Tæknifrjóvganir
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir að hafa frumkvæði um þessa tillögu. Eins og fram kom í máli hennar var lögð fram tillaga á 108. löggjafarþingi sem hét ,,Till. til þál. um réttaráhrif tæknifrjóvgunar``. Flm. þeirrar till. voru sá þingmaður sem hér stendur ásamt hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, Davíð Aðalsteinssyni, Jóni Baldvini Hannibalssyni, Guðrúnu Agnarsdóttur og Stefáni Benediktssyni. Þessi tillaga, sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta, hljóðaði svo:
    ,,Alþingi ályktar að skora á dómsmrh. að skipa nú þegar fimm manna nefnd til að kanna réttaráhrif tæknifrjóvgunar og gera tillögur um hvernig réttarstaða aðila verði ákveðin.
    Nefndin verði skipuð sem hér segir: Dómsmrh. skipi formann nefndarinnar án tilnefningar. Tveir nefndarmenn skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Lögmannafélags Íslands, einn samkvæmt tilnefningu læknadeildar Háskóla Íslands, og sé hann sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp, og einn nefndarmaður samkvæmt tilnefningu Barnaverndarráðs Íslands.
    Nefndin ljúki störfum áður en næsta löggjafarþing kemur saman. Ríkissjóður greiði kostnað af störfum hennar.``
    Í grg. fyrir þessari umræddu tillögu var getið um að þegar væru 50 íslensk börn þá getin með tæknifrjóvgun og langflest með sæði óþekktra manna. Síðan hafa, eins og fram kom í ræðu hv. 18. þm. Reykv., orðið verulegar breytingar og nú stendur fyrir dyrum að svokallaðar glasafrjóvganir hefjist hér á landi.
    Eins og þingmaðurinn kom að er það ljóst að samkvæmt íslenskum lögum er eiginmaður konu faðir barns hennar nema það sé vefengt og þá hlaut sú spurning að vakna hver réttarstaða aðila væri ef til vefengingar kæmi, t.d. við skilnað hjóna eða í erfðamálum. Það var því svo sannarlega ástæða til að vekja athygli á því að réttarstaða þessara aðila er nákvæmlega engin og er það ekki enn.
    Eins og raunar er um hina nýju tillögu, þá var í fyrri tillögunni ekki farið að neinu leyti inn á hina siðferðilegu, trúarlegu eða félagslegu hlið málsins heldur einungis verið að biðja um að tryggð yrði sú réttarfarslega og lagalega.
    Það er ljóst að hér er um mjög flókið og erfitt mál að ræða sem hefur vafist fyrir ýmsum þjóðum að setja lög um. Og eins og kom fram áðan hafa t.d. Danir tekið þann kost að semja engin lög heldur skipa svokallaða siðanefnd.
    Þegar þessi tillaga hafði verið samþykkt hér á þinginu var sett á laggirnar nefnd. Formaður hennar var Ólafur Walther Stefánsson, skrifstofustjóri í dómsmrn., og í henni sátu að öðru leyti Jón Hilmar Alfreðsson yfirlæknir, Ásta K. Ragnarsdóttir, námsráðgjafi við Háskóla Íslands, tilnefnd af Barnaverndarráði, Ólafur Axelsson hrl. og Þórður S. Gunnarsson hrl. og með nefndinni vann síðan Drífa

Pálsdóttir, lögfræðingur dómsmrn.
    Ég hafði í morgun samband við formann nefndarinnar og hann upplýsti mig um að þegar lægi fyrir töluvert mikið verk um þetta mál þannig að nefndin teldi að af því mætti hafa mikið gagn við samningu laga. Og skildist mér að ekki liði á löngu þar til nefndin legði þetta mikla rit fram því hér mun hafa verið unnið verulega mikið starf.
    Um þetta mál að öðru leyti mætti ýmislegt segja en það verður ekki gert hér. Ég held að það sé mjög gagnlegt og mjög þarft að flytja þessa till. að nýju núna þó hún sé kannski að efni til ekki ólík hinni. Ég held að nauðsynlegt sé að reka á eftir að menn setji lög um þessi mál. Það er ljóst að á okkar dögum fleygir þekkingu mannkynsins ört fram og ekki síst á sviði líffræði og læknavísinda. Er nú svo komið að löggjafanum er falið það erfiða hlutskipti að kveða á um dauðastund, líknardauða og upphaf lífs sem menn hafa ekki þurft að fást við áður. Margt af þessari þekkingu getur orðið til þess að auka hamingju manna sé henni beitt af skynsamlegu viti, en það er bráðnauðsynlegt að löggjafarvaldið fylgist náið með því sem er að gerast, reyni að gera sér grein fyrir hvernig ný tækni grípur inn í líf einstaklinga og setji reglur um það hvernig hún megi best verða þeim til farsældar. Og það verður því aðeins gert að maðurinn sé fær um að sjá fyrir afleiðingar tækninnar og reyni að stýra henni.
    Það er eitt atriði sem ég vil aðeins leyfa mér að vekja athygli á, sem ég veit raunar ekki hvernig nefndin hefur farið með, en það er ljóst að eins og reglur eru í dag, þá stendur einstæðum konum ekki til boða að eignast barn með þessum hætti. Það virðist vera gert ráð fyrir því að það skuli vera, þegar um glasafrjóvgun er að ræða, eiginmaður konunnar og frjóvgun með sæði þekkts eða óþekkts sæðisgjafa virðist ekki heldur standa einstæðri konu til boða. Nú getum við spurt okkur hvort það sé ekki dálítið gamaldags viðhorf að vel menntuð nútímakona í góðu starfi sem vill gjarnan eiga barn eigi ekki að fá að njóta þessarar þjónustu eins og hver annar séu hennar félagslegu aðstæður metnar á sama hátt og þeirra hjóna sem samþykkt er að greiða fyrir að þessu leyti. Og ég vil lýsa þeirri skoðun minni að í mörgum tilvikum held ég að það sé engin ástæða til að hafna beiðni konu þótt hún sé ekki í hjónabandi ef hún er að öðru leyti fær um að ala barn sitt upp á þann hátt sem reynt er að tryggja þegar við þessum beiðnum er orðið.
    Að öðru leyti vil ég lýsa yfir ánægju minni með að þessi tillaga skuli komin fram og ég vænti þess að hv. þm. sýni þessu máli fulla alvöru og sú nefnd sem málið fær til meðferðar greiði fyrir því að flýtt sé fyrir löggjöf um þessi efni eða reglum eftir því sem menn kjósa að hafa það.