Viðskiptasamningar við Sovétríkin
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Í þessum umræðum hafa menn spurt um skýrslu frá viðræðum hæstv. fjmrh. við ráðherra í Sovétríkjunum sem skýrt hefur verið frá og hv. utanríkisnefndarmenn hafa séð. Síðan hafa menn spurt: Var þar verið að boða miklar breytingar á viðskiptaháttum efnahagskerfis í Sovétríkjunum sem við áttum síðan að bregðast við?
    Í fyrsta lagi: Ef menn biðja um skýrsluna þá liggur það náttúrlega ljóst fyrir að ekki afhendi ég hana. Það gerir höfundurinn sjálfur. Ég hef ekki höfundarrétt á henni.
    Í annan stað: Það þarf enga skýrslu frá hæstv. fjmrh. til þess að vita af því að það eru margar breytingar boðaðar í Sovétríkjunum en það hafa engar breytingar átt sér stað að því er varðar þessi viðskipti, engar, nákvæmlega engar. Rammasamningur okkar gildir fyrir árið 1986 til ársins 1990 og löggjafaratriði um breytingar á viðskiptaháttum að því er varðar hlutverk fyrirtækja o.s.frv. hafa ekki átt sér stað. Það eru því engar breytingar sem átti að bregðast við. Hins vegar er það á vitorði manna að Sovétríkin eru í djúpstæðri efnahagskreppu. Það hefur orðið hrun í utanríkisviðskiptum og þar er gjaldeyrisskortur. Viðbrögð okkar við því voru að óska eftir að þessum viðræðum yrði hraðað. Við óskuðum alveg sérstaklega eftir því. Það gerði hæstv. sjútvrh., það hef ég gert. Því miður þá gerðist það á seinustu stundu að Sovétmenn óskuðu eftir frestun frá fyrr boðuðu upphafi viðræðna sem áttu að vera í september, og það þarf tvo til. Þetta er því allt saman á miklum misskilningi byggt.
    Menn skulu athuga það að við erum hér að tala um og meta samningsstöðu úr ræðustól á Alþingi. Hver er samningsstaða okkar Íslendinga í þessum viðskiptum? Þetta eru samningar milli viðskiptaaðila og þeir fara fram á grundvelli rammasamnings en viðskiptaaðilarnir eiga að semja um verð og magn.
Rammasamningurinn kveður á um hámark og lágmark magns. Samt sem áður verður að líta á það til lengri tíma hver heildarniðurstaðan er að því er varðar viðskiptajöfnuð, en þetta eru samningar milli viðskiptaaðila um verð og magn. Og það er alveg ljóst og það er ekkert nýtt að Sovétmenn hafa kvartað yfir því að verðið sé hærra en þeir geti fengið annars staðar. Ekkert nýtt í því. Það hafa þeir sagt árum saman. Það hefur hins vegar tekist samningur sem hins vegar er enn formlega óstaðfestur, um hvort tveggja, verð og magn, samkvæmt þessum rammasamningi og samkvæmt óbreyttu kerfi. Eftir stendur það að ekki hefur tekist að fá staðfestingu þessarar ráðherranefndar sem málinu hefur verið vísað til að því er Sovétmenn segja vegna ágreinings um verð.
    Halda menn virkilega að samningsstaða okkar hafi verið betri í olíuviðskiptum, sem er eina gjaldeyrisskapandi útflutningsgrein Sovétríkjanna sem þeir geta selt hvar sem er fyrir harðan gjaldeyri, ef við hefðum sagt: Ja, af þessu tilefni, núna, þegar

málið hefur dregist svona lengi, ætlum við ekki að undirrita samningana fyrir næsta ár samkvæmt rammasamningnum. Haldið þið að gjaldeyrisskorturinn hefði batnað við það? Okkar rök eru auðvitað þau, meginrök, gagnvart annars vegar þeirra rökum um verð, að viðskiptin eru Sovétmönnum hagstæð, verða það á þessu ári og hafa verið það sl. fjögur ár, þannig að við okkur sem viðskiptaaðila er ekkert að sakast. Við borgum í hörðum gjaldeyri fyrir þessi viðskipti og höfum þannig greitt fyrir því að viðskiptin geti haldið áfram. Það er rangt sem var haldið hér fram í þessum umræðum að deilur um talnagrundvöll hafi spillt fyrir þessum samningum. Það er langt síðan að af okkar hálfu var gerð fullkomin grein fyrir því hvert hið íslenska mat á þeirri stöðu væri og það tókst í tæka tíð --- aldrei þessu vant --- að fá Sovétmenn til þess að fallast á sameiginlega niðurstöðu í því efni.
    Spurningin er að sjálfsögðu þessi, eftir að mál hafa dregist svo lengi: Hvenær telja menn rétt að gera eitthvað enn þá meira? Og menn nefna t.d. spurninguna um það að ráðherra fari af Íslands hálfu austur til Moskvu til þess að herða á þessum samningum. Það getur komið að því, þó að sú ákvörðun verði ekki tekin í ræðustól, en menn mega ekki gleyma því að hér er ekki búið að slíta samningum. Ég endurtek: Samningurinn liggur fyrir bæði um magn og verð í óbreyttu kerfi samkvæmt gildandi rammasamningi. Það eina sem eftir er er að taka pólitíska ákvörðun af hálfu nefndar ráðherra í sovésku ríkisstjórninni.
    Vel má vera að menn telji að þessi viðskipti séu þess eðlis að það sé nauðsynlegt fyrir íslenskan ráðherra að fylgja þeim eftir í ráðherraviðræðum austur í Moskvu og auðvitað verður það gert ef það er talið óumflýjanlegt. ( Gripið fram í: Þegar síldin verður farin.) En menn skulu átta sig á því að það er ekki víst í ljósi efnahagsstöðu Sovétríkjanna að það þýði samninga á borðið, ef hv. þm. er að spyrja um það, samdægurs. Það mikið, og þar vitna ég nú til reynslu manna sem hafa kynnst þessu kerfi áður, þekkja Íslendingar orðið til þess hvernig það kerfi ,,funkerar``.