Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. nóvember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Þetta frv. fjallar um heimildir til aukinnar lántöku ríkissjóðs, bæði innlendrar og erlendrar og einnig lántöku til Byggðastofnunar og Atvinnutryggingarsjóðs eins og komið hefur fram. Frv. vitnar um vanmat á aðstæðum og óraunsæja fjármagnsstjórn á sl. ári og reyndar einnig á árum áður. Einmitt þess vegna og þannig erfa menn óráðsíu og skuldir annarra.
    Þrátt fyrir vissa viðleitni til betra reikningshalds á þeim búreikningi sem fjárlög ríkisins eru hafa þó stærðir í þessu frv. breyst, jafnvel meðan á stuttri umfjöllun þess hefur staðið. Svo óraunsæjar virðast áætlanir enn vera og vitna kannski ekki bara um ákveðið gjaldþrot í fjármálastjórn ríkisins heldur og ekki síður um gjaldþrot í uppbyggingu atvinnumála og byggðastefnu almennt.
    Atvinnutryggingarsjóður, sem einmitt var settur á laggirnar til þess að bjarga atvinnuvegum sem lá við hruni, og Byggðastofnun, sem hefur haft það með höndum að styðja við atvinnufyrirtæki úti á landi, hafa átt fullt í fangi með að reisa við fyrirtæki eða jafnvel, eins og í tilviki Byggðastofnunar, að kaupa upp eignir fyrirtækja á nauðungaruppboðum vegna gjaldþrota og einmitt þess vegna hefur aukin fjárþörf þessara tveggja sjóða komið til.
    Eins og kom fram í máli hv. 2. þm. Norðurl. e. virtist það, jafnvel 10 dögum eftir að ríkisstjórnin hafði samþykkt að veita aukið lán til Byggðastofnunar vegna brýnnar fjárþarfar, ekki vera ljóst með hverjum hætti lánið ætti að taka, hvort Byggðastofnun ætti sjálf að sjá um það mál eða hvort ríkisstjórnin ætlaði að gera það. Ég held ekki að um óljós skilaboð hafi einungis verið að ræða. E.t.v. hafði ekki verið tekin um málið pólitísk ákvörðun. Miðað við það hversu stutt er til áramóta er afleitt að láta 10 daga líða eftir að þessi ákvörðun hefur verið tekin og láta ekki liggja ljóst fyrir forsvarsmönnum Byggðastofnunar með hverjum hætti þessi lántaka ætti að fara fram. Við kvennalistakonur treystum okkur ekki til þess að bera ábyrgð á reikningshaldi sem við höfum haft svo lítið tækifæri til þess að ráða nokkru um eða meta forsendur fyrir og styðjum því ekki álit meiri hl. nefndarinnar. Við viljum þó ekki standa gegn því eða tefja málið og munum ekki greiða um það atkvæði.