Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Stefán Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil segja það að ég hef þungar áhyggjur af því sem hér er að gerast og vil lýsa því yfir að ég tel það mjög alvarlegt mál ef ekki tekst að ganga frá síldarsamningum nú þegar. Reyndar er ekki séð að það verði hægt að bæta þann skaða sem þegar er orðinn í þeim málum.
    Ég vil einnig treysta því að í þeim viðræðum, sem í hönd fara við Sovétmenn eftir tvo daga um væntanleg olíuviðskipti, verði þeim gerð ljósleg og ákveðin grein fyrir því hvernig við lítum á þessi mál. Ég treysti því að það verði gert.
    Ég kem ekki síður hingað upp í þennan stól til þess að undirstrika það sem hv. 8. þm. Reykv. sagði hér rétt áðan. Mig fýsir að fá að sjá þetta leyniplagg sem hv. nefndarmaður utanrmn. var hér að vitna til. Það kemur flatt á mig og ég hef ekki heyrt það fyrr að Rússar séu að biðja um veiðiheimildir hér innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Ég vænti þess að okkur þingmönnum verði sýndur sá trúnaður að við fáum að líta yfir þessa skýrslu. Það er lágmarksháttvísi við okkur þingmenn.