Tæknifrjóvganir
Mánudaginn 20. nóvember 1989


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Þessi tillaga er um að lagt verði fyrir Alþingi lagafrv. um réttarstöðu og tryggingamál þeirra sem hlut eiga að því máli sem tillagan fjallar um sem er glasafrjóvganir. Í tillögunni er það tekið fram að áður en glasafrjóvganir hefjist hér á landi skuli þetta frv. lagt fram.
    Nú er það ekkert tryggt að það frv. verði að lögum þó að það sé lagt fram og mér finnst í sjálfu sér, ef það er í huga flm. skilyrði að sett séu lög áður en glasafrjóvganir fari fram hér á landi, að tillagan ætti að vera um það. En það er ekki það sem ég gagnrýni við þessa tillögu. Ég vil gagnrýna efnisatriði. Ég sé ekki að það sé nauðsynlegra að leggja fram slíkt frv. nú, áður en notuð verður aðstaða og þekking sem menn hér á landi hafa aflað sér til þess að hægt sé að framkvæma þessar aðgerðir hér, en þegar foreldrar fá þessa þjónustu erlendis. Ég sé ekki annað en að spurningar og vafaatriði um réttarstöðu geti jafnt komið upp hvort sem frjóvgunin hefur farið fram hér á landi eða erlendis.
    Hv. flm. upplýsir það í greinargerð sinni að slík starfsemi hafi farið fram hér á landi síðan 1979 og hafi verið greidd af sjúkrasamlagi á sama hátt og aðrar læknisaðgerðir. Upplýsingar flm. um greiðslu eru villandi. Hún notar orðið ,,tæknisæðingar`` um þær aðgerðir sem fram hafa farið hér á landi að þessu leyti. Öðru máli gegnir um glasafrjóvganir, þar sem ekki er notað sæði óþekkts manns heldur eiginmanns eða sambýlismanns. Hjón sem æskja þessarar þjónustu að mati læknis hafa þurft að fara utan og sú þjónusta var til skamms tíma ekki greidd af sjúkratryggingum. Það er mér mætavel kunnugt um vegna þess að það féll í minn hlut sem tryggingaráðherra að gefa út þá reglugerð sem birt er sem fskj. með þessu þingskjali og var algert nýmæli hér á landi. Kostnaður við glasafrjóvganir af þessu tagi hafði ekki verið greiddur úr tryggingum áður. Skilyrði þess að það væri unnt var að komið væri á samningi við heilbrigðisstofnun erlendis á líkan hátt eins og t.d. hjartaaðgerðirnar byggðust á samningi við spítala í Bretlandi. Þá fól ég embættislæknum að kanna þessa möguleika hjá þeim sjúkrastofnunum sem framarlega þóttu standa á þessu sviði og út úr því starfi kom þessi samningur við Bourn Hall Clinic.
    Ástæðan til þess að þessi reglugerð var gefin út var að þar með var unnt að greiða þessa þjónustu úr sjúkratryggingum. Mér hafði orðið það æ ljósara að það var grimmilegt og ómannúðlegt að sjúkratryggingar greiddu eftir færibandi fóstureyðingar, eyðingu lífs, en greiddu ekki eyri vegna þeirrar aðgerðar sem fólst í því að nýta læknisfræðina til þess að hjálpa foreldrum til að eignast barn saman, foreldrum sem ella hefðu ekki getað það. Þessi var ástæðan fyrir samningnum við Bourn Hall Clinic og fyrir reglugerðinni sem birt er sem fylgiskjal með þessari þáltill. Ég get alveg sagt hv. flm. það og öðrum þeim hv. þm. sem hér eru að ég fékk nokkrar athugasemdir við það að ég skyldi láta mér detta í

hug að slík aðgerð yrði greidd af sjúkratryggingum. Og mitt svar var þetta: Ef sjúkratryggingar greiða læknisfræðilegar aðgerðir til þess að eyða lífi í móðurkviði, hví skyldu ekki sjúkratryggingar greiða læknisaðgerð til að stofna til lífs í móðurkviði? Eða að stofna til meðgöngu nýs lífs? Og þá var spurt: Er það sjúkdómur? Ég hefði eins getað spurt: Er ástæða til fóstureyðingar alltaf sjúkdómur? Ég tel hins vegar, þó að það sé í mörgum tilfellum ekki sjúkdómur er veldur því að hjón geta ekki eignast barn saman þá eru það oft afleiðingar sjúkdóma. Fyrst læknisfræðin býr yfir þeirri þekkingu og þeirri tækni að unnt sé að ráða á þessu bót sé ég ekki að við þurfum að bíða eftir sérstakri löggjöf um réttarstöðu foreldra og barns í slíku tilfelli því að það er mín skoðun að réttarstaða barns í slíku tilfelli sé og eigi að vera nákvæmlega eins og barns sem getið er með venjulegum hætti. Og þetta segi ég vegna þess að ég óttast það nokkuð ef það á ekki að vera einkamál foreldranna og líka barnsins hvort það hefur orðið til með glasafrjóvgun eða með venjulegum hætti. Ég tel að það gæti verið erfitt fyrir barn að rísa undir þeirri vitneskju og einkanlega athugasemdum annarra um að það hefði komið til sögunnar með einhverjum öðrum hætti en flest börn. Ég sé ekki annað en að þegar allt er skoðað þá fari meðganga barnsins og fæðing fram með alveg venjulegum hætti og það á rétt eins og önnur börn sína kynforeldra og erfðafræðilegu foreldra eins og hv. flm. orðaði það hér. Ég vildi sérstaklega leggja áherslu á, að ég tel að réttarstaða fólks eigi að vera slík að við lítum á þetta sem eðlilega þjónustu þegar svo stendur á sem staðreyndin er um mörg hjón að þau geti af læknisfræðilegum ástæðum eignast börn með glasafrjóvgun en ekki með venjulegum hætti. Hitt get ég svo verið sammála flm. um að því er varðar fósturvísa og réttarstöðu þeirra sem eiga óþekktan föður eða frjóvgun sem orðið hefur með óþekktu sæði, að allt þetta vekur miklar og alvarlegar spurningar. Og þar er ekki nóg með að til komi frv. til laga sem gilda aðeins á Íslandi um slíkt, heldur þarf að vera samræmi í löggjöf Íslands og ýmissa annarra þjóða um þetta efni. Að því er unnið, m.a. í sérfræðingasamstarfi á vegum Evrópuráðsins.
    Ég taldi að þetta væru upplýsingar sem þyrftu að komast á framfæri.