Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það hefði að vísu verið æskilegt að hæstv. fjmrh. væri hér viðstaddur þessa umræðu. Svo er ekki og gefst þá annað tækifæri til þess að ræða þetta þegar hann verður hér og þetta mál verður tekið upp aftur.
    Það frv. sem hér er flutt um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er flutt af hv. þm. Sjálfstfl. Ég fagna því að sjálfsögðu að frv. skuli flutt til að lagfæra þessa hluti að nokkru. Jafnframt er það ljóst að hér hafa orðið skil í stjórnmálum. Frjálslyndi hægriflokkurinn hefur lýst því yfir að hann stefni að því að fella algerlega niður eignarskatta af íbúðarhúsnæði en Sjálfstfl. lýsir því hér með yfir að hann vilji hafa eignarskatta á íbúðarhúsnæði. Þar að auki átti ég von á því að hv. þm. Sjálfstfl. flyttu jafnframt frv. um að fella niður sérstakan eignarskatt, svokallaðan þjóðarbókhlöðuskatt, af íbúðarhúsnæði. En það gera þeir ekki.
    Í umræðum um stefnuræðu forsrh. bauð ég sjálfstæðismönnum til samstarfs við Frjálslynda hægriflokkinn um þessi mál. Því hafa þeir hafnað með þessu frv. og vilja heldur róa einir á báti með þetta og færa það mál fram með þeim hætti að þeir telja að það eigi að vera skattar á íbúðarhúsnæði. Ég fagna því þó að þetta mál er komið fram en finnst vanta hér ýmislegt í þetta frv. til þess að menn sjái hvernig þessi mál hafa þróast. Það má segja að í þessu máli hafi ríkisstjórnin svindlað, gefið vitlaust og það eru margir þættir sem koma hér inn á þetta mál. Ég hefði kosið að ýmsar upplýsingar, sem ég á von á, m.a. fyrirspurnir til hæstv. hagstofuráðherra um eignarskatt á Norðurlöndum og ýmislegt fleira sem ég hef verið að reyna að viða að mér til þess að kanna þessi mál betur, væru hér komnar fram en svo er ekki. Það er því ljóst að maður hefði þá haft heldur meiri gögn hér við höndina til þess að ræða þetta
en það mun vafalaust verða svo að það á eftir að koma í ljós margt fróðlegt um þetta. Ég vil benda á í þessu sambandi að þegar verið er að tala um eignarskatta af íbúðarhúsnæði, þá er búið að greiða eignarskatta og það ekki smáupphæðir. Svokölluð fasteignagjöld eru eignarskattar. Ég held ég megi fullyrða að í flestum löndum er bara einn skattur á íbúðarhúsnæði ef um skatt er að ræða og það er sérstakur skattur, fasteignagjald sem við köllum hér, sem rennur til sveitarfélaga eða héraða í flestum tilfellum og þykir mönnum það að öllu jöfnu nægilegt. En hér er verið að leggja á einhvern hæsta eignarskatt á eigið íbúðarhúsnæði sem um getur.
    Ég vil einnig benda á í þessu frv., sem raunar hv. 1. flm. þess kom hér inn á, að það er ekki gert ráð fyrir verðbótum á skattleysismörkum þannig að í staðinn fyrir 2,5 millj. hefðu þau raunverulega átt að vera 3,6 millj. eða þar um bil. Hér er því eins og gert sé ráð fyrir því í þessum frumvarpsdrögum að eignarskattur á einstakling sé 10.500 kr. hærri en hefði verið ef slík þrep hefðu verið inni.

    Ég hef áður minnst á það hér að þessi skattur er fyrst og fremst á svæðinu hér, Stór-Reykjavíkursvæðinu eða Stór-Reykjanessvæðinu öllu heldur. Ég reiknaði út á sinni tíð mjög nákvæmlega hversu mismunandi skattlagning er eftir svæðum og á því svæði sem við búum hér eru hæstir skattar. Ég tek dæmi af íbúð eða húseign sem er 14 millj. kr. virði hér, og lækkar þetta hlutfall ofan í það að vera ekki neitt. Hér greiða hjón 121 þús. kr. en á svæðum 8 og 7, eins og ég hef skipt landinu í svæði, greiða hjón engan skatt af sömu eign. Einstaklingar bera hins vegar skatt af eign sem er með þessari upphæð allt í kringum landið, þannig að það er um verulega mismunun að ræða miðað við búsetu. Ég hef haldið því fram að húsnæði ætti ekki að skattleggjast með eignarsköttum af þeirri einföldu ástæðu að menn keyptu íbúðarhúsnæði til að búa í og miðað við legu landsins og þær þarfir sem við höfum hér, þá þurfum við á stóru og góðu húsnæði að halda og það á ekki að vera grundvöllur til sérstakra skatta. Það er mikill munur á skattlagningu eftir því hvar menn búa á landinu og sú umræða hefur fengið litla umfjöllun hér í þinginu því að einhvern veginn eru menn svo blindir fyrir því að það eigi að vera mismunun eftir landshlutum í þessu. Ég vil ítreka hér enn einu sinni að það er svo mikill munur á eignarsköttum eftir búsetu að það er ekki hægt að viðurkenna slíkan mun af þm. sem eru þm. hér a.m.k. fyrir Reykjanes og Reykjavík. Það er ekki hægt að búa við það að íbúar hér greiði að stórum hluta þessa skatta en ekki fólk á öðrum svæðum.
    Ég hef núna lagt fram fsp. til hæstv. fjmrh. sem ég hef von um að hann muni svara á einhverjum næstu dögum um hvernig þessir skattar skiptast eftir kjördæmum. Ég vonast til þess að það varpi ljósi á þessa mismunun og sérstaklega þjóðarbókhlöðuskattinn, sem sjálfstæðismenn vildu leggja á til eilífðar á síðasta þingi, þá komi það nú í ljós að hann er eiginlega eingöngu greiddur á þessu svæði hér, þ.e. á Stór-Reykjanessvæðinu og það sé þá einnig ljóst að aðrir eigi ekki að leggja neitt til menningarinnar.
    Ég hef hér fyrir framan mig skattseðil frá Bandaríkjunum þar sem húseign er skattlögð fasteigna- og eignarsköttum og mér sýnist að þeir nái þar samtals af
þeirri eign 1,21%. Eignarskattur hér væri eftir því að dæma í kringum 0,70% eða 0,60% eftir því hvernig menn telja fasteignagjöldin en þau hafa nú verið lögð á hér með mismunandi hætti, þ.e. einstaka bæir leggja á 0,5%, það er hin almenna regla, aðrir minna og hinir meira. Samtals eru eignarskattar og fasteignagjöld frá þessum stað sem ég er hér með seðil frá 1,21% sem mundi nú þýða töluvert mikið frávik frá því sem hér er verið að gera. Ég fullyrði það að þessi skattur, svokallaði eignarskattur, er hvergi svo hár á íbúðarhúsnæði og hvergi með þeim hætti sem hér er. Það er áhyggjuefni ef enginn má eignast neitt, enginn má hafa neinar eignir undir höndum því að það stuðlar ekki að betra eða traustara

þjóðfélagi. Á landi eins og Íslandi, eins og ég komst hér áðan að orði, er nauðsynlegt að íbúðarhúsnæðið sé stærra en víðast hvar annars staðar og menn búi betur vegna þess að stærstan hluta ársins verða þeir að vera innan dyra á móti því sem er víða erlendis. Þar geta menn verið utan dyra og notið þess að vera úti stóran hluta ársins.
    Ég vil á þessu stigi ekki ræða frekar um þetta, en mun þegar þetta frv. kemur til umræðu hér síðar á þinginu taka frekar til máls um það og krefja þá væntanlega fjmrh. svara um það hvort hann hafi ekki í farvatninu lagfæringu á þessum sköttum og helst hvort hann vilji fella þá niður, en ég vil ítreka hér stefnu Frjálslynda hægriflokksins sem er að fella eignarskatt á íbúðarhúsnæði alveg niður.