Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að hér hefur verið minnt á atriði sem skiptir máli í sambandi við hina afdrifaríku viðskiptasamninga sem nú er verið að gera. Venjulega ætti ekki að vera nauðsynlegt að tengja saman samninga um viðskipti með tvær ólíkar vörutegundir. Núna stendur hins vegar svo á að aðgerðir, óbeðinn erindrekstur hæstv. fjmrh. þegar hann var í erindum að sinna áhugamannasamtökum um alþjóðleg málefni í Moskvu, þá kveðst hæstv. fjmrh. hafa tekið sig til og rætt um viðskiptamál. M.a. kom þá fram það nýstárlega atriði að það þyrfti að skoða málefni eins og það að hugsanlega ættu veiðiheimildir Sovétmanna í íslenskri fiskveiðilögsögu að koma á móti viðskiptasamningum. Ég tek þess vegna eindregið undir þá kröfu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar að sú skýrsla verði birt í heild og mótmæli þeim svörum hæstv. utanrrh. að þar vísi hann aðeins til höfundar skýrslunnar, þ.e. hæstv. fjmrh. sem er víðs fjarri. Og það vekur spurningu: Var eitthvað í sambandi við þessa viðskiptasamninga sem klúðraðist í för hæstv. fjmrh.? Ég tel að þingmenn eigi rétt á því að fá svör við þessu, m.a. með því að sjá þá skýrslu sem hingað til hefur verið trúnaðarmál.