Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. viðskrh. lagði fram þá spurningu hvort alþingismenn væru ekki sammála þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð í sambandi við viðskiptasamningana við Sovétríkin. Ég hlýt að segja nei. Það hefur komið fram hjá hæstv. sjútvrh. hvað þessir samningar séu mikilvægir fyrir Ísland og ef þessir samningar nást ekki nú, þá sé grundvellinum eiginlega kippt undan viðskiptum á milli þessara ríkja.
    Ég get ekki átalið það út af fyrir sig að olíusamningurinn væri gerður, en ég vil átelja það að hann skyldi hafa verið staðfestur fyrr en fyrir lá staðfesting um þann samning sem búið er að gera um síldarkaup frá Íslandi.