Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Til viðbótar því sem þegar er fram komið vil ég taka fram eftirfarandi. Þegar spurt er: Hvað hyggst utanríkisviðskiptaráðherra gera í þessu máli hér eftir, þá vil ég fyrst taka fram eftirfarandi:
    Það hefur ekki slitnað upp úr þessum samningum. Staðreyndin er sú að viðskiptaaðilarnir sjálfir náðu samkomulagi um magn og verð þann 4. nóv. sl. Það bíður hins vegar enn staðfestingar ráðherra og gjaldeyrisyfirfærslu. Það er staðreynd sem fram hefur komið að sjávarútvegsráðherra treystir sér ekki til þess að láta þá staðfestingu í té, en málinu hefur verið vísað til svokallaðrar ráðherranefndar. Þannig er málið statt á þessari stundu. Þess vegna tel ég ekki tímabært að gefa út yfirlýsingu um það hér og nú að næsta skref eigi að vera það að utanríkisviðskiptaráðherra eða annar ráðherra fari til Moskvu. Ég er nýkominn frá því að hafa kvatt á minn fund sovéska sendiherrann, reyndar í þriðja sinn í þessu máli, og það er enn mat þeirra að þetta mál hafi strandað í sovéska kerfinu, en þeir lýsa enn bjartsýni sinni á það að samningurinn sjálfur verði endanlega staðfestur.
    Ef spurt er um samráð innan ríkisstjórnar, þá skal það tekið fram að það var að sjálfsögðu fullt samráð við utanrrn. af hálfu viðskrh. um samningagerðina að því er varðar olíuviðskiptin. Auðvitað er það álitamál og menn geta spurt sem svo: Ja, hefði verið skynsamlegt að draga þá samningagerð? Viðskrh. hefur fært sín rök í málinu og ég er þeim sammála. Við skulum átta okkur á því að við erum hér með langtímasamning til fimm ára. Þetta er ekki vöruskiptasamningur. Hann byggir að sjálfsögðu á forsendum olíuviðskiptanna. Af hverju eru málin erfiðari viðfangs nú en oft áður í Moskvu? Ja, allir sem til þekkja vita að Sovétríkin eiga í miklum gjaldeyriserfiðleikum. Það er ekkert launungarmál. Hefði það nú verið skynsamlegra á þessum tímapunkti og líklegt í ljósi reynslunnar frá fyrri tíð að hraða niðurstöðu í þessu máli ef Íslendingar hefðu sjálfir á þessum tímapunkti vikist undan sínum skuldbindingum um að gera olíusamninginn sem eru vissulega ein af rökum okkar fyrir því að knýja á um þetta mál? Að því hefur verið vikið, og það gerði málshefjandi sjálfur, að viðskiptajöfnuður í þessum viðskiptum sl. fjögur ár, þ.e. fyrstu fjögur ár langtímasamningsins, er Sovétmönnum hagstæður, sennilega upp á rúmlega 50 millj. dollara. Við metum að það muni stefna í um 15 millj. dollara á þessu ári.
    Eitt atriði enn. Hvort það hafi valdið samningamönnum í Moskvu erfiðleikum að ágreiningur hefur verið milli Sovétmanna og Íslendinga um túlkun á tölum að því er varðar þennan viðskiptajöfnuð? Það hefur að vísu oft verið notað sem fyrirsláttur í þessum viðræðum fyrr og var vissulega gert. En það er ekki ágreiningsefni. Það mál er leyst og hefur sjaldan gerst að þær deilur hafa verið settar niður og báðir eru sammála um það að jöfnuðurinn verði hagstæður Sovétmönnum um um það bil 15 millj. dollara á þessum tímapunkti. Ef

menn vilja í tilefni af stöðu þessara samninga gera því skóna að það hafi verið slælega unnið að því að greiða fyrir þessum samningum af hálfu íslenskra stjórnvalda, þá bið ég viðkomandi að hafa samband við viðskiptaaðilana sjálfa sem setið hafa í Moskvu að undanförnu því að það er hverju orði sannara að sennilega hefur ekki verið gert jafnmikið af því áður. Sjálfur hef ég í þrígang kvatt sovéska sendiherrann á minn fund hér í Reykjavík til þess að ræða þessi mál. Við höfum verið daglega í sambandi við sendiherra okkar í Moskvu. Við höfum haft náið og mikið samband við samninganefndarmennina sjálfa. Við höfum sent skrifleg erindi, tveir af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, til ráðherra í sovésku ríkisstjórninni. Við höfum sent formlegar nótur til bæði sjávarútvegsráðherra og svokallaðs ráðherra ytri efnahagstengsla í Sovétríkjunum um þetta mál. Allar staðreyndir liggja fyrir, allar upplýsingar liggja fyrir og öll sú
fyrirgreiðsla sem er á færi íslenskra stjórnvalda í þessu máli hefur verið veitt. Málið er í þeirri stöðu að það hefur ekki slitnað upp úr samningum. Því er enn haldið fram af hálfu stjórnvalda að beðið sé niðurstöðu ráðherranefndarinnar. Meðan það er held ég að það væri ekki skynsamlegt hér heima að við efndum að tilefnislausu til einhverrar úlfúðar um málið á heimavígstöðvum.