfsögðu einnig í landbúnaði og sjávarútvegi. Frjáls fjármagnsmarkaður, sem margir hafa bölvað hér í þessum þingsal, tryggir jafnvægi og þar með jafnan aðgang að fjármagni. Það er undirstöðuatriði að menn átti sig á þesu.
    Í öðru lagi hlýtur efnahagslegt jafnvægi að vera mikilvægt markmið. Ég bendi á að verðbólgan hefur að undanförnu tekið fjörkipp. Í stað 13--14% verðbólgu, sem spáð var í ár, er nú gert ráð fyrir því að verðbólgan verði a.m.k. 23%, mæld frá upphafi til

loka árs. Það, að engar áætlanir standast vegna ójafnvægis í efnahagsmálum þjóðarinnar, veldur öllum vandræðum og sóar kröftum, bæði fyrirtækja og einstaklinga.
    Í þriðja lagi þarf að jafna starfsskilyrði atvinnugreina. Samræma þarf skatta á atvinnugreinar. Skattar þurfa að miðast við afkomu en ekki veltu og koma þarf í veg fyrir gengisfölsun með sértækum aðgerðum, þar á meðal á sviði skattlagningar.
    Í fjórða lagi þarf að jafna sveiflur í atvinnulífinu með því að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið, til að mynda með því að virkja orkulindir landsins. Einnig er nauðsynlegt að jafna sveiflur með aðgerðum innan fyrirtækjanna.
    Í fimmta lagi þarf að örva samstarf við erlenda aðila. Erlent áhættufjármagn þarf að koma hingað og íslensk fyrirtæki þurfa að geta tekið þátt í rekstri og eignast hluta í fyrirtækjum erlendis. Þá þarf að koma á fyrirtækjaneti í ýmsum greinum hér á landi og jafnvel í samstarfi við erlenda aðila. Þetta eru aðferðir í atvinnurekstri sem nútíminn kallar á.
    Mig langar til þess, virðulegur forseti, að vitna hér stuttlega í grein sem
Þorkell Sigurlaugsson skrifaði í Stefni nýlega og varðar efni þess frv. sem hér er til umræðu. --- Hef ég þá lesturinn:
    ,,Þótt hlutafélagalöggjöfin hafi tekið nokkrum breytingum í tímanna rás, þá er hún enn ófullkomin miðað við það sem gerist erlendis, og má eflaust að hluta til skýra það með almennu áhugaleysi almennings á hlutafjáreign og áhugaleysi stjórnvalda að beina fjármunum, svo sem sparifé landsmanna og sjóða, beint inn í atvinnufyrirtækin. Bankastofnunum og sjóðum hefur verið falið það hlutverk að fjármagna atvinnureksturinn að miklu leyti.
    Það fyrirkomulag hefur ríkt hér á landi að bankar og verðbréfafyrirtæki hafa verið notuð sem milliliður til að fjármagna atvinnureksturinn. Almenningur og sjóðir, svo sem lífeyrissjóðir, hafa lagt fjármuni sína í áhættulítil verðbréf og inn á reikninga bankastofnana gegn ávöxtun í formi vaxta og verðbóta. Einnig hafa lífeyrissjóðir fengið það hlutverk að fjármagna húsbyggingar einstaklinga. Bankar og stofnanir hafa síðan lánað atvinnulífinu fjármagn á hærri vöxtum, yfirleitt án þess að taka verulega áhættu. Þetta hefur ýmsa ókosti í för með sér. Í fyrsta lagi hafa bankar ekki sama áhuga og einstaklingar að setja sig inn í og meta arðsemi þeirrar fjárfestingar sem ráðist er í. Ef veð eru til staðar er það yfirleitt látið duga. Í öðru lagi verða mörg fyrirtæki vegna þessa munaðarlaus, ef svo má segja. Fjármögnunin er að miklu leyti í formi lánsfjár og eigendurnir hafa tiltölulega litlu að tapa og að sama skapi til lítils að vinna. Þeir eru launþegar eigin fyrirtækja. Ef vel gengur fer mikið af afrakstrinum til lánardrottna, svo sem banka, og síðan til sparifjáreigenda eða til ríkisins í formi skatta. Ef illa gengur þá tapa bankar og þar með sparifjáreigendur og þjóðfélagið í heild, því stærstu lánastofnanirnar hafa verið ríkisreknar.
    Ein skýring þessa fyrirkomulags er sú að

hlutabréfaeign hefur ekki verið álitlegur valkostur fyrir almenning eða fyrirtæki frá arðsemissjónarmiði. Annars vegar hafa mörg fyrirtæki vanrækt eigendur sína með því að láta þá ekki njóta góðs af árangri fyrirtækisins og hins vegar hefur hlutafé ekki notið jafnræðis í skattheimtu eins og önnur sparnaðarform. Auk þess sem fyrirtæki þarf að greiða tekjuskatt ef hagnaður er af rekstrinum, þá þurfa eigendur einnig að greiða skatt, ef arðgreiðslur hafa numið meira en 10% af nafnverði bréfa. Auk þess hafa hlutabréf verið eignarskattsskyld. Verulegs ruglings og misréttis hefur einnig gætt eftir því hvort hlutafélag gefur reglulega út jöfnunarhlutabréf eða hvort nafnverð bréfa er látið halda sér þótt eigin fé fyrirtækisins hafi aukist verulega.
    Áhugi á hlutabréfaeign hefur því yfirleitt tengst valdasjónarmiðum, hugsjón eða málefnalegum áhuga þeirra sem leggja fram hlutaféð, eða þá að hluthafarnir eru að skapa sjálfum sér atvinnutækifæri. Upplýsingaskylda fyrirtækja við eigendur sína er oft vanrækt og hluthafar hafa fárra kosta völ. Hluthafar í mörgum fyrirtækjum hafa ekki einu sinni getað selt sín hlutabréf á markaði ef þeir telja fjármunum sínum betur varið annars staðar.
    Hlutafé er skuld fyrirtækisins við eigendur sína og gera þarf þá kröfu að þeir njóti eðlilegrar ávöxtunar. Hlutabréfakaup verða að vera áhugaverð sem fjárfestingarvalkostur en ekki eingöngu til að kaupa völd og áhrif. Þess vegna þurfa fyrirtæki að íhuga það að fara nýjar leiðir, t.d. með því að gefa út fleiri flokka bréfa, jafnvel bréf sem hafa ekki atkvæðavægi á aðalfundi. Hlutabréfakaup eiga ekki endilega að kalla á völd.
    Vandi atvinnulífsins felst oft í því að eigið fé skortir í fyrirtækinu á meðan fjármunirnir eru bundnir í sjóðum, bönkum og fasteignum, t.d. íbúðarhúsnæði. Fjármagnið leitar að sjálfsögðu þangað sem öryggið, arðsemin og skattafríðindin eru mest. Því miður hefur það verið að takmörkuðu leyti áhugavert að leggja fjármunina í atvinnurekstur. Það hefur síðan aukið á vandann að stór hluti atvinnurekstursins í landinu hefur verið í höndum samvinnufélaga sem hafa takmarkaða möguleika á því að afla aukins eigin fjár og hefur hann því verið ofurseldur lánsfjármarkaðnum. Þegar lánsfjármarkaðurinn lánar ekki lengur fé á niðurgreiddum vöxtum lendir slíkur rekstur í erfiðleikum. [Eins og dæmin sanna.]
    Það er afar mikilvægt að bregðast við þessum vanda með því að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækjanna í landinu og með því að gera það áhugavert að kaupa hlutafé í fyrirtækjum. Þetta fjármagn þarf að koma frá almenningi, lífeyrissjóðum og öðrum sjóðum landsmanna, svo og frá fyrirtækjunum sjálfum. Einnig þarf að gera erlendum aðilum mögulegt og áhugavert að fjárfesta hér á landi. Slíkt er mun jákvæðara en að auka erlendar lántökur til að fjármagna atvinnureksturinn í landinu. Um þetta þarf að setja reglur, því eignarhald á atvinnulífi landsmanna má ekki flytjast í stórum stíl úr landi. Á sama hátt þarf almenningur, sjóðir og fyrirtæki að geta fjárfest

erlendis, til að draga úr áhættu og þeim sveiflum sem eru í okkar atvinnulífi. Frjáls flutningur fjármagns til og frá landinu á ekkert skylt við sjálfstæði og sjálfsforræði þjóðarinnar. Stærsta ógnun við sjálfstæði og afkomu þjóðarinnar er þegar atvinnureksturinn gengur ekki og fólk flytur úr landinu í stórum stíl. Fyrsta skrefið er það þegar almennt verkafólk flýr land. Þá er þess skammt að bíða að
menntafólk og atvinnurekendur hverfa úr landi. Ef undirstöðuatvinnuvegirnir ganga ekki, þá verður ekkert eftir til að halda uppi því velferðarkerfi sem við höfum búið við. Aukin skattheimta ríkisins mun þar engu breyta. Ríkissjóður og fjármálastofnanir munu þá aðeins sitja uppi með allar eignir landsmanna að lokum.``
    Hér hef ég lesið úr grein eftir Þorkel Sigurlaugsson sem starfar við eitt af stóru hlutafélögunum hér á landi og horfir á þessi mál frá sjónarhóli þess manns sem starfar úti í atvinnulífinu.
    Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á fjármagnsmarkaðinum. Stærsta breytingin var gerð þegar ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. undir forsæti Steingríms Hermannssonar fékk lánastofnunum og öðrum aðilum, sem stunda fjármagnsviðskipti, frelsi til að ákveða vexti með tilliti til markaðsaðstæðna. Þessi breyting dró úr hólfaskiptingu á fjármagnsmarkaði, samræmdi vexti verulega og svokallað okur, eins og það var skilgreint í íslenskum lögum, hvarf að mestu. Þessu til viðbótar hafa verið sett lög um verðbréfaviðskipti og kaupleigu. Þrátt fyrir nokkra galla á lögunum tryggja þau starfsgrundvöll verðbréfafyrirtækja og kaupleigufyrirtækja. Því miður hefur borið á því á undanförnum mánuðum að sumir æðstu menn þjóðarinnar hafa viljað grípa til handaflsins til að lækka vexti án tillits til markaðsaðstæðna. Sem betur fer hefur slíkum glímuköppum verið haldið í skefjum. Færi reyndar betur á því að þeir notuðu kraftana til að taka ný skref í átt til frelsis á fjármagnsmarkaði. Liggur þá beint við að örva viðskipti á hlutabréfamarkaði og efla þannig eiginfjármyndun í atvinnurekstri.
    Á undanförnum missirum hefur eiginfjárhlutfall íslenskra fyrirtækja farið lækkandi vegna hallareksturs og er eiginfjárstaða margra þeirra orðin mjög veik. Þegar vextir voru neikvæðir átti sér stað gífurleg fjármagnstilfærsla frá sparendum til lántakenda. Þau fyrirtæki sem aðgang höfðu að lánsfé nutu þeirra fríðinda að komast yfir fjármagn og greiða það að litlum hluta aftur. Sparifjáreigendur lögðu þannig atvinnulífinu til fjármagn án þess að því fylgdi eignarréttur eða áhrif í fyrirtækjum. Leitt hefur verið getum að því að á árunum 1980--1983 hafi árlegur verðbólgugróði, eingöngu af afurðalánum, verið a.m.k. 2,5 milljarðar á núverandi verðlagi. Er þá ekki tekið tillit til annarra lána. Slíkum fjármagnstilfærslum lauk með verðtryggingu lána og lántakendur urðu að greiða arð af lánsfé. Spurningar dagsins eru því: Hvernig má fá sparendur til að leggja fram fé í fyrirtæki og taka þannig þátt í atvinnurekstrinum með þeirri áhættu og ágóðavon sem því fylgir? Hvað þarf að

gera til að efla skilning fyrirtækja á að afla framtaksfjár með framlagi nýrra hluthafa?
    Með lögunum nr. 9 frá 1984, um fjárfestingar í atvinnulífinu, var skattfrádráttur heimilaður að ákveðnu marki vegna kaupa á hlutabréfum með þeim skilyrðum að hluthafar séu a.m.k. 50, hlutafé sé yfir tilteknum mörkum, engar hömlur séu á viðskiptum með hlutabréf fyrirtækisins og ársreikningur þess sé öllum aðgengilegur. Fjöldi framteljenda sem nýttu sér þessa heimild árið 1984 var 936. Þeir voru álíka margir 1985, fjölgaði talsvert 1986 en fækkaði 1987 sem var skattlausa árið, en 1988 fjölgaði þeim enn og voru þeir þá 1316.
    Verðbréfaþing Íslands var stofnað 1985 og fyrstu viðskipti fóru fram á þinginu árið eftir. Ekkert hlutafélag hefur skráð bréf sín til sölu á þinginu þótt þrjú fjármálafyrirtæki skrái verð hlutabréfa í um það bil 10 hlutafélögum. Ástæðan er sú að mati forstöðumanna verðbréfaþingsins að skráningu fylgir veruleg upplýsingaskylda. Í samþykktum margra félaga eru ákvæði sem takmarka rétt hluthafa til að selja bréf sín og í flestum tilvikum þyrfti að greiða hærri eignarskatt af skráðum bréfum í þinginu vegna 74. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, en það er einmitt sú grein sem er ein þeirra sem við leggjum til að breytt verði.
    Á fyrri hluta sl. árs var gefin út skýrsla um þróun hlutabréfamarkaðar á Íslandi. Skýrslan var unnin af Enskilda Securities að tilhlutan Seðlabanka Íslands og Iðnþróunarsjóðs. Skýrslan markaði tímamót í umræðum um hlutabréfamarkað. Í henni er að finna tillögur um aðgerðir til að örva hlutabréfaviðskipti. Með tilkomu skýrslunnar er ekki lengur hægt fyrir stjórnvöld að skjóta sér undan því að hefjast handa ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Enn sem komið er hefur núv. ríkisstjórn enga tilburði sýnt til að örva hlutabréfamarkað og beina sparnaði að hlutabréfaeign almennings í fyrirtækjum. Þvert á móti hefur ríkisstjórnin stofnað hlutabréfasjóð Byggðastofnunar sem breytir skuldum fyrirtækja við sjóði og banka í hlutafé, enda kaupi þeir hlutdeildarskírteini í Hlutafjársjóðnum fyrir sömu upphæð. Ríkið ber síðan ábyrgð á hlutdeildarskírteinunum og tryggir endurgreislu þeirra eftir ákveðinn tíma. Stefna hæstv. ríkisstjórnar hefur því miður einkennst af millifærslum, erlendum lántökum og skuldbreytingum fyrir valin fyrirtæki í stað þess að hækka eiginfjárhlutfall þeirra og sjá þeim fyrir eðlilegum rekstrarskilyrðum. Nær hefði verið að lána einstaklingum fjármuni með viðunandi tryggingu til að kaupa hlutabréf í viðkomandi fyrirtæki.
    Virðulegur forseti. Á sl. þingi fluttu nokkrir þingmenn Sjálfstfl. í Nd.
þáltill. og tvö lagafrumvörp sem varða hlutabréf og viðskipti með þau. Þáltill. var svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera tillögur um ráðstafanir til að örva viðskipti á hlutabréfamarkaði hér á landi. Tillögurnar verði tilbúnar fyrir næsta reglulegt Alþingi.``

    Lagafrumvörpin voru efnislega á þá leið sem um getur í því frv. sem hér er til umræðu og því sem er næst á dagskrá. Þess ber að geta jafnframt að hv. 10. þm. Reykv. Guðmundur G. Þórarinsson flutti á síðasta þingi frv. um að lækka stimpilgjald hlutabréfa úr 2% í 1 / 2 %. Hann hefur endurflutt þetta frv. á yfirstandandi þingi. Málið er í nefnd. Þingmenn Sjálfstfl. hafa lýst yfir stuðningi við frv. hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar og vænta að sjálfsögðu að hv. þm. gjaldi í sömu mynt þegar um þær tillögur er að ræða sem um getur í frv. sem hér er til umræðu.
    Markmið með auknum hlutabréfaviðskiptum er auðvitað í fyrsta lagi að auka eiginfjármyndun og láta eigið fé koma í stað lánsfjár. Það er athyglisvert að á undanförnum áratug hefur eiginfjárhlutfall í iðnfyrirtækjum t.d. dregist verulega saman.
    Í öðru lagi yrði það mjög mikilvægt tæki til þess að dreifa efnahagslegu valdi í hendur sem flestra, ef slíkur markaður væri starfandi.
    Í þriðja lagi yrðu hluthafar fleiri og slíkt skapar almennari og betri skilning á atvinnurekstri og dregur úr árekstrum og tortryggni á milli atvinnurekenda og launþega.
    Í fjórða lagi yrði gengisskráning á markaðsverði bréfanna mikið aðhald fyrir stjórnendur því að slíkt er mælistika á árangur fyrirtækjanna.
    Hlutabréfin eru í fimmta lagi nýr sparnaðarkostur. Aukin hlutabréfakaup gætu aukið heildarsparnaðinn. Sums staðar er talið að hlutabréf séu líklega um fjórðungur af heildarsparnaði.
    Í sjötta lagi vil ég benda á að virkur hlutabréfamarkaður er ein af aðalforsendum einkavæðingar, sérstaklega ef slík fyrirtæki eiga að seljast á almennum markaði en ekki launþegum eða einstökum starfandi fyrirtækjum. Í sjöunda lagi mundu frjáls hlutabréfaviðskipti ýta undir sameiningu fyrirtækja, stækka einingarnar og væntanlega auka samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja en slíkt er bráðnauðsynlegt þegar tillit er tekið til þess að á næstunni má gera ráð fyrir auknu fjármagnsflæði á milli landa í kjölfar þess frelsis sem búast má við árið 1992 og árin á eftir þegar Evrópubandalagið verður eitt markaðssvæði. Á þessu hafa aðrar Norðurlandaþjóðir mikinn skilning.
    Það er ástæðulaust fyrir mig að rekja hér ítarlega einstakar greinar úr tillögum Enskilda Securities. Þær liggja fyrir í aðgengilegu formi. Þó vil ég geta um eitt atriði sérstaklega og það snertir lífeyrissjóðina, en á það er bent í skýrslunni að lífeyrissjóðirnir ráði yfir u.þ.b. 50% af því fé sem fyrir hendi er til fjárfestingar í verðbréfum á Íslandi. Minnt er á í skýrslunni að fyrir liggja tilbúin frumvarpsdrög um lífeyrissjóði og í þeim frumvarpsdrögum er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðum sé heimilt að fjárfesta allt að 5% af árlegu greiðsluflæði sínu í hlutabréfum. Þetta gæti þýtt að verulegar fjárhæðir gætu gengið til hlutabréfakaupa til að styrkja og efla atvinnulífið hér á landi. Væri slík heimild að fullu nýtt gæti það þýtt þreföldun á því fjármagni sem gengur til hlutabréfakaupa miðað við núverandi umfang

markaðarins. Í lok I. kafla skýrslunnar segir m.a. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við teljum að brýnasta verkefnið á íslenska hlutabréfamarkaðinum sé að hvetja til aukinnar eftirspurnar. Tvö mikilvægustu atriðin í þessu sambandi eru annars vegar hin skattalega meðferð hlutabréfa og hins vegar afstaða lífeyrissjóða til fjárfestingar í hlutabréfum.``
    Það er einmitt þetta, virðulegur forseti, sem verið er að gera, þ.e. fyrra atriðið, með flutningi þessara frv. Snemma í ágúst sl. var sagt frá því í fréttum að viðskrn. ynni nú að því að skapa umhverfi sem gæti leitt til þess að virkur hlutabréfamarkaður næði að þróast. Þessi viðbrögð hæstv. viðskrh. við tillöguflutningi sjálfstæðismanna eru að sjálfsögðu gleðitíðindi. Helstu atriðin í tillögum ráðherrans eru þessi:
    Í fyrsta lagi: Eignarhlutfall hlutabréfa fái a.m.k. tímabundið hagstæðari skattameðferð en eignarhald skuldabréfa.
    Í öðru lagi: Afnumin verði skattaleg mismunun hlutabréfa og annarra sparnaðarforma. Hagnaður og tap verði talin saman og nettóútkoman myndi skattstofn.
    Í þriðja lagi --- og það er athygli vert miðað við tillöguflutning hv. 10. þm. Reykv. --- er gert ráð fyrir því í tillögum hæstv. viðskrh. að stimpilgjöld af útgáfu hlutabréfa lækki í 0,5%.
    Í fjórða lagi: Kostnaður við verðbréfakaup viðskiptavaka myndi ekki stofn til útreiknings aðstöðugjalda.
    Það vekur sérstaka athygli að hæstv. viðskrh. telur að þessar breytingar geti átt samleið með væntanlegum tillögum um skattlagningu fjármagnstekna sem nefnd skipuð af fjmrh. vinnur að. Með þessu virðist hæstv. viðskrh. ætla sér
að semja við samstarfsflokkana um stuðning við skattlagningu fjármagnstekna ef þeir styðja í staðinn tillögur um að efla hlutabréfamarkað og eiginfjármyndun í atvinnurekstri. Þetta er að mínu áliti mjög slæmt því að það liggur gífurlega mikið á því að sem allra fyrst verði leitað allra leiða til þess að auka eiginfjárhlutfall í íslenskum fyrirtækjum og bæta stöðu þeirra.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í einstakar greinar frv. Ég bendi á að í grg. eru í nokkrum liðum taldar upp helstu aðgerðirnar til umbóta í skattamálum og ég ætla aðeins að nefna örfáar þeirra.
     1. Ef frv. verður samþykkt mun söluhagnaður af hlutabréfum verða skattfrjáls eftir þriggja ára eignarhaldstíma.
     2. Tap af sölu hlutabréfa verði nú frádráttarbært frá söluhagnaði af hlutabréfum.
     3. Skattfrelsismörk arðs af hlutabréfum vegna tekjuskatts einstaklinga eru meira en tvöfölduð.
     4. Heimilt verður að miða skattfrjálsar arðgreiðslur við allt að 15% af stofni sem markast af nafnverði ásamt þeim jöfnunarhlutabréfum sem heimilt hefði verið að úthluta samkvæmt almennum verðbreytingum. Hjá fyrirtækjum verður úthlutaður arður frádráttarbær

af sama stofni.
     5. Heimildir til frádráttar frá tekjum einstaklinga vegna fjárfestingar í atvinnulífi eru hækkaðar í 500 þús. kr. fyrir hjón.
     6. Tekin er upp almenn heimild til sveiflujöfnunar í atvinnulífinu og fyrirtækjum veitt heimild til þess að geyma allt að 30% af hreinum tekjum á bundnum reikningum.
     7. Sú lækkun sem núv. ríkisstjórn gerði á fyrningarhlutföllum hjá fyrirtækjum fyrir sl. áramót er tekin aftur og atvinnulífinu gefnir á ný eðlilegir möguleikar til þess að afskrifa eignir.
     8. Fyrirtækjum verður heimilt að gjaldfæra strax kostnað lausafjár með skemmri endingartíma en þrjú ár.
     9. Heimild til varasjóðsmyndunar í fyrirtækjum með framlagi í fjárfestingarsjóð er hækkuð úr 15% í 30%.
    10. Tekjuskattshlutfall fyrirtækjanna er lækkað úr 50% í 48%.
    11. Lagaákvæðum um tekjuskatt og eignarskatt er breytt í því skyni að auðvelda viðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands.
    12. Skattfrelsismörk hlutabréfa við eignarskattsálagningu einstaklinga eru meira en tvöfölduð og verða nú 4 millj. fyrir hjón.
    13. Eignarskattar fyrirtækja eru lækkaðir og verða 0,95%.
    Virðulegur forseti. Öllum sem hugsa eitthvað um atvinnurekstur hér á landi og framtíð efnahags- og atvinnulífsins er ljóst að það er nauðsynlegt að auka eigið fé í íslenskum fyrirtækjum og styrkja þannig samkeppnishæfni þeirra. Okkur er jafnframt nauðsyn á því að haga leikreglum í efnahags- og atvinnulífinu hér á landi með sama hætti og gerist annars staðar í okkar nágranna- og viðskiptalöndum í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Sá tillöguflutningur sem hér er uppi hafður er í samræmi við þetta og við væntum þess, flm., að hæstv. ríkisstjórn sýni þessum málefnum skilning og komi til móts við þessi sjónarmið og vinni að því að hægt verði að afgreiða þessi frv. nú á yfirstandandi þingi sem allra fyrst. Að svo mæltu leyfi ég mér að mælast til þess að þetta frv. verði sent til 2. umr. og til hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar.