Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Hér er mikilvægt mál á dagskrá sem er endurskoðun á og viðleitni til þess að móta til langs tíma stefnu okkar Íslendinga í heilbrigðismálum. Þetta er jafnframt útfærsla á þeirri stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilbrigði fyrir alla árið 2000 sem við erum aðili að. Það er því leitt til þess að vita að nú hefur þingsalurinn nærri tæmst þegar þetta mikilvæga langtímaverkefni er til umræðu. Hins vegar gneistuðu hér umræður áðan þegar verið var að ræða um að koma ákveðnu skammtímaverkefni í höfn sem eru síldarsölusamningar við Sovétríkin, vissulega brýnt og mikilvægt mál víða úti á landi. En áhuginn var meiri vegna þess að þá var um utandagskrárumræðu að ræða en ekki yfirvegun og rólegar umræður um jafnmikilvægt mál sem stefnumótun heilbrigðismála er. Við skulum ekki gleyma því að þau mál ber iðulega á góma, t.d. um daginn þegar 1. umr. fjárlaga fór fram. Hér var einnig fsp. á ferðinni vegna kostnaðar í sambandi við rekstur ríkisspítalanna um daginn og við skulum ekki gleyma því að heilbrigðisþjónustan ásamt og með tryggingakerfinu er einn viðamesti útgjaldaliður íslenskra fjárlaga svo það varðar miklu að Alþingi en ekki bara framkvæmdarvaldið hverju sinni ræði og fallist á þá stefnumótun sem við eigum að búa við til langframa í þessum málum, málum sem varða í raun líf okkar og líðan á hverjum tíma.
    Þetta mál, íslensk heilbrigðisáætlun hefur áður verið lögð fram til kynningar en er nú lögð fram endurskoðuð eftir að heilbrigðisþing hefur fjallað um málið. Áður höfðu nokkrir starfshópar unnið í málaflokknum og síðan var áætlunin endurskoðuð enn frekar í ráðuneytinu. Hér er efnislega um að ræða mál sem dugar engan veginn að taka til ítarlegrar umræðu í svo stuttum umræðutíma sem hverjum þingmanni og ráðherrum gefst hér en þyrfti ítarlegri umræðu og vonandi fer hún fram í nefndinni sem mun fjalla um þetta mál í þinginu. Ég hef engar sérstakar athugasemdir að gera efnislega við þessa áætlun hér og nú. Hins vegar skiptir auðvitað meginmáli að hún komist til framkvæmda þegar menn hafa náð um hana sáttum. Ég vil minna á að hér var til umræðu á síðasta þingi stefna í manneldismálum Íslendinga, sem flestir voru sammála um að væri hið ágætasta mál, enda var það samþykkt, en þá ber að inna eftir því hvernig gengur t.d. með verðstýringu á hollum matvælum í samræmi við þá ágætu stefnu? Hvernig gengur t.d. með ákvarðanatöku í sambandi við matarskatt eða afléttingu matarskatts af þeim tegundum matvæla sem eru hollustusamlegar? Hvaða hagsmunir og hvaða sjónarmið eru alls ráðandi þegar kemur að málum eins og verðstýringu?
    Í þessari heilbrigðisáætlun, sem er útfærð í samræmi við íslenska staðhætti og lífsvenjur, er, eins og í öðrum aðildarlöndum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, lögð megináhersla á það að einstaklingurinn verði virkari í að gæta að eigin heilsu, taki virkari þátt í forvörnum

og fyrirbyggjandi starfi. En til þess að honum sé þetta í raun kleift, bæði efnahagslega og félagslega, verða stjórnvöld að samræma aðgerðir sínar á hinum ýmsum sviðum. Því er mjög nauðsynlegt að þátttaka í umræðum og íhugun um málefni eins og þetta sé sem víðtækust. Hér er enginn fulltrúi fjmrn. t.d. sem nú er ákvarðanatökuaðili í sambandi við virðisaukaskatt sem á að setja á hér á landi um áramótin. Hvernig líður þeim málum? Hvernig gengur hæstv. heilbrrh. að reka erindi sitt í ríkisstjórninni? Hið brýna erindi sem hlýtur að vera á hans meginábyrgð, að samstilla stjórnvöld í ákvarðanatöku til þess að áætlun eins og þessi geti orðið eitthvað annað en fallegt plagg, til þess að það geti orðið stefna sem er virk í framkvæmd og ber raunverulegan árangur fyrir þegnana í landinu.
    Ég ætla ekki að fara út í ítarlegar efnislegar umræður um plaggið. Ég er í meginatriðum mjög sammála þeirri stefnu sem þar kemur fram. Það má lagfæra ýmislegt í henni og hnika til og sumt kann að vera umdeilanlegt, sérstalega hvað varðar útfærslu, en í meginatriðum hygg ég að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða sem alþingismenn almennt verða að kynna sér og íhuga og þarf að fá afgreiðslu á þessu þingi.