Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Mig langar til að biðja forseta að reyna að fá fjmrh. til að líta hér inn, hann mun hafa verið í húsinu a.m.k. áður. (Gripið fram í.) Hann var hér áðan. ( Gripið fram í: Hann er ekki í húsinu.) Er hann ekki í húsinu? Nú, við látum það duga. Aðrir ráðherrar geta kannski skilað því til hans sem ég ætla að geta um hérna.
    Ég vil rifja það upp að hinn 25. apríl sl. greindi hæstv. utanrrh. frá mjög merkilegri ferð sem hæstv. fjmrh. hafði farið til Moskvu. Hæstv. utanrrh. rekur það þar að fjmrh. hafi verið greint þar frá miklum breytingum sem væru í aðsigi í Rússlandi og þar á meðal að valdið ætti að færast frá miðstjórnarkerfinu og að því aðeins gætu lýðveldin keypt vöru að þau öfluðu sjálf tekna til þess. Síðan segir ráðherra orðrétt, með leyfi forseta: ,,Þetta þýddi að því er varðaði sjávarútveginn að þau ein fyrirtæki gætu verslað með fiskafurðir við Íslendinga sem sjálf hefðu til þess gjaldeyristekjur og þau gætu ekki aflað þeirra gjaldeyristekna nema með því að gera það í einhvers konar samstarfi við viðskiptalöndin. Þar kæmi ýmislegt til greina sem upp var talið, þar á meðal t.d. sameiginleg aðild að útgerðarfyrirtækjum [með okkur Íslendingum], sameiginlegar veiðar á vannýttum stofnum en sér í lagi væri eitt grundvallarskilyrði fyrir slíkum viðskiptum í framtíðinni og það væru veiðiheimildir innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. --- Fjmrh. gerði rækilega grein fyrir því þegar hann fylgdi skýrslu sinni úr hlaði [í ríkisstjórninni] að þetta hlyti að valda okkur verulegum áhyggjum að því er varðaði framtíð viðskipta af þessu tagi og vegna þess að það er að mínu mati svo að þótt að þessu hafi verið ýjað almennt séð með vísan til þess sem kynni að gerast í framtíðinni, þá held ég að þetta hafi verið í fyrsta sinn a.m.k. að því er ég best veit sem það var sett fram með jafnafdráttarlausum og ákveðnum hætti af jafnáhrifamiklum mönnum í sovéska stjórnkerfinu.``
    Þetta sagði hæstv. utanrrh. 25. apríl hér úr þessum ræðustól.
    Hæstv. ráðherrum hefur verið fullkunnugt um þær breytingar sem voru í aðsigi en þeir hafa ekkert aðhafst. Og þessa skýrslu hefur verið neitað að birta. Hún var að vísu send utanrmn. eftir margítrekaðar kröfur sem trúnaðarmál. Ég krefst þess að þessi skýrsla verði birt þannig að Íslendingar fái að sjá, ekki síst þeir sem sjávarútveg stunda, hvað það var sem hæstv. fjmrh. var að kokka með ráðamönnum í Moskvu. Annars vegar voru þeir að tala um veiðiheimildir rússneskra skipa innan íslenskrar lögsögu og hins vegar að þessi viðskipti gætu ekki gengið fyrir sig eins og áður væri vegna þess að þeir hefðu ekki gjaldeyri til að kaupa af okkur fisk. Það var þetta sem var verið að tala um. Ég er ekki að uppljóstra neinu leyndarmáli. Ég var að lesa upp orð hæstv. utanrrh. og ég treysti því að ráðherrarnir sjái nú um að þessi skýrsla verði birt eða okkur í utanrmn. leyft að skýra frá innihaldi hennar. ( Utanrrh.: Höfundurinn ræður því.) Höfundurinn

ræður því, ekki ríkisstjórnin? ( Forseti: Má ég biðja hæstv. ráðherra og hv. þm. að gefa hv. 1. þm. Vestf. orðið.)